Á vinnumarkaði eru aðstæður víða þannig að óhjákvæmilegt er að vinna á vöktum. Þannig er um störf sem sinna þarf allan sólarhringinn, svo sem á sjúkrahúsum, skipum og við neyðarþjónustu ýmiss konar. Einnig er oft af hagkvæmnisástæðum komið á vaktavinnu til að nýta betur framleiðslutækin. Gert er ráð fyrir vaktavinnu í lögum, bæði í lögunum um 40 stunda vinnuviku og í vinnuverndarlögum. Ekki er þar skilgreint hvað felst í vaktavinnu. Þó segir í lögunum um 40 stunda vinnuviku að í vaktavinnu skuli ekki miða við fleiri en 40 klst. dagvinnu á viku að meðaltali.
Í kjarasamningum er oft samið um vaktavinnu, vaktatöflur, breytingar á þeim og fleira varðandi framkvæmd. Um álagsgreiðslur vegna vakta eru ákvæði í kjarasamningum og eru þau nokkuð mismunandi eftir störfum og starfsgreinum. Í vinnutímasamningi ASÍ og VSÍ(SA) frá 1996 er vaktavinna skilgreind sem vinna sem skipt er niður í mismunandi vinnutímabil/vaktir samkvæmt ákveðnu kerfi þar sem starfsmaður vinnur á mismunandi vöktum. Í 52.gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 er vaktavinna einnig skilgreind og þar segir að vaktavinna sé vinna sem skipt er niður samkvæmt fyrir fram ákveðnu fyrirkomulagi þar sem starfsmaður vinnur á mismunandi vöktum á tilteknu tímabili sem mælt er í dögum eða vikum.
Einstakir hópar vaktavinnumanna eru mismunandi. Megineinkennið er að vinnutími þeirra er að einhverju eða öllu leyti utan dagvinnumarka. Þeir hafa breytilegan vinnutíma og vinnuskyldu um helgar og á sérstökum frídögum. Vinnutími og vinnutímaskipulag fer eftir viðveruþörf vinnustaðarins sem er mismikil. Starfsmaður sem vinnur innan vaktakerfis sem er skipulagt er miðað við viðveruþörf allan sólarhringinn, sjö daga vikunnar, allan ársins hring telst vaktavinnumaður. Vinnutími er breytilegur milli tímabila, getur verið hvenær sem er sólarhrings og vikulegir frídagar flytjast til. Starfsmaður sem vinnur innan vaktakerfis sem er skipulagt miðað við viðveruþörf allan sólarhringinn en ekki alla daga ársins telst jafnframt vaktavinnumaður. Vinnutími getur verið breytilegur milli tímabila og hvenær sem er sólarhringsins. Vikulegir frídagar flytjast til. Starfsmaður sem vinnur innan vaktakerfis sem er skipulagt miðað við viðveruþörf sem er skemmri en 24 stundir og ekki alla daga ársins telst jafnframt vaktavinnumaður. Ofangreindir starfsmenn eiga ekki rétt á helgidagafríi en þeir eiga rétt á bætingu fyrir þá sérstöku frídaga sem ber upp á virka daga.
Stundum vill bera á því, að tekið er upp vinnufyrirkomulag þar sem starfsfólki er gert að vinna á breytilegum tímum eða reglulega utan dagvinnutíma og fyrirkomulagið kallað vaktavinna og álögum hagað skv. því. Slíkt stenst ekki ákvæði kjarasamninga og á starfsfólk kröfu til þess að fá yfirvinnuálag á alla tíma sem unnir eru utan dagvinnutímabils. Það sama á við hafi ekki verið samið um vaktavinnu í kjarasamningi.
Jafnframt hafa sprottið deilur um skipulag vaktavinnu og hvort hægt sé að skipuleggja eina eða fleiri vaktir á sama sólarhring „stubbavaktir“ eða hvort vinnu skuli skilað á samfelldum vinnudegi. Skv. dómi Félagsdóms í málinu nr. 7/2017 var komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn ákvæði 3.1 í kjarasamningi SGS og SA (2023) með því að skipuleggja vinnu starfsmanna þannig að vinnudagur væri ekki unninn í samfelldri heild. Taldi Félagsdómur að þó ekki væri beinlínis kveðið á um að einungis megi vinna eina vakt á sólarhring hefði ákvæði 3.1.2 um samfelldar vaktir enga efnislega þýðingu nema það væri skilið á þann veg að ekki megi skipuleggja vaktavinnu starfsmanna á þann veg að þeir leysi vinnu sína að jafnaði af hendi á mörgum vöktum á sólarhring. Þessi niðurstaða Félagsdóms er í samræmi við niðurstöðu héraðsdóms í málinu nr. E-64/2013.
Í kaflanum um Aðbúnað og hollustuhætti er fjallað um „Vinnuumhverfi vaktavinnufólks„.