Samkvæmt 65.gr. stjórnarskrár er öll mismunun fólks almennt bönnuð en þar segir „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. – Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“ Á undanförnum árum og áratugum hafa reglur um bann við mismunun þróast hratt, bæði vegna aukinnar verndar mannréttinda almennt en einnig vegna aðildar Íslands að fjölbreyttu alþjóðlegu samstarfi. Samhliða hefur sú þróun átt sér stað, að á ríkisvaldið er lagðar meiri skyldur en áður hvað það varðar að jafnræðis sé almennt gætt, ekki bara í opinberum rétti heldur einnig einkarétti. Þessi þróun hefur einnig haft áhrif á þróun vinnuréttar og á m.a. við um mismunun við uppsagnir.
Skv. EES samningnum bar Íslandi ekki að gildistaka Tilskipun 2000/78/EC þar sem kveðið er á um meginregluna um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri eða kynhneigð. Dómstólum Evrópusambandsins ber að túlka lög til samræmis við hana m.a. í einkaréttarlegum deilum sbr. t.d. dóm Evrópudómstólsins í málinu C-441/14 þar sem fjallað var um mismunun á grundvelli aldurs við uppsögn starfsmanns á almennum vinnumarkaði. Ísland hrinti þessari tilskipun í framkvæmd sbr. lög nr. 86/2018 sem gildi tóku hvað aldur varðar 1.7 2019 en 65.gr. stjórnarskrár tilgreinir ekki það verndarandlag sérstaklega. Sérstaklega er tekið fram í lögunum að þau taki til mismununar við uppsagnir.