VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Atvinnuleysistryggingar

Fjallað er um rétt launafólks til atvinnuleysisbóta í lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006

Atvinnuleysisbætur

Atvinnuleysisbætur eru tvenns konar. Annars vegar grunnatvinnuleysisbætur og hins vegar tekjutengdar atvinnuleysisbætur.

Grunnatvinnuleysisbætur eru greiddar fyrstu 10 virku dagana í atvinnuleysi. Tekjutengdar atvinnuleysisbætur taka þá við í allt að þrjá mánuði en eftir það eru grunnatvinnuleysisbætur greiddar á ný.

Fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta og hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þó er félagsmálaráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta og hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta til hækkunar ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Þegar áðurgreind skilyrði leiða til hækkunar á fjárhæðum skal félagsmálaráðherra breyta þeim með reglugerð.

Bótaréttur umsækjanda 

Bótaréttur umsækjanda miðast við starfstíma og starfshlutfall hans á síðustu tólf mánuðum.  Fullt starf í 12 mánuði skapar umsækjanda 100% bótarétt en ella er rétturinn hlutfallslegur minnst 25%. 
Upphæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta miðast við 70% af meðallaunum á 6 mánaða tímabili tveimur mánuðum áður en sótt er um atvinnuleysisbætur. Ýmsar sérreglur gilda um hlutabætur, geymslu áunnins bótaréttar o.s.frv.  Stéttarfélagið veitir nánari upplýsingar um öll þessi atriði. 

Umsókn um atvinnuleysisbætur

Sótt er um atvinnuleysisbætur hjá Þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar í því umdæmi þar sem umsækjandi er búsettur. 

Helstu fylgigögn með umsókn
  • Vottorð vinnuveitanda. Vottorðið geymir upplýsingar um starfstíma, starfshlutfall og ástæðu starfsloka. 
  • Skattkort. 
  • Önnur gögn ef við á s.s. vegna skertrar vinnufærni, náms, tekna, fjármagnstekna ofl.

Greiðslur atvinnuleysisbóta

Atvinnuleysisbætur eru greiddar fyrsta virka dag hvers mánaðar. Tímabilið sem greitt er fyrir er frá 20. – 19. hvers mánaðar.  Dæmi:  Við útborgun 1. ágúst 2008 er verið að greiða fyrir tímabilið 19. júní – 20. júlí.

Greiðslustofa Vinnumálastofnunar

Greiðslur atvinnuleysistrygginga fyrir landið allt fara fram hjá Greiðslustofu Vinnumálastofnunar. Til að fá upplýsingar um stöðu umsóknar eða greiðslur er hægt að hringja í 582 4900 eða senda fyrirspurn með tölvupósti: greidslustofa@vmst.is

Vinnumálastofnun fer með framkvæmd laganna.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn