Í lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 er fjallað um hvernig reikna ber út rétt manna til atvinnuleysisbóta.
Fyrst eru skoðaðar upplýsingar um atvinnuþátttöku umsækjandans og stöðu hans að öðru leyti á svokölluðu 12 mánaða ávinnslutímabili bótaréttar. Á grundvelli þeirra upplýsinga er tryggingahlutfall (%) hans ákveðið en sú hlutfallstala segir til um hversu háar atvinnuleysisbætur hans verða samkvæmt lögunum.
Því næst eru skoðaðar upplýsingar um tekjur hans á tilteknu viðmiðunartímabili vegna útreiknings á rétti hans til tekjutengdra atvinnuleysisbóta.
Vinnumálastofnun annast þennan útreikning á grundvelli upplýsinga sem umsækjandi um atvinnuleysisbætur leggur fram og samkeyrslu þeirra við upplýsingar frá skattyfirvöldum.
Í lögum um atvinnuleysistryggingar er tekið tillit til þess að staða launafólks á vinnumarkaði getur verið talsvert mismunandi, m.a. hvað varðar ráðningarform, atvinnusögu, vinnufærni o.m.fl. Í lögunum er því að finna ýmsar sérreglur þar sem tekið er mið af þessari fjölbreytni, þ.m.t. reglur um bótarétt launafólks í hlutastörfum, geymslu áunnins bótaréttar og endurmat á bótarétti við þær aðstæður þegar hinn atvinnulausi fer tímabundið í vinnu. Þessar sérreglur koma þá til skoðunar þegar við á auk almennra ákvæða laganna um ávinnslutímabil og ákvörðun tryggingahlutfalls.
Upphæðir atvinnuleysisbóta
Fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta og hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þó er félags- og tryggingamálaráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta og hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta til hækkunar ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga.
Grunnatvinnuleysisbætur eru greiddar fyrstu 10 virku dagana. Tekjutengdar atvinnuleysisbætur taka þá við í allt að þrjá mánuði en eftir það eru grunnatvinnuleysisbætur greiddar á ný.
Upplýsingar um fjárhæð atvinnuleysisbóta má nálgast hér.
Almennar reglur
- Ávinnslutímabil
- Tryggingahlutfall
- Tekjutengdar atvinnuleysisbætur
- Grunnatvinnuleysisbætur
Ýmsar sérreglur
- Hlutabætur
- Geymdur bótaréttur
- Endurmat á rétti til atvinnuleysistrygginga
- Uppsöfnun og vernd réttinda
- Skert starfshlutfall og hlutabætur
Ávinnslutímabil – tímabilið sem launamaður ávinnur sér rétt til atvinnuleysisbóta
Launamaður telst að fullu tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar hafi hann verið samfellt í fullu starfi á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur, að öðrum skilyrðum laganna fullnægðum.
Lágmarksbótaréttur ávinnst hins vegar með vinnu í a.m.k. 3 mánuði.
Vottorð atvinnurekanda er almennt til staðfestingar á starfstímabilum launamanns á ávinnslutímabili. Launamaður skal vera fullra 16 ára þegar ávinnslutímabil hefst.
Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar getur ávinnsla bótaréttar einnig komið til með öðrum hætti en með launavinnu.
Slíkt getur átt við vegna:
- Náms
- Fæðingarorlofs
- Verkfall/verkbanns
Starfshlutfall
Launamaður sem starfað hefur skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur telst tryggður í hlutfalli við lengd starfstímans.
Tryggingahlutfall hans samkvæmt lögunum getur þó aldrei orðið hærra en sem nemur starfshlutfalli hans á ávinnslutímabilinu eða því starfshlutfalli sem hann er reiðubúinn að ráða sig í. Hafi hann ekki verið í sama starfshlutfalli allt ávinnslutímabilið skal miða við meðalstarfshlutfall.
Vottorð atvinnurekanda
Með umsókn um atvinnuleysisbætur verður að fylgja svokallað vottorð atvinnurekanda, en í því eiga að koma fram eftirfarandi upplýsingar:
- Starfstíma og starfshlutfall viðkomandi launamanns.
- Ástæður starfsloka.
Tilgreina verður ástæður þess að launamaður hætti störfum hjá vinnuveitanda, hvort hann hafi tekið út orlof sitt við starfslok og hvernig greiðslum vegna starfsloka hafi verið háttað.
- Frekari upplýsingar / skýringar
Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir frekari upplýsingum frá vinnuveitanda og skattyfirvöldum til að staðreyna þær upplýsingar sem koma fram á vottorði vinnuveitanda.
Hægt er að nálgast þetta eyðublað á heimasíðu Vinnumálastofnunar.
Atvinnurekandi leggur ekki fram vottorð
Þegar launamaður á þess ekki kost að leggja fram vottorð atvinnurekanda skal líta til annarra gagna sem færa sönnur á störf og starfshlutfall hans á ávinnslutímabili. Slíkt getur m.a. komið upp vegna ágreinings aðila um uppgjör launa, lögmæti uppsagnar o.s.frv. Þegar bú atvinnurekanda er undir gjaldþrotaskiptum ætti skiptastjóri þrotabúsins að gefa út þetta vottorð.
Nám
Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar getur námstími reiknast með til ávinnslu bótaréttar.
Nám er skilgreint sem samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.
Skilyrði er að hinn tryggði hafi stundað námið a.m.k. í sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur og hafi sannanlega lokið náminu (námsönn lokið eða próf).
Nám nýtist ekki til hækkunar tryggingahlutfalls nema hinn tryggði hafi jafnframt áunnið sér lágmarksrétt með vinnu. Nám verður þannig ekki notað til hækkunar tryggingahlutfalls nema hinn tryggði hafi áunnið sér rétt til atvinnuleysisbóta með tryggingaskyldri vinnu í a.m.k. þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði (í fullu starf/hlutastarfi, áður eða eftir að hann var í námi) á ávinnslutímabilinu (12 mánaða tímabilinu með fyrirvara um ákvæði laganna um geymdan bótarétt.)
Að uppfylltum þessum skilyrðum svarar námið til 13 vikna vinnuframlags í fullu starfi. Þannig jafngildir 6 mánaða nám u.þ.b. 3 mánuðum í fullu starfi.
Þessi heimild til hækkunar á tryggingarhlutfalli hins tryggða getur aðeins komið til einu sinni á hverju bótatímabili.
Vottorð frá hlutaðeigandi skóla skal fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur þar sem fram kemur að launamaður hafi stundað námið og lokið því.
Fæðingarorlof
Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar og tekur fæðingarorlof samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof getur geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24 mánuði frá þeim degi er hann sannanlega hóf töku fæðingarorlofs.
Starf með skóla
Heimilt er að taka tillit til starfs sem unnið er með námi við útreikning á bótarétti launamanns en þá telst námið ekki til vinnuframlags hans. Slíkt starf getur eftir atvikum verið grundvöllur að útreikningi á lágmarksrétti hins tryggða samkvæmt lögunum.
Verkfall/verkbann
Sá tími sem tryggði hefur verið í verkfall eða verkbanni á síðustu 12 mánuðum telst hluti ávinnslutímabils skv. 5. mgr. 15. gr. Skal þá miða við starfshlutfall hans í almanaksmánuðinum áður en verkfall eða verkbann hófst.
Tímabil sem teljast ekki hluta ávinnslutímabils
Tímabil sem einstaklingur nýtur fjárhagsstoðar lögum samkvæmt úr sjóðum ríkis eða sveitarfélaga. Slík tímabil eru meðhöndluð samkvæmt ákvæðum laganna um geymdan bótarétt.
Tryggingahlutfallið – starfshlutfall o.fl. á ávinnslutímabili
Almennt
Launamaður telst að fullu tryggður samkvæmt lögunum hafi hann verið í fullu starfi samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.
Launamaður sem starfað hefur skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum telst tryggður í hlutfalli við lengd starfstíma.
Það athugast að tryggingarhlutfall launamanns samkvæmt lögunum getur aldrei orðið hærra en sem nemur starfshlutfalli hans á ávinnslutímabilinu eða því starfshlutfalli sem hann er reiðubúinn að ráða sig til. Hafi launamaður ekki verið í sama starfshlutfalli allt ávinnslutímabilið skal miða við meðalstarfshlutfall.
Fullt starf á ávinnslutímabili
Hafi hinn tryggði verið í ráðningarsambandi í a.m.k. 12 mánuði hefur hann öðlast fullan bótarétt samkvæmt lögunum.
Eigi hann skemmra starfstímabil að baki, sex mánuði svo dæmi sé tekið, þá er eftirfarandi aðferð notuð til að reikna út tryggingahlutfall hans:
100 x 6 / 12 = 50%
Hafi starfstímabilið verið níu mánuðir þá er tryggingahlutfallið: 100 x 9 / 12 = 75%
Hlutastarf á ávinnslutímabili
Ef hinn tryggði hefur ekki verið í fullu starfi á ávinnslutímabilinu gera lögin ráð fyrir því að tryggingahlutfall hans skuli reiknað í réttu hlutfalli við starfshlutfall hans auk þess sem starfstími hans skiptir einnig máli.
Hafi starfstímabilið verið 12 mánuðir og starfshlutfallið 50% þá er tryggingahlutfallið: 50 x 12 / 12 = 50%
Hafi starfstímabilið verið 10 mánuðir og starfshlutfallið 50% þá er tryggingahlutfallið: 50 x 10 / 12 = 41,7%
Sjómenn
Vinnuframlag sjómanna miðast við fjölda lögskráningardaga. Mánaðarvinna sjómanna telst vera 21,67 lögskráningardagar. Samkvæmt lögum um lögskráningu sjómanna nr. 43/1987, er skylt að lögskrá alla skipverja sem ráðnir eru til starfa á skipum sem skráð eru hér á landi og eru 20 brúttótonn eða stærri, þar með talið skipstjóra.
Lögskráning sjómanna er tvenns konar. Lögskráning í skiprúm og lögskráning úr skiprúmi.
Lögskrá skal úr skiprúmi í hvert sinn er veru skipverja um borð lýkur, hvort heldur er vegna ráðningarslita eða um stundarsakir, vegna orlofs, slyss, veikinda eða ef skip er ekki í förum um stundarsakir vegna t.d. bilana, viðgerða, endurbóta eða skipi er af öðrum ástæðum ekki haldið úti. Vinna sjómanna í landi reiknast hins vegar samkvæmt sömu reglum og gildir um vinnu annarra launamanna í landi.
Sjálfstætt starfandi einstaklingur
Hafi launamaður einnig unnið sem sjálfstætt starfandi einstaklingur (verktaki) á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur á hann rétt á að tekið sé tillit til þeirra starfa við ákvörðun á bótarétti hans samkvæmt lögunum.
Tekjutengdar atvinnuleysisbætur – í allt að 3 mánuði
Sá sem hefur áunnið sér rétt til atvinnuleysisbóta samkvæmt lögunum öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur hafa verið greiddar í samtals tíu virka daga. Fjallað er um tekjutengdar atvinnuleysisbætur í 32. gr. laganna, sbr. þó bráðabirgðaákvæði laganna um skert starfshlutfall og hlutabætur sem nánar er fjallað um hér aftar.
Tekjutengdar atvinnuleysisbætur nema 70% af meðaltali heildarlauna launamanns á sex mánaða tímabili sem hefst tveimur mánuðum áður en hann verður atvinnulaus. Aldrei skal miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.
Ekki er tekið mið af tekjum af störfum sem umsækjandi gegnir áfram eftir að hann sækir um atvinnuleysisbætur. Þær tekjur koma til frádráttar atvinnuleysisbótum hans skv. 36. gr.
Einungis er miðað við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem umsækjandi hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Sá sem uppfyllir skilyrði bótaréttar en hefur ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili öðlast rétt til grunnatvinnuleysisbóta skv. 33. gr. í samræmi við tryggingarhlutfall hans.
Staðfesting skattyfirvalda
Útreikningar á tekjutengdum atvinnuleysisbótum byggja á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur umsækjanda úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þegar ekki hafa verið staðin skil á greiðslum til skattyfirvalda vegna launamanna er litið til annarra gagna sem færa sönnur á tekjur launamanns á viðmiðunartímabili.
Takmörkun vegna biðtíma
Sá sem sætir biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt X. kafla laga um atvinnuleysistryggingar, s.s. vegna uppsagnar starfs án gildra ástæðna, á ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum. Hann fer þá á grunnatvinnuleysisbætur að 40 bótadögum liðnum eða eftir atvikum að 60 bótadögum liðnum.
Einu sinni á hverju bótatímabili
Réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta er einungis veittur hinum tryggða einu sinni á hverju bótatímabili.
Þann rétt er hægt að tæma á einu samfelldu 3ja mánaða tímabili en einnig má ganga á þennan rétt í fleiri en um leið skemmri tímabilum hverju sinni. Slíkt myndi t.d. eiga við þegar hinn atvinnulausi fær starf eftir einn mánuð á tekjutengdum atvinnuleysisbótum. Í því tilviki ætti hann inni 2 mánuði sem hann getur þá nýtt seinna.
Eins og áður segir er þessi 3ja mánaða réttur einungis veittur einu sinni á hverju tímabili. Frá þeirri reglu er sú undantekning gerð að skapi hinn tryggði sér rétt til nýs 3ja ára bótatímabils, þ.e. eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur þá öðlast hann jafnframt rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að 3 mánuði.
Grunnatvinnuleysisbætur
Samkvæmt lögum um nr. 54/2006 atvinnuleysistryggingar eru grunnatvinnuleysisbætur greiddar fyrstu 10 virka daga í atvinnuleysi en þá taka tekjutengdar atvinnuleysisbætur við í allt að þrjá mánuði. Grunnatvinnuleysisbætur taka þá við á ný.
Viðbótargreiðsla vegna barna
Hafi hinn tryggði framfærsluskyldu gagnvart börnum yngri en 18 ára á hann skv. 34. gr. rétt á 4% af óskertum grunnatvinnuleysisbótum með hverju barni frá upphafi bótatímabils skv. 29. gr.
Meðlagsskuldir
Atvinnuleysistryggingasjóði er heimilt að skuldajafna kröfum Innheimtustofnunar sveitarfélaga um meðlög hins tryggða sem stofnuninni hefur verið falið að innheimta á móti atvinnuleysisbótum.
Tilhögun greiðslna
Atvinnuleysisbætur eru greiddar eftir á fyrsta virkan dag hvers mánaðar, sbr. 35. gr. Greiðslan byggir á bótarétti viðkomandi undanfarandi mánuð eða hluta úr mánuði þannig að miðað er við 20. dag mánaðar til 19. dags næsta mánaðar.
Hlutabætur
Ákvæði um rétt launafólks til hlutfallslegra atvinnuleysisbóta (hlutabóta) voru fyrst lögfest árið 1998, sbr. l. 47/1998 en greiðsla hlutabóta hafði fram til þess tíma tíðkast að einhverju leyti án þess að sérstaklega hafi verið um það fjallað í lögum. Með lögunum árið 1998 voru settar reglur um útreikning slíkra bóta, þ.m.t. um meðferð tekna af hlutastarfi og frádrátt þeirra frá hlutabótum. Fjallað er um rétt launafólks til hlutabóta í 17. og 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Í nóvember 2008 voru lögfestar tímabundnar breytingar á lögum sem gera það mögulegt að greiða atvinnuleysisbætur samhliða skertu starfshlutfalli. Þau lagaákvæði giltu til 1. maí 2009 en hafa verið framlengd til 1. janúar 2010 og er gerð grein fyrir þeim í sérstökum kafla „Skert starfshlutfall og hlutabætur“.
Frumkvæði atvinnurekanda
Hlutabætur koma ekki til álita samkvæmt lögunum ef launamaður á sjálfur frumkvæði að lækkun á sínu starfshlutfalli samkvæmt ráðningarsamningi, hvort sem það gerist með uppsögn ráðningarsamnings eða samkomulagi við atvinnurekanda.
Samkvæmt lögunum gildir þessi réttur einungis í þeim tilvikum þegar atvinnurekandi að eigin frumkvæði segir upp ráðningarsamningi starfsmanns með það fyrir augum að bjóða honum endurráðningu í lægra starfshlutfalli.
Virk atvinnuleit
Meginreglur laga um atvinnuleysistryggingar um virka atvinnuleit hins tryggða sem skilyrði bótaréttar gilda um þennan hóp líkt að aðra sem sækja um atvinnuleysisbætur.
Ef atvinnurekandi segir starfsmanni upp störfum í þeim tilgangi að bjóða honum áframhaldandi vinnu í lægra starfshlutfalli og starfsmaðurinn velur að hafna því tilboði þá geta ákvæði laganna um missi bótaréttar vegna höfnunar starfs komið til álita. Hlutaðeigandi starfsmaður getur m.ö.o. ekki gert kröfu til þess að einungis sé horft til þess að atvinnurekandinn hafi sagt honum upp störfum og að hann hafi unnið út sinn uppsagnarfrest í óbreyttu starfshlutfalli. Liggi það fyrir í gögnum máls að atvinnurekandinn hafi á sama tíma boðið honum hlutastarf í beinu framhaldi þá getur höfnun hins tryggða á því starfi valdið honum missi bótaréttar samkvæmt lögunum.
Geymdur bótaréttur
Launamaður sem lækkar starfshlutfall sitt getur geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24 mánuði frá þeim degi sem nýtt starfshlutfall kom til framkvæmda. Hann þarf m.ö.o. ekki að sækja strax um hlutabætur, hann getur beðið með það í allt að 24 mánuði.
Útreikningur hlutabóta
Samkvæmt lögunum eru það einkum fjögur atriði sem hafa ber í huga:
- Tryggingahlutfallið. Tryggingahlutfallið er mismunur bótaréttar hins tryggða (%) hefði hann misst starf sitt að fullu (en ekki að hluta) og þess starfshlutfalls (%) sem hann gegnir áfram. Dæmi: 100% – 75% = 25% tryggingahlutafall.
- Óskertur réttur til atvinnuleysisbóta. Reikna þarf bótarétt hins tryggða, þ.m.t. upphæð atvinnuleysisbóta hans miðað við það ef hann væri alfarið atvinnulaus.
- Frádráttur vegna tekna. Hverjar eru tekjur hins tryggða af hlutastarfinu.
- Frítekjumark. Það er ákveðið með reglugerð hverju sinni, sjá HÉR.
- Tryggingahlutfallið
Starfsmaður er í 100% starfi. Starfshlutfallið er lækkað í 75%
Tryggingahlutafallið er 25% (100%-75%)
Starfsmaður er í 100% starfi. Starfshlutfallið er lækkað í 50%
Tryggingahlutafall er 50% (100% – 50%)
Óskertur réttur til atvinnuleysisbóta
Reikna verður út bótarétt hins tryggða, þ.m.t. hver upphæð atvinnuleysisbóta hans hefði verið ef hann væri alfarið atvinnulaus, þ.e. hann hefði orðið alfarið atvinnulaus í stað þess að missa starf sitt að hluta.
Þessi útreikningur getur eftir atvikum tekið til réttar hans til tekjutengdra atvinnuleysisbóta eða grunnatvinnuleysistryggingar. Hér er við það átt að þær aðstæður sem skapað geta hinum tryggða rétt til hlutabóta geta ýmist komið til þegar hann sækir fyrst um atvinnuleysisbætur, þ.e. hann gerir það vegna þess að hann hefur misst starf sitt að hluta, eða síðar þegar hann hefur verið á fullum atvinnuleysisbótum um tíma (þ.e. lengur en 3 mánuði) en er boðið hlutastarf sem þá veldur því að reikna verður út rétt hans á ný samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
Frádráttur vegna launatekna og frítekjumark
Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða og atvinnuleysisbætur hans eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til
atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru.
Frádráttur vegna annarra tekna
Ef hinn tryggði hefur aðrar tekjur en tekjur af föstu hlutastarfi, s.s. vegna
- tilfallandi vinnu,
- elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar,
- elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum og séreignarsjóðum og
- fjármagnstekjur.
þá koma þær til frádráttar hlutabótum hans líkt og tekjur hans af hlutastarfinu.
Eingöngu er tekið tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
Skert starfshlutfall og hlutabætur
Eftirfarandi reglur tóku gildi frá 1. nóvember 2008 og gilda til 1. janúar 2010. Þær falla þá úr gildi komi ekki til endurskoðunar eða framlengingar þeirra.
Réttur til greiðslu hlutabóta á móti skertu starfhlutfalli kemur til ef skerðingin kemur til að frumkvæði atvinnurekanda vegna samdráttar í starfseminni. Sama gildir ef starfsmaður hefur misst starf sitt að öllu leyti og ræður sig í minna starfshlutfall en hann var áður í hjá nýjum atvinnurekanda enda eigi hann ekki kost á öðru. Sama gildir einnig ef viðkomandi hefur verið í tveimur hlutastörfum og missir annað þeirra, alveg eða að hluta. Miðað er þó við að starfsmaður sé í samtals a.m.k. 50% starfi á vinnumarkaði.
Réttur til greiðslu hlutabóta á móti skertu starfshlutfalli á hins vegar ekki við þegar launamaður ákveður sjálfur að draga úr starfshlutfalli sínu.
Reglurnar taka jafnframt til þeirra einstaklinga sem uppfylla skilyrði þeirra þó skert starfshlutfall hafi komið til fyrir gildistöku laganna enda séu skilyrði þeirra að öðru leyti uppfyllt.
Skert starfshlutfall og tímalengd tekjutengdra atvinnuleysisbóta
Breytingar á lögunum fela í sér að launamaður sem hefur áunnið sér fullan rétt til atvinnuleysisbóta og missir starf sitt að hluta getur fengið hlutfallslegar tekjutengdar bætur í lengri tíma en áður. Atvinnuleysisbætur eru þó ekki greiddar lengur samfellt en í þrjú ár.
Dæmi
1: Launamaður var í 100% starfi. Starfshlutfall hans er minnkað í 75% og hann sækir um 25% atvinnuleysisbætur á móti. Hann getur þá verið samtals á 25% tekjutengdum atvinnuleysisbótum í tólf mánuði eða 260 daga samhliða 75% starfi í stað þriggja mánaða (65 daga) áður. Eftir þann tíma getur hann átt rétt á hlutfallslegum grunnatvinnuleysisbótum þar til þremur árum á atvinnuleysisbótum er náð.
2: Launamaður var í 100% starfi. Starfshlutfall hans er minnkað í 50% og sækir hann um 50% atvinnuleysisbætur á móti. Hann getur þá verið samtals á 50% tekjutengdum atvinnuleysisbótum í sex mánuði eða 130 daga samhliða 50% starfi í stað þriggja mánaða (65 daga) áður. Eftir þann tíma getur hann átt rétt á hlutfallslegum grunnatvinnuleysisbótum þar til þremur árum á atvinnuleysisbótum er náð.
Skert starfshlutfall og upphæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta
Með lögunum verður sú breyting að föst laun frá atvinnurekanda vegna minnkaðs starfshlutfalls leiða ekki til skerðingar atvinnuleysisbóta fyrir það starfshlutfall sem skerðingin nær til. Með föstum launum er átt við tekjur fyrir dagvinnu, vaktaálag og aðrar fastar greiðslur. Þannig á sá sem sækir um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli rétt á atvinnuleysisbótum sem nemur mismun réttar launamannsins hefði hann misst starf sitt að öllu leyti og þess starfshlutfalls sem hann gegnir áfram án þess að tekjur hans fyrir það starfshlutfall er hann heldur eftir komi til skerðingar. Rétt er að minna á að samkvæmt lögunum á launamaður aðeins rétt á grunnatvinnuleysisbótum í fyrstu 10 dagana sem hann missir starf eða þarf að minnka starfshlutfall.
Aðrar tekjur sem viðkomandi launamaður kann að hafa s.s. vegna tilfallandi vinnu/yfirvinnu, elli- og örorkulífeyrisgreiðslur o.fl. skulu meðhöndlaðar í samræmi við 36. gr. laganna um frádrátt vegna tekna og frítekjumark.
Dæmi. Athuga ber að fjárhæðir bóta breytast og að eftirfarandi útreikningur er gerður í dæmaskyni m.v. fjárhæð bóta 1. nóvember 2008.
3: Launamaður hefur 250.000 kr. í mánaðarlaun fyrir fullt starf en þarf að minnka við sig starfshlutfall um 25% vegna samdráttar. Hann sækir um 25% atvinnuleysisbætur en hefði talist að fullu tryggður samkvæmt lögunum hefði hann misst starf sitt að öllu leyti. Hefði hann misst starf sitt að öllu leyti hefði hann átt rétt á 175.000 kr. í tekjutengdar atvinnuleysisbætur og þar sem hann sækir um 25% bætur á hann rétt á 43.750 kr. á mánuði. Tekjur hans fyrir 75% starfshlutfallið er hann gegnir áfram og nema 187.500 kr. koma því ekki til með að hafa áhrif á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta og munu þá tekjur hans og atvinnuleysisbætur nema 231.250 kr. (187.500 + 43.750) á mánuði í allt að 12 mánuði.
4: Launamaður hefur 400.000 kr. í mánaðarlaun fyrir fullt starf en þarf að minnka við sig starfshlutfall um 50% vegna samdráttar. Hann sækir um 50% atvinnuleysisbætur en hefði talist að fullu tryggður samkvæmt lögunum hefði hann misst starf sitt að öllu leyti. Hefði hann misst starf sitt að öllu leyti hefði hann því átt rétt á hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta eða 220.729 kr. á mánuði. Þar sem hann sækir um 50% bætur á hann rétt á 110.365 kr. á mánuði. Tekjur hans fyrir 50% starfshlutfallið er hann gegnir áfram og nema 200.000 kr. koma því ekki til með að hafa áhrif á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta og munu tekjur hans og atvinnuleysisbætur því nema 310.365 kr. (200.000 + 110.365) á mánuði í allt að 6 mánuði.
Auk framangreindra upphæða greiðast 5.439 kr. á mánuði með hverju barni undir 18 ára aldri.
Geymdur bótaréttur – áunninn bótaréttur vistaður og nýttur síðar
Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar er ekki gerð sú krafa að sá sem verður atvinnulaus verði strax að sækja um atvinnuleysisbætur en sæti ella skerðingu á áunnum bótarétti sínum því lengra sem frá líður starfslokum hans. Í lögunum er beinlínis gert ráð fyrir því geyma megi áunninn bótarétt um ákveðinn tíma.
Samkvæmt lögunum geta reglur um geymslu áunnins bótaréttar komið við sögu í beinu framhaldi af starfslokum eða þegar hinn tryggði hefur þegið atvinnuleysisbætur um tíma en ákveður að hætta þeirri atvinnuleit tímabundið og hættir fyrir vikið að fá greiddar atvinnuleysisbætur.
Þegar viðkomandi einstaklingur sækir um atvinnuleysisbætur síðar er horft framhjá þeim tímabilum sem falla undir ákvæði laganna um geymdan bótarétt og farið aftur til þess tíma þegar hann var virkur á vinnumarkaði og ávann sér bótarétt samkvæmt lögunum. Taka þá við almenn ákvæði laganna um ávinnslutímabili bótaréttar, ákvörðun tryggingahlutfalls o.s.frv.
Í lögunum er greint á milli tveggja reglna um geymslu áunnins bótaréttar.
- 24 mánaða reglan; almenn heimild til að geyma áunninn bótarétt í allt að 24 mánuði.
- Sérstök atvik; minnkað starfshlutfall, nám, fæðingarorlof, óvinnufærni og afplánun refsingar. Áunninn réttur geymist mislengi samkvæmt þessari reglu, allt eftir því um hvaða atvik er að ræða.
24 mánaða reglan
Í 23. gr. segir að sá sem telst tryggður og hverfur af vinnumarkaði geti geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24 mánuði frá þeim degi er hann sannanlega hætti störfum.
- Síðustu 12 mánuðir
Við útreikninga á ávinnslutímabili þegar kemur til geymdrar atvinnuleysistryggingar skal líta til síðustu tólf mánaða sem hinn tryggði hefur starfað á innlendum vinnumarkaði á síðustu 36 mánuðum frá móttöku umsóknar enda leiði ekki annað af lögum þessum. - Réttur fellur niður eftir 24 mánuði
Sæki hinn tryggði ekki um atvinnuleysisbætur innan 24 mánaða frá þeim degi er hann sannanlega hvarf af vinnumarkaði fellur réttur hans til að geyma atvinnuleysistrygginguna niður.
24 mánaða reglan gildir ekki um þá sem fara af innlendum vinnumarkaði og fá greiddar atvinnuleysisbætur í öðrum ríkjum eða samkvæmt ákvæðum VIII. kafla laganna fyrir sama tímabil.
Sérstök atvik
Minnkað starfshlutfall
Í 24. gr. er fjallað um geymslu áunnins bótaréttar vegna lækkaðs starfshlutfalls. Þar segir að launamaður sem minnkar starfshlutfall sitt geti geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24 mánuði frá þeim degi er hann minnkaði starfshlutfall sitt.
Sem dæmi má nefna launamann sem hefur verið í fullu starfi í a.m.k. 12 mánuði en minnkar síðan starfshlutfall sitt í 75%. Hann missir síðan vinnuna ári síðar en telst þá engu síður með 100% bótarétt samkvæmt lögunum.
Við umsókn um atvinnuleysisbætur er litið til þeirra tólf mánaða sem launamaður starfaði á innlendum vinnumarkaði í hæsta starfshlutfalli á síðustu 36 mánuðum miðað við móttöku umsóknar.
Þessi regla á við hvort sem launamaður minnkaði starfshlutfall sitt að eigin frumkvæði eða ekki.
Nám
Í 25. gr. segir að sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum og hverfur af vinnumarkaði til að stunda nám geti geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 36 mánuði frá þeim degi er hann sannanlega hætti störfum enda hafi hann sannanlega lokið náminu.
Sæki hinn tryggði ekki um atvinnuleysisbætur innan 36 mánaða frá þeim degi er hann sannanlega hætti störfum eða hefur ekki lokið námi innan þess tíma fellur réttur hans til að geyma atvinnuleysistrygginguna niður.
Við útreikninga á ávinnslutímabili þegar kemur til geymdrar atvinnuleysistryggingar skal líta til síðustu tólf mánaða sem hinn tryggði hefur starfað á innlendum vinnumarkaði á síðustu 48 mánuðum frá móttöku umsóknar enda leiði ekki annað af lögunum. Hafi hann áunnið sér rétt að nýju, t.d. með samanlögðum starfstíma og námstíma, á þetta ákvæði ekki við.
Þessi regla gildir ekki um þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur í öðrum ríkjum eða samkvæmt ákvæðum VIII. kafla fyrir sama tímabil.
Fæðingarorlof
Í 24. gr. a. segir að sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum og tekur fæðingarorlof samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof geti geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24 mánuði frá þeim degi er hann sannanlega hóf töku fæðingarorlofs. Sæki hinn tryggði ekki um atvinnuleysisbætur innan 24 mánaða frá þeim degi er hann sannanlega hvarf af vinnumarkaði fellur réttur hans til að geyma atvinnuleysistrygginguna niður.
Við útreikninga á ávinnslutímabili skv. 15. eða 19. gr. þegar kemur til geymdrar atvinnuleysistryggingar skal líta til síðustu tólf mánaða sem hinn tryggði hefur starfað á innlendum vinnumarkaði á síðustu 36 mánuðum fyrir móttöku umsóknar enda leiði ekki annað af lögunum.
Þessi regla á ekki við um þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur í öðrum ríkjum eða samkvæmt ákvæðum VIII. kafla fyrir sama tímabil.
Óvinnufærni vegna sjúkdóms eða slyss
Í 26. gr. kemur fram sú regla að sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum en hverfur af vinnumarkaði sökum óvinnufærni vegna sjúkdóms eða slyss geti geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu þann tíma sem hann er óvinnufær.
Sæki hann ekki um atvinnuleysisbætur innan sex mánaða frá þeim degi er hann varð vinnufær á ný fellur réttur hans niður, enda eigi ákvæði 23. gr. laganna ekki við, þ.e. 24 mánaða reglan.
Vottorð sérfræðilæknis er annaðist hinn tryggða skal fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur þar sem meðal annars skal koma fram hvenær hann varð óvinnufær og hvenær hann varð vinnufær á ný.
Þessi regla gildir ekki um þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur í öðrum ríkjum eða samkvæmt ákvæðum VIII. kafla fyrir sama tímabil.
Afplánun refsingar
Um geymslu áunnins bótaréttar þeirra sem hefja afplánun refsivistar er fjallað í 27. gr.
Þar segir að sá sem telst tryggður en hverfur af vinnumarkaði þar sem hann tekur út refsingu sína samkvæmt dómi geti geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu þangað til hann hefur lokið afplánun refsingar.
Hér er einungis átt við frelsissviptingu samkvæmt dómi. Frelsissvipting samkvæmt úrskurði dómara skapar því ekki rétt til geymslu áunnins bótaréttar.
Sæki hinn tryggði ekki um atvinnuleysisbætur innan sex mánaða frá þeim degi er afplánun refsingar hans lauk fellur réttur hans til að geyma atvinnuleysistrygginguna niður enda eigi ákvæði 23. gr. ekki við., þ.e. 24 mánaða reglan.
Vottorð frá fangelsismálayfirvöldum skal fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur þar sem meðal annars skal koma fram það tímabil sem afplánun refsingar stóð yfir.
Virkri atvinnuleit hætt tímabundið
Reglur um geymslu áunnins bótaréttar sem fjallað er um hér að framan ná til þeirra atvika þegar hinn tryggði ákveður að sækja ekki um atvinnuleysisbætur, eða hlutabætur eftir atvikum, þegar starfslok ber að höndum eða vegna þess að hann á ekki rétt á atvinnuleysisbótum vegna þess að hann hefur hætt störfum vegna veikinda, hafið nám o.s.frv.
Í 28. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er hins vegar fjallað um það þegar launamaður hefur sótt um atvinnuleysisbætur og verið á þeim um tíma en ákveður að hætta atvinnuleit tímabundið og hættir því að fá greiddar atvinnuleysisbætur.
Samkvæmt þessari grein getur hann varðveitt áunninn bótarétt sinn í allt 24 mánuði (eða 36 mánuði sé um nám að ræða, sjá síðar).
Réttur til að geyma áunninn bótarétt í allt að 24 mánuði er háður eftirfarandi skilyrðum:
• Hinn tryggði hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í skemmri tíma en 24 mánuði.
• Áunninn bótaréttur geymist í allt að 24 mánuði frá þeim degi er hann sótti upphaflega um atvinnuleysisbætur – hér er ekki miðað við þann dag er hinn tryggði hættir að fá greiddar atvinnuleysisbætur.
• Hinn tryggði hafi ekki áður nýtt heimild skv. 23.–27. gr. (24 mánaða reglan eða sérstök atvik; hlutabætur, nám, óvinnufærni.
Í 28. gr. er ekki tekið fram hvort þessi takmörkun á við án tillits til hvort hinn tryggði hafi “tæmt rétt” sinn til geymslu áunnins bótaréttar samkvæmt hinni almennu heimild í 23. gr. (24 mánuðir) eða hvort það nægi að hann hafi nýtt þá heimild einungis að hluta til.
Dæmi
A sækir um atvinnuleysisbætur þegar 6 mánuðir eru liðnir frá starfslokum og nýtir sér rétt til geymslu áunnins bótaréttar skv. 23. gr. laganna. Eftir 6 mánuði á atvinnuleysisbótum hættir hann atvinnuleit tímabundið. Hann sækir um atvinnuleysisbætur á ný eftir aðra sex mánuði. Samkvæmt orðanna hljóðan þá á hann ekki rétt á því að umsókn hans verði byggð á sérheimild 28. gr. um geymslu áunnins bótaréttar. Þar sem hann hefur þegar nýtt sér heimildina skv. 23. gr. þá verður að ákvarða bótarétt hans samkvæmt almennum ákvæðum laganna. Ef hinn tryggði hefur hins vegar verið á vinnumarkaði í þessa 6 mánuði (í a.m.k. 3 mánuði en án tillits til starfshlutfalls) þá getur hann byggt rétt sinn á 38. gr. laganna en sú grein fjallar um endurmat á bótarétti umsækjanda samkvæmt lögunum.
Búseta erlendis
Ákvæði um geymslu bótaréttar eigi ekki við þegar einstaklingur fer í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og fær á þeim tíma greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt íslenskum lögum.
Endurmat á rétti til atvinnuleysistrygginga
Sá sem hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur skv.
• 32. gr. (tekjutengdar atvinnuleysisbætur) og
• 33. gr. (grunnatvinnuleysisbætur)
getur óskað eftir endurmati á atvinnuleysistryggingu sinni og þar með endurútreikningi á fjárhæð atvinnuleysisbóta, sbr. 38. gr. laganna.
Skilyrði er að starfstímabil hans hafi varað samfellt lengur en þrjá mánuði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur og hann sé ennþá innan marka síns bótatímabils skv. 29. gr. laganna.
Skal þá taka mið af nýja starfstímabilinu og þess hluta eldra ávinnslutímabils sem nægir til að samtals verði miðað við tólf mánaða tímabil.
Þessi regla gildir hvort sem hinn tryggði hefur ráðið sig í fullt starf eða hlutastarf.
Óski hinn tryggði ekki eftir endurútreikningi miðast atvinnuleysisbætur við fyrri útreikninga. Ástæðan er einkum sú að það virki ekki letjandi fyrir hinn tryggða að taka tímabundnu starfi sem gæti hugsanlega leitt til lakari réttar hans til atvinnuleysistrygginga.
Uppsöfnun og vernd réttinda
Lífeyrissjóður
Í lögunum er kveðið á um að sá sem fær greiddar atvinnuleysisbætur skuli greiða að lágmarki 4% af atvinnuleysisbótum skv. 32. gr. (tekjutengdar atvinnuleysisbætur) og 33. gr. (grunnatvinnuleysisbætur) í sinn lífeyrissjóð. Atvinnuleysistryggingasjóður greiðir 8% mótframlag.
Hinum tryggða er að auki heimilt að greiða í séreignarsjóð. Lögin leggja hins vegar ekki þá skyldu á Atvinnuleysistryggingasjóð að greiða mótframlag.
Stéttarfélag
Sá sem fær greiddar atvinnuleysisbætur getur óskað eftir því að félagsgjald sé dregið af hans atvinnuleysisbótum og gjaldinu skilað til hans stéttarfélags. Vinnumálastofnun sér þá um að koma greiðslunni til hlutaðeigandi stéttarfélags. Mikilvægt er að halda félagsaðild virkri og tryggja þannig þau áunnu réttindi þar eru til staðar.