VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

EES réttur og landsréttur

Samspil íslenskra laga og EES réttar er í grundvallaratriðum ólíkt samspili ESB réttar og landsréttar aðildarríkja ESB.

Meginreglu EES réttar í þessu efni er að finna í EES samningnum, bókun 35. Þar segir: „Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum.“ EFTA dómstóllinn hefur skýrt bókunina með þeim hætti að EES regla sem innleidd hefur verið í landsrétt skuli hafa forgang gagnvart ósamrýmanlegu ákvæði í landsréttar ( sjá t.d. mál E-1/07 ).

Þessi bókun var innleidd í íslensk lög sem lögskýringarregla en í 3.gr. laga nr. 2/1993 segir: „ Skýra skal lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.“ Hæstiréttur Íslands hefur fjallað um þetta ákvæði laganna í nokkrum tilvikum. Fyrst þegar það var gert á árinu 2003 (Hrd 477/2002) var litið svo á að líta bæri á reglu EES samningsins um bann við tiltekinni skattlagningu sem sérreglu sem gengi framar eldra lagaákvæði sem væri andstætt sérreglunni. Í síðari dómum sínum nálgast Hæstiréttur Íslands þetta með öðrum hætti og í dómi frá í janúar 2013 (Hrd 10/2013) segir: „Í 3. gr. laga nr. 2/1993 er mælt á þann veg að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Eins og greinir í dómi Hæstaréttar 9. desember 2010 í máli nr. 79/2010 tekur lögskýring samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verður svo sem framast er unnt gefin merking sem rúmast innan þeirra og næst kemst því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eiga á Evrópska efnahagssvæðinu. Slík lögskýring getur á hinn bóginn ekki leitt til þess að litið verði fram hjá orðum íslenskra laga eins og í dóminum segir.“ Þetta þýðir einfaldlega að EES reglur hafa ekki forgangsáhrif í íslenskum rétti og sem um leið þýðir að Ísland áskilur sér og hefur meira svigrúm við innleiðingu EES réttar en aðildarríki ESB hafa.

Hæstiréttur Noregs hefur ekki tekið alls ólíka afstöðu. Í máli frá árinu 2000 (HR-2000-49-B) var fjallað var um skaðabótareglur norskra umferðarlaga sem taldar voru af EFTA dómstólnum í ráðgefandi áliti, að hluta andstæðar EES rétti og tilteknum þremur tilskipunum ESB sem Noregur taldi sig hafa innleitt. Í niðurstöðu sinni segir Hæstiréttur Noregs: „….i norsk rett gjelder et såkalt presumsjonsprinsipp, hvoretter en lov så vidt mulig skal tolkes i samsvar med våre folkerettslige forpliktelser, og dermed i samsvar med de tre EØS-direktivene. I dette tilfelle hadde man å gjøre med en bestemmelse som vanskelig kunne forstås på flere måter. Dersom den skulle settes til side, ville man være utenfor det som med rimelighet kunne anses som en tolkning av bestemmelsen, og dette ville nærmest innebære at de ikke gjennomførte direktivene ble gitt direkte virkning med forrang fremfor formell lov. Det ville bli problematisk for private rettssubjekter om de ikke skulle kunne innrette seg etter gjeldende norsk lov..“  Hér er niðurstaðan sú hin sama og Hæstaréttar Íslands þ.e. að EES réttur hefur ekki forgangsáhrif í landsrétti.

Hæstiréttur Noregs fjallaði í dómi frá í mars 2013 (HR-2013-0496-A) mikilvægi þess sem kallað er í dóminum „den norske arbeidslivsmodellen“ eða norska vinnumarkaðsmódelið og hvort það og tilteknir hlutar þess (ergo omnes áhrif kjarasamninga skv. sérstakri ákvörðun) gætu notið verndar undir ákvæðum gr. 3.10 í tilskipun 96/71/EC um útsenda starfsmenn þar sem fjallað er um undanþágur frá reglum tilskipunarinnar á grundvelli ákvæða um allsherjarreglu (public policy provisions) en þar segir: „Þessi tilskipun útilokar ekki að aðildarríkin beiti gagnvart innlendum fyrirtækjum og fyrirtækjum í öðrum ríkjum, í samræmi við sáttmálann og á grundvelli jafnrar meðferðar: — ráðningarskilmálum og atvinnuskilyrðum sem lúta að öðrum atriðum en þeim sem um getur í fyrstu undirgrein 1. mgr. ef um ræðir ákvæði um allsherjarreglu, ….“ Hæstiréttur Noregs komst að þeirri niðurstöðu að svo gæti verið og í dóminum segir (mgr. 161): „Spørsmålet er om bestemmelser av betydning for stabiliteten i en slik grunnleggende samfunnsordning kan sies å angå „offentlig orden“ i direktivets forstand. Ut fra den redegjørelse departementet gir i Ot.prp. nr. 88 (2008–2009) må dette etter min oppfatning langt på vei kunne besvares bekreftende.

Í þessum sama dómi tók Hæstiréttur Noregs sér einnig talsvert svigrúm til þess að víkja frá ráðgefandi álitum EFTA dómstólsins en í dóminum segir (mgr. 94): „ …. at Høyesterett ikke skal legge EFTA-domstolens uttalelse uprøvet til grunn, men har både myndighet og plikt til selvstendig å ta stilling til hvorvidt og i hvilken grad dette skal gjøres. På denne bakgrunn kan jeg ikke se at Høyesterett er formelt avskåret fra å bygge på et avvikende syn.“

Þetta samband EES réttar og landsréttar er gerólíkt sambandi ESB réttar og landsréttar og þá þeim reglum sem Danmörk, Svíþjóð og Finnland búa við sem aðildarríki ESB. Þar hefur því fyrir löngu verið slegið föstu af Evrópudómstólnum að ESB réttur hefur forgangsáhrif gagnvart rétti aðildarríkjanna (Costa v. ENEL, mál nr. 6/64) auk þess sem ESB reglur geta haft bein réttaráhrif í landsrétti án þess að hafa verið innleiddar. Niðurstaðan er því líklega sú, að bæði Ísland og Noregur hafi mun meira svigrúm en hin norðurlöndin til þess að standa vörð um vinnumarkaðsmódel sín og þá um leið hið norræna vinnumarkaðsmódel.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn