Aðilum, sem bundnir eru af ráðningarsamningi, er skylt að virða samninginn og vinna samkvæmt honum. Sé það ekki gert hefur annar hvor aðilinn gerst sekur um vanefndir á samningi. Vanefndir geta verið mismiklar; allt frá því að starfsmaður mætir 5 mínútum of seint einn daginn til þess að hann hleypur fyrirvaralaust úr starfi og allt frá því að atvinnurekandi fyllir ekki rétt út launaseðil og til þess að rekur starfsmann án ástæðu og fyrirvaralaust.
Úrræði vegna vanefnda
Úrræði gagnaðila vegna vanefnda af þessu tagi geta verið allt frá því að gera athugasemd vegna vanefndarinnar og til riftunar samnings eða kröfu um skaðabætur. Fer það eftir því hversu veruleg vanefndin er hversu alvarlegt brot er og einnig skiptir máli hvernig aðilar bregðast við broti.
Þau tilvik geta orðið að starfsmanni er heimilt að hætta störfum fyrirvaralaust og rifta ráðningarsamningi. Sömuleiðis getur atvinnurekandi átt til þess fullan rétt að víkja manni úr starfi á stundinni. Þetta gerist ef annar hvor aðili brýtur á hinum veigamikil atriði ráðningarsamnings. Skilyrði þess að rifta megi ráðningarsamningi eru almennt hin sömu og skilyrði þess að rifta megi öðrum tegundum samninga. Vanefnd verður að vera veruleg. Það verður að meta hverju sinni hvort um verulega vanefnd er að ræða eða ekki. Dómstólar eiga um það endanlegt mat.
Skilyrði riftunar ráðningarsamnings
Til að hægt sé að rifta ráðningarsamningi verður brot að vera verulegt. Meginskyldur ráðningarsamnings eru skyldur atvinnurekanda um launagreiðslur og skyldur launamanns um vinnuframlag. Séu þær skyldur brotnar, laun til dæmis ekki greidd í einhvern tíma eða starfsmaður neitar að framkvæma starf sem hann er beðinn um, má telja slíkt verulega vanefnd á ráðningarsamningi. Meiri vafi leikur á vanefnd eins og þeirri að starfsmaður hefur þrásinnis mætt 10 mínútum of seint í vinnu eða launagreiðandi hefur um nokkurt skeið greitt laun út tveimur dögum eftir mánaðamót. Sé ekki gerð athugasemd, aðvörun eða áminning strax, og í beinu framhaldi af brotinu, kann sá sem brotið er á að glata rétti til að bera brotið fyrir sig vegna tómlætis.
Almennt má telja að einungis gróf brot, og þannig verulegar vanefndir, veiti aðilum rétt til riftunar á ráðningarsamningi, brot sem unnin eru af ásetningi eða stórfelldu gáleysi, en minni háttar yfirsjónir og mistök myndu ekki falla hér undir.
Brot starfsmanns í síðasta mánuði myndi tæplega veita atvinnurekanda heimild til að víkja honum úr starfi í dag. Tæplega myndi áminning gefin fyrir ári heldur geta talist grundvöllur fyrirvaralauss brottreksturs úr starfi í dag, hafi atvinnurekanda verið kunnugt um brotið. Algengt er að trúnaðarmenn séu kallaðir til ef víkja á manni úr starfi vegna brots.
Aðvörun
Til þess að geta rift ráðningarsamningi vegna verulegs brots nægir þó ekki að um brot sé að ræða, heldur koma hér til sérstakar reglur um aðvörun. Verður að telja að starfsmanni sé skylt að aðvara atvinnurekanda áður en hann öðlast riftunarheimild og með sama hætti ber atvinnurekanda að áminna eða aðvara starfsmann um brottrekstur áður en hann getur gert mann brottrækan úr starfi, nema sakir séu því meiri, til dæmis þjófnaður eða líkamsárás. Sé það ekki gert og samningsaðila gefinn kostur á að bæta ráð sitt áður en til riftunar kemur á samningsaðili það á hættu að vera dæmdur bótaskyldur vegna ólögmætrar riftunar á ráðningarsamningi. (Hrd. 1951:197, 1961:868, 1977:1328, 1990:1427)
Aðvörun verður að vera sannanleg, annað hvort skrifleg eða gefin undir vætti og hana verður að gefa í beinu framhaldi af vanefnd. Að minnsta kosti verður vanefndin að vera tilefni aðvörunarinnar. Í aðvörun atvinnurekanda verður að koma skýrt fram að láti starfsmaður ekki af háttsemi varði það brottrekstri.
Tómlæti
Áhrif tómlætis eru mikil í vinnurétti. Geri starfsmenn ekki athugasemd við ákveðna framkvæmd á kjarasamningi er hætt við að sú framkvæmd hefðist. Geri starfsmaður ekki athugasemd við rangan útreikning á launum sínum, sem honum er kunnugt um, glatar hann rétti til að fá leiðréttingu síðar. Sjá hér um m.a. Hrd. 1951:162, Hrd.1977:1299, Hrd. 1980:998, Hrd. 1991:70 og Hrd. 1997:1905
Skaðabætur
Bæði starfsmenn og atvinnurekendur geta öðlast rétt til skaðabóta vegna vanefnda á ráðningarsamningum. Um þann þátt vísast til kaflanna um „Brot launamanns“ og „Brot atvinnurekanda„.