VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Orlof vegna greiðsluerfiðleika

Ef atvinnurekandi stendur ekki í skilum með greiðslu orlofslauna skv. 7. eða 8. gr. laga um orlof nr. 30/1987, án þess þó að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta, getur launamaður eða hlutaðeigandi stéttarfélag í umboði hans snúið sér til Ábyrgðarsjóðs launa með orlofslaunakröfuna. Krafa skal studd fullnægjandi gögnum um fjárhæð hennar, svo sem launaseðlum og vottorði viðkomandi atvinnurekanda eða löggilts endurskoðanda hans.

Áskorun til vinnuveitanda og innlausn.

Ef krafa launamanns uppfyllir framangreind skilyrði skal Ábyrgðarsjóður launa þegar í stað skora á vinnuveitanda að greiða kröfuna eigi síðar en þremur vikum frá dagsetningu áskorunar.

Komi fram andmæli af hálfu vinnuveitanda sem sjóðurinn telur réttmæt, svo sem um að krafan hafi þegar verið greidd eða hún niður fallin af öðrum ástæðum, skal sjóðurinn vísa kröfunni frá. Kröfu launamanns skal einnig vísað frá ef fram er komin beiðni um gjaldþrotaskipti á búi vinnuveitanda.

Standi framangreind atriði ekki í vegi fyrir því að greiða megi kröfu launamannsins skal Ábyrgðarsjóður launa innleysa kröfuna eigi síðar en fimm vikum frá dagsetningu áskorunar.

Um ábyrgð sjóðsins fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum c-liðar 5. gr., 6. gr. og IV. kafla laganna nr. 88/2003, eftir því sem við á.

Aðfararhæfi og innheimta

Krafa Ábyrgðarsjóðs launa vegna innleystrar orlofslaunakröfu er aðfararhæf gagnvart vinnuveitanda. Innleyst krafa nýtur sömu stöðu gagnvart þrotabúi vinnuveitanda og krafa launamanns hefði ella notið.

Á kröfu sem innleyst hefur verið samkvæmt reglum þessum reiknast dráttarvextir samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu, fyrst 15 dögum eftir innlausn.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn