Í fjórða kafla laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna er fjallað um Félagsdóm. Þar segir í 26. gr. að Félagsdómur dæmi í málum sem rísa milli samningsaðila um:
1. Samningsaðild einstakra stéttarfélaga og til hvaða starfsmanna samningsaðild þeirra nær.
2. Lögmæti boðaðra eða þegar hafinna vinnustöðvana.
3. Ágreining um skilning á kjarasamningi eða gildi hans.
4. Hverjir falli undir 5.- 8. tl. 19. gr. þessara laga.
5. Önnur atriði sem aðilar hafa samið um að leggja fyrir dóminn enda séu að minnsta kosti þrír af dómendunum því meðmæltir. Félagsdómur dæmir einnig um ágreining um félagsaðild þeirra sem undir lögin falla hvort sem ágreiningurinn er milli samningsaðila, stéttarfélaga eða einstakra starfsmanna og stéttarfélaga.
Félagsdómi er heimilt að dæma í máli um atriði sem tilgreind eru hér að framan sem ágreiningur er um milli fjármálaráðherra eða sveitarfélags annars vegar og hins vegar einstakra starfsmanna eða starfsmannahópa sem ekki falla undir 5. gr. laganna nélög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, enda sé um það samkomulag milli aðila og að minnsta kosti þrír af dómendunum séu því meðmæltir.
Í nokkrum tilvikum hefur komið upp ágreiningur um það hvort einstök mál ættu undir lögsögu Félagsdóms samkvæmt þessu ákvæði.
Í Hrd. 1979:640 var deilt um það hvort BSRB eða einstök félög innan þess hefðu heimild til að gera kjarasamninga fyrir hönd vissra hópa starfsmanna sem nafngreindir voru. Í 34. gr. laga nr. 29/1976 var mælt fyrir um það í hvaða tilvikum Félagsdómur hefði dómsvald út af ágreiningi á lögunum. Þótti ekki verða ráðið af orðum ákvæðisins eða forsögu að þeim hefði verið ætlað að taka til annarra ágreiningsmála en þar greindi. Var talið að ágreiningsefni þetta félli utan dómsvalds Félagsdóms. Þessi dómur var staðfestur í Hæstarétti.
Í Hrd. 1984:648 var deilt um skyldu kennara til að annast gæslustörf í kaffitímum. BSRB krafðist þess að málinu yrði vísað frá Félagsdómi þar sem úrslit þess yltu á túlkun á 31. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna en ekki kjarasamningum. Félagsdómur hafnaði kröfunni þar sem skera yrði úr deiluefninu á grundvelli kjarasamninga. Hæstiréttur staðfesti þessa niðurstöðu.
Í Hrd. 1984:1281 hafði Reykjavíkurborg krafist þess að vísað yrði frá Félagsdómi máli sem BSRB hafði höfðað gegn borginni og gert kröfu um að sú ákvörðun borgarinnar að greiða starfsmönnum sínum er rétt áttu á fyrirframgreiðslu launa hinn 1. október 1984 einungis laun fyrir 1.- 3. október en þann dag hafði verið boðað verkfall. Málsefnið var talið falla undir dómsvald Félagsdóms, þar sem ágreiningurinn varðaði skilning á kjarasamningi aðilanna. Þetta staðfesti Hæstiréttur.
Þótt algengast sé að mál í Félagsdómi sem fjalla um opinbera starfsmenn séu deiluefni milli samtaka opinberra starfsmanna og viðsemjenda þeirra, er ekki útilokað að stefna fyrir Félagsdómi aðila, sem ekki er tengdur stefnanda með kjarasamningi. Í félagsdómi 1/1994 (X:149) stefndi VSÍ fyrir hönd Strætisvagna Reykjavíkur hf. þannig BSRB vegna Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar þótt engir kjarasamningar væru milli þessara aðila. Starfsmannafélagið hafði boðað verkfall á Strætisvagna Reykjavíkur, og var málið höfðað til að fá úr lögmæti verkfallsins skorið.
Lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna hafa frá því þau voru fyrst sett árið 1962 gert ráð fyrir því að Félagsdómur dæmdi í ákveðnum tegundum mála opinberra starfsmanna.