VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Hópuppsagnir

Lög um hópuppsagnir nr. 63/2000 byggja á tilskipun EB nr. 98/59 (sjá nánar hér ) og gilda um hópuppsagnir atvinnurekanda á starfsmönnum af ástæðum sem ekki tengjast hverjum einstökum þeirra þegar fjöldi starfsmanna sem sagt er upp á 30 daga tímabili er sbr. 1.gr. laganna:

  • að minnsta kosti 10 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa fleiri en 20 og færri en 100 starfsmenn í vinnu,
  • að minnsta kosti 10% starfsmanna í fyrirtækjum sem venjulega hafa hið minnsta 100 starfsmenn en færri en 300 starfsmenn í vinnu,
  • að minnsta kosti 30 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa 300 starfsmenn eða fleiri í vinnu.

Við útreikning á fjölda þeirra sem sagt er upp skal litið á uppsögn ráðningarsamnings einstakra starfsmanna sem jafngilda hópuppsögnum að því tilskildu að um minnst fimm uppsagnir sé að ræða.

Starfsmenn sem ráðnir eru tímabundið teljast með þegar metið er hvort fyrirtækin séu „venjulega“ með þann starfsmannafjölda sem tilgreindur er í 1.gr. laganna eða ekki.

Jafnframt telst það til uppsagna þegar ráðningarkjörum er sagt upp einhliða af atvinnurekanda án þess að þær breytingar tengist viðkomandi starfsmönnum sérstaklega. Sjá m.a. dóm Evrópudómstólsins C-422/14 sbr. einnig dóm EFTA dómstólsins í málinu nr. 9/22 og í framhaldinu dóm Landsréttar í málinu nr. 748/2020

Tilgangur laga um hópuppsagnir er tvíþættur. Í fyrsta lagi er tilgangur þeirra að sporna gegn því að atvinnurekandi segi upp fleiri starfsmönnum en nauðsynlegt er. Þetta er meðal annars gert með því að tryggja samráð um leiðir til að koma í veg fyrir uppsagnir eða a.m.k. að fækka í hópi þeirra starfsmanna sem atvinnurekandi áformar að segja upp. Í öðru lagi er tilgangur laganna að leggja þá skyldu á atvinnurekanda að tilkynna stjórnvöldum vinnumarkaðsmála í landinu fyrirfram um uppsagnir starfsmanna, þannig að þau geti gripið til viðeigandi ráðstafana.

Áformi atvinnurekandi hópuppsagnir ber honum að láta fulltrúum starfsmanna í té allar upplýsingar sem máli skipta vegna fyrirhugaðra uppsagna og að minnsta kosti tilgreina skriflega:

  • ástæður fyrirhugaðra uppsagna,
  • fjölda starfsmanna sem til stendur að segja upp og hvaða störfum þeir gegna,
  • hve margir eru að jafnaði í vinnu og hvers konar störfum þeir gegna,
  • á hvaða tímabili fyrirhugaðar uppsagnir eiga að koma til framkvæmda,
  • viðmiðanir sem til stendur að nota við val á starfsmönnum sem segja á upp,
  • upplýsingar um sérstakar greiðslur til starfsmanna vegna uppsagna aðrar en þær sem kveðið er á um í lögum eða kjarasamningum og hvernig þessar greiðslur eru reiknaðar.
VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn