VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Starfsmannaleigur

Með starfsmannaleigu er átt við sjálfstætt starfandi einstakling eða félag sem samkvæmt sérstökum þjónustusamningi leigir út starfsmenn sína gegn gjaldi til að sinna störfum á vinnustað notendafyrirtækis undir verkstjórn þess síðarnefnda. Með þessum hætti verður til þríhliðasamband. Um starfsmannaleigur, starfsmenn þeirra og skyldur notendafyrirtækja er fjallað í lögum nr. 139/2005. Markmið laganna er að tryggja að laun og önnur starfskjör starfsmanna starfsmannaleigna sem starfa á innlendum vinnumarkaði séu í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og kjarasamninga sem gilda á vinnumarkaði hérlendis. Með lögum nr. 34/2013 um breytingu á lögum nr. 139/2005 var síðan fullgilt tilskipun Evrópusambandsins nr. 2008/104 um starfsmannaleigur, sem vísað er til í 32. lið k XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 149/2012.

Frumráðningarsambandið er við starfsmannaleiguna sem greiðir þessum starfsmönnum sínum laun. Í lögunum er sérstaklega kveðið á um að starfsmaður starfsmannaleigu skuli á þeim tíma sem hann sinnir störfum fyrir notendafyrirtæki að lágmarki njóta sömu launa og annarra starfskjara og hann hefði notið hefði hann verið ráðinn beint til notendafyrirtækisins til að gegna sama starfi. Samkvæmt 4.gr. b í fyrrgreindum lögum ber notendafyrirtækið ásamt með starfsmannaleigunni, óskipta ábyrgð á grundvelli þjónustusamnings á vangoldnum lágmarkslaunum sem og öðrum vangreiðslum starfsmanna starfsmannaleigu. Þessi „keðjuábyrgð“ tók gildi með lagabreytingum að undirlagi ASÍ og með samkomulagi við SA á árinu 2018 og gildir ábyrgð bæði gagnvart erlendum og innlendum starfsmannaleigum og nær jafnframt allra atvinnugreina. Samkomulag ASÍ og SA um starfsmannaleigur má lesa í heild sinni hér.

Hvorki er í lögum nr. 139/2005 eða í samkomulagi ASÍ og SA frá 2018 kveðið á um hámarks innleigu sama starfsmanns til sama notendafyrirtækis. Enskt heiti tilskipunar 2008/104/ „..temporary agency work“ ber hins vegar með sér að henni sé ætlað að taka á því þegar starfsmenn eru leigðir til bráðabirgða frá starfsmannaleigu inn til notendafyrirtækis. Íslenskt heiti tilskipunarinnar og laganna sem innleiddu hana ber þetta ekki með sér og ekki er fjallað um hvenær innleiga starfsmanns hættir að vera til bráðabirgða og þá hvort verið sé að misnota þær heimildir sem lögin og tilskipunin veita vegna þessa þríhliða réttarsambands sem felur í sér undantekningu frá meginreglum vinnuréttar.  Nokkur aðildarríki Evrópusambandsins hafa innleitt þessa tilskipun með hámarks innleigutíma hjá sama fyrirtæki og dómstóll sambandsins hefur með dómi í málinu nr. C‑232/20 komist að þeirri niðurstöðu túlka verði tilskipunina þannig að óhófleg lengd innleigu feli í sér misnotkun á heimildum tilskipunarinnar. Hins vegar skapi Evrópurétturinn þeim sem fyrir verður ekki rétt sem fastráðsins starfsmanns notendafyrirtækisins. Um skaðabætur var ekki sérstaklega fjallað. 

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn