Þegar fólk ræður sig tímabundið til starfa er almennt ekki innan þess tíma heimilt að slíta ráðningu með uppsögn nema samið hafi verið sérstaklega um það.
Tímabundin ráðning er líka oftast til skamms tíma og aðilar gætu samið um einhvers konar reynslutíma við ráðningu ef þeir teldu þörf á því. Kemur þetta sjónarmið fram í niðurstöðum héraðsdóms í Hrd. nr. 54/1986 hafði maður verið ráðinn tímabundið sem fararstjóri hjá ferðaskrifstofu erlendis en var vísað úr starfi fyrir lok ráðningartíma. Ekki var talið sannað að maðurinn hefði verið ráðinn til reynslu eða að gerður hefði verið við hann samningur í þá veru. Hann mátti því búast við að vera í þjónustu ferðaskrifstofunnar út ráðningartímann bryti hann ekki gegn starfsskyldum sínum.
Þetta sjónarmið er staðfest í Hrd. nr. 489/1989 þar sem deilt var um starfslok opinbers starfsmanns, sem hafði verið ráðinn tímabundið til eins árs, og rétt hans til biðlauna. Í dómi Hæstaréttar sagði meðal annars að ráðningarsamningur mannsins hefði einungis verið gerður til eins árs. Þau ákvæði samningsins, sem atvinnurekandi byggði á, kvæðu ekki skýlaust á um rétt til uppsagnar fyrir lok umsamins starfstíma. Bæri, eins og hér stæði á, að túlka þau starfsmanninum í hag. Einn dómari var á annarri skoðun og skilaði sératkvæði. Spurningar hafa vaknað um það hvort launalaus leyfi jafngildi í þessu sambandi tímabundinni ráðningu og að ekki megi segja manni upp á meðan hann er í slíku leyfi. Af dómsniðurstöðum má ráða að ekki sé hægt að jafna þessu saman. Heimilt sé að segja starfsmanni upp þótt hann sé í einhvers konar tímabundnu leyfi. Sérreglur gilda þó um fæðingarorlof. Sjá hér Félagsdóm 12/1992 (IX:567).