Samkvæmt 2. gr. laganna getur félagssvæðið aldrei verið minna en eitt sveitarfélag, en það getur verið stærra. Verkalýðsfélag sem t.d. skilgreindi félagssvæði sitt þannig að það semdi um kaup og kjör þeirra sem stunduðu verkamannastörf í Breiðholtshverfi í Reykjavík gæti þannig ekki talist vera stéttarfélag í skilningi laga nr. 80/1938. Af þessari reglu leiðir einnig, að þegar sveitarfélög eru sameinuð eins og títt er, verða stéttarfélögin að bregðast við, breyta lögum sínum og stækka félagssvæði sín.
Lögin um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 geyma engar takmarkanir við því að fleiri en eitt stéttarfélag starfi í hverri starfsgrein á sama félagssvæði.
Í Félagsdómi 2/1939 (I:6) var um þetta tekist. Þar var því meðal annars haldið fram af hálfu annars aðila að stofnun stéttarfélags í kaupstað þar sem annað slíkt félag var fyrir væri ólögleg og gagnstæð ákvæðum og tilgangi laga nr. 80/1938. Félagsdómur féllst ekki á þessa málsástæðu og segir í dóminum að hið nýja félagi virðist hafa verið stofnað að lögum. Sjá ennfremur Félagsdóm 7/1939 (I:26), en þar sagði dómurinn meðal annars að í 1. gr. laganna nr. 80/1938 væru engar takmarkanir settar við því að ekki mætti vera nema eitt stéttarfélag í hverri starfsgrein á hverjum stað og ekki verði það heldur dregið út af öðrum ákvæðum laganna. Yrði að telja að ef tilgangur löggjafans hefði verið sá að takmarka tölu stéttarfélaganna, þá hefði það þurft að koma skýrt í ljós og það því fremur sem vitað var að á þeim tíma er lögin voru sett væru fleiri en eitt stéttarfélag starfandi og höfðu að minnsta kosti um skeið verið starfandi í sömu starfsgrein innan sama bæjar- eða sveitarfélags.
Skipulag ASÍ gerir ráð fyrir því að þegar svo háttar sem að ofan greinir, þá skuli aðildarsamtök sambandsins gera með sér sérstakt samkomulag. Í 15. grein gildandi laga ASÍ (2006) segir: „Þar sem samningssvið tveggja eða fleiri aðildarfélaga skarast, er þeim skylt að gera með sér samkomulag um samningssviðið. Náist ekki samkomulag er aðildarfélagi heimilt að leggja ágreininginn fyrir miðstjórn, sbr. 10. gr.“