VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Yfirvinna

Yfirvinna telst sú vinna sem unnin er utan tilskilins daglegs 8 klst. vinnutíma á dagvinnutímabili virkra daga, eins og það er skilgreint í viðkomandi kjarasamningi, frá mánudegi til föstudags. Það þýðir t.d. að þótt skrifstofumaður hefji störf eftir hádegi, og hafi þannig einungis unnið 4 klst. kl. 17.00 þegar dagvinnutímabili lýkur samkvæmt kjarasamningi, hefst yfirvinna hjá honum kl. 17.00. Hjá vaktavinnufólki er yfirvinna sú vinna sem unnin er umfram umsamdar vaktir starfsmanns.

Það telst almennt ekki yfirvinna, vinni starfsmaður sem ráðinn er til hlutavinnu aukavinnu, sé sú aukavinna unnin á dagvinnutímabili. Sé hún hins vegar unnin utan dagvinnu telst hún vera yfirvinna. Í kjarasamningum á opinberum vinnumarkaði má þó finna dæmi um að vinna hlutavinnufólks, sem unnin er umfram umsamdan vinnutíma, skuli teljast yfirvinna þótt á dagvinnutímabili sé.

Vera kann að ofangreind túlkun íslenskra kjarasamninga samræmist ekki EES rétti. Yfirvinnu hlutavinnufólks (aukavinnu) ber að greiða með sömu álögum og yfirvinnu þeirra sem eru í fullu starfi. Annað felur í sér mismunun og brot gegn annars vegar tilskipun 97/81/EC um hlutastörf og hins vegar gegn tilskipun 2006/54/EC um jöfn tækifæri og jafna meðferð karla og kvenna sé hægt að sína fram á að brotið hitti konur frekar fyrir þar sem hærra hlutfall þeirra sinnir hlutastörfum en karlar. Þetta er niðurstaða Evrópudómstólsins frá 29.7 2024 í málunum C-184/22 og C-185/22.  Tilskipanir þessar hafa verið leiddar í lög hér á landi með lögum nr. 10/2004 um starfsmenn í hlutastörfum og lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Í kjarasamningum er almennt samið um yfirvinnuálag, það er viðbótarkaup vegna vinnu í yfirvinnu. Almennt er yfirvinnuálag samkvæmt kjarasamningum ASÍ, 80% álag ofan á dagvinnutímakaup.

Sé unnið á launuðum frídegi sem fellur á virkan dag vikunnar eins og t.d. annan í jólum ber að greiða fyrir þann dag 8 dagvinnutíma en að auki unna tíma með yfirvinnukaupi. Sé unnið á launuðum stórhátíðardegi sem fellur á virkan dag vikunnar eins og t.d. á jóladag ber að greiða fyrir þann dag 8 dagvinnutíma en að auki unna tíma með stórhátíðarálagi. Sjá t.d. Hrd. 601/2017. Sjá einnig „Aukafrídagar, aukahelgidagar„.

Launafólki á almennum vinnumarkaði er almennt ekki skylt að vinna yfirvinnu þótt eftir því sé leitað en stundum eru ákvæði um það í ráðningarsamningi starfsmanna. Í einstaka kjarasamningum má einnig finna ákvæði um skyldu til að vinna yfirvinnu og í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 segir í 17. gr. að starfsmönnum sé skylt að vinna yfirvinnu sem yfirboðarar telja nauðsynlega.

Þótt ekki sé sérstaklega samið um skyldu til að vinna yfirvinnu getur þó sérstaða starfa orðið þess valdandi að slík skylda sé til staðar. Venja getur með öðrum orðum skapað skyldu til að vinna yfirvinnu. Þannig eru sjómenn á farskipum skyldugir til að vinna yfirvinnu þótt ekki sé um slíkt samið sbr. Féld. nr. 6/1986 þar sem Félagsdómur dæmdi yfirvinnubanni ólöglegt þótt ekki væri í kjarasamningum að finna fyrirmæli um almenna skyldu til yfirvinnu. Dómurinn vísaði til eðlis kaupskipaútgerðar og áratuga venju um vinnutilhögun.

Séu ákvæði um fasta yfirvinnu í ráðningarsamningi er atvinnurekandi skuldbundinn til að greiða starfsmanni sínum kaup fyrir þá yfirvinnu, jafnvel þótt hún sé ekki unnin. En hafi atvinnurekandi beðið starfsmann um að vinna yfirvinnu, sem hann gerir ekki, ber atvinnurekanda ekki skylda til að greiða fyrir það, jafnvel þótt samið sé um fasta yfirvinnu. Yfirvinnan er þá hluti af starfskjörum starfsmannsins og verður ekki breytt án undangenginnar uppsagnar. Vilji atvinnurekandi minnka vinnuna, eða taka fasta yfirvinnu af, ber honum að tilkynna það með uppsagnarfresti viðkomandi starfsmanns. Þó kann að vera í kjarasamningum heimild til skemmri tilkynningarfrests á fastri yfirvinnu.

Takmörk eru fyrir því hve mikla yfirvinnu starfsmaður má vinna. Um þetta eru ákvæði í kjarasamningum og lögum. Sjá nánar „Vinnu og hvíldartímareglur“.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn