Krefjist atvinnurekandi læknisvottorðs til sönnunar forföllum vegna veikinda ber honum að greiða fyrir útgáfu vottorðsins. Um þeta eru alls staðar ákvæði í kjarasamningum og reglugerð um opinbera starfsmenn.
Læknisvottorð er skrifleg yfirlýsing læknis um ástand annars manns, líkamlegt eða andlegt, og byggt á sérþekkingu læknisins. Læknirinn verður oft að reiða sig á lýsingu sjúklingsins á líðan sinni ef ekki eru augljós merki sjúkdóms eða slyss, svo sem sótthiti, bólga eða brotin bein. Svo sem læknalög segja, ber lækni að sýna varkárni og nákvæmni við útgáfu vottorða. Oft er læknum þó vandi á höndum, og hafa raddir úr þeirra hópi haldið því fram að óeðlilegt sé að krefjast læknisvottorða af starfsmanni í hvert skipti sem veikindi verða. Það sé misnotkun á læknum og lýsi aðeins trúnaðarbresti milli starfsmanna og atvinnurekenda. Hafa læknar jafnvel gefið út vottorð um það eitt að þeim hafi verið tjáð af viðkomandi manni að hann hafi talið sig veikan ákveðna daga. Ljóst er að slík vottorð hafa ekkert gildi.
Samkvæmt 19.gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012 ber að sýna varkárni og nákvæmni við útgáfu vottorða og annarra yfirlýsinga. Skal votta það eitt er vitað er sönnur á. Ráðherra er heimilt að setja nánari nánari reglur um gerð og útgáfu vottorða í reglugerð. Reglur nr. 586/1991 um útgáfu læknisvottorða voru gefnar út árið 1991 og áttu aðilar vinnumarkaðarins aðild að samningu þeirra. Þar er meðal annars kveðið á um það að lækni beri skylda til að votta samskipti sín og sjúklings, óski sjúklingur eftir því, eða eftir atvikum foreldri eða forráðamaður eða annar umboðsmaður hans. Við útgáfu læknisvottorða skal læknir sérstaklega hafa í huga tilgang vottorðsins. Hann skal gæta fyllstu varkárni og nákvæmni við gerð læknisvottorða og einungis votta þau atriði er hann veit sönnur á læknir skal ekki staðhæfa annað í vottorði en hann hefur sjálfur sannreynt og geta skal nákvæmlega þeirra heimilda er vottorðið kann að styðjast við. Greina skal glögglega milli frásagnar annara, eigin athugunar læknis og álits hans. Lækni ber að hafa þagnarskyldu sína og siðareglur í huga við gerð læknisvottorðs. Hann skal sérstaklega gæta þess að óviðkomandi aðilum séu ekki látin í té læknisvottorð nema fyrir liggi samþykki sjúklings. Lækni ber að vanda allan frágang vottorðs . Notast skal við íslenskt orðaval og því aðeins erlend fræðiheiti að íslensk orð skorti.
Viðkomandi heilsugæslulæknar eða heimilislæknar eru að jafnaði þeir sem hafa yfirlit yfir sjúkrasögu sjúklings og þeir gefa því oftast út veikindavottorð til atvinnurekanda. Atvinnurekandi getur ekki hafnað vottorðum þeirra og farið fram á að fá vottorð frá öðrum en þeim. Hann getur því ekki hafnað vottorði heimilislæknis og krafist þess að fá vottorð frá skurðlækni eða svæfingalækni séu forföll frá vinnu að rekja til aðgerðar á sjúkrahúsi. Hann getur hins vegar ekki hafnað vottorðum annarra lækna t.d. sérfræðings sem annast hefur sjúkling.
Atvinnurekandi getur heldur ekki leitt sem vitni í dómsmáli aðra lækna en þá sem sinnt hafa hinum veika sbr. m.a. Hrd. 631/2013 en þar var fjallað um úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á beiðni L ehf. um að leiða sem vitni fyrir héraðsdóm þrjá lækna í því skyni að færa sönnur á hvort skilyrðum 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 væru uppfyllt í máli sem J höfðaði á hendur L ehf. til heimtu veikindalauna á grundvelli ákvæðisins. Málsaðila greindi á um hvenær J hefði veikst í merkingu ákvæðisins. Hæstiréttur felldi úrskurð héraðsdóms úr gildi að því er varðaði heimild L ehf. til að leiða læknana JK og ÓÁ sem vitni í málinu þar sem fyrir lægi að þeir hefðu ekki annast J í veikindum sem hann reisti málsókn sína á. Því yrðu skýrslugjafir þeirra fyrir dómi ekki reistar á reglum VIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hæstiréttur staðfesti á hinn bóginn hinn kærða úrskurð varðandi heimild L ehf. til að leiða lækninn ÓG sem vitni í málinu þar sem talið var að skilyrði 3. mgr. 18. gr. laga nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn væru uppfyllt hvað hann varðaði, enda gætu úrslit málsins oltið á framburði þess læknis sem annast hefði J í veikindum hans.
Dragi atvinnurekandi gildi læknisvottorðs starfsmanns í efa verður hann að hnekkja því, svo sem með því að fá vottorð frá trúnaðarlækni sínum þar um. Dómstólar hafa í nokkrum tilvikum tjáð sig um gildi og þýðingu læknisvottorða.
Í Hrd. 297/1984 var staðfestur dómur héraðsdóms í máli það sem deilt var um gildi læknisvottorðs sem gefið var út til að sanna veikindi sjómanns. Vottorðið var gefið út þremur dögum eftir að skip hélt úr höfn, en þá fyrst hafði sjómaðurinn samband við lækni. Útgerðin var sýknuð af kröfum sjómannsins, þar sem umrætt læknisvottorð væri ekki hægt að leggja til grundvallar sem sönnunargagn um veikindaforföll mannsins.
Skv. Hrd. 298/2001 ber atvinnurekanda sem ber brigður á tilkynnta veikindafjarvist starfsmanns síns að gera kröfu um að launamaður afli slíks vottorð áður en gripið er til aðgerða eins og t.d. brottvikningar. Geri hann það ekki getur hann ekki síðar borið það fyrir sig að launamaður hafi verið frá störfum án lögmætrar ástæðu.
Í dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 1992 var fjallað um hugtakið læknisvottorð. Þar sagði að svarbréf læknis um við fyrirspurn lögmanns um heilsufar konu áður en tiltekin aðgerð var framkvæmd, sem skrifað var þremur árum eftir aðgerðina, verði ekki talið læknisvottorð í skilning kjarasamnings.