VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Ábygð á samningsrofum í verkbanni

Lögin um stéttarfélög og vinnudeilur geyma fá ákvæði um viðurlög, ef vinnufriður er rofinn með ólögmætum hætti.

Ákvæði 8. gr. laga nr. 80/1938 ná ekki til atvinnurekenda

Samkvæmt 8. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 bera stéttarfélög ábyrgð á samningsrofum þeim, sem félagið sjálft eða löglega skipaðir trúnaðarmenn þess gerast sekir um í trúnaðarstörfum sínum fyrir félagið. Þetta ákvæði tekur einungis til ábyrgðar stéttarfélags vegna samningsrofs. Ekkert sambærilegt ákvæði sem mælir fyrir um ábyrgð atvinnurekanda eða félags atvinnurekanda er að finna í lögunum. Engu að síður verður að telja að þessir aðilar geti borið skaðabótaábyrgð í samræmi við meginreglur skaðabótaréttarins. 

Samkvæmt 70. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur varðar brot á lögunum auk skaðabóta sektum. Samkvæmt 65. gr. laganna getur Félagsdómur dæmt málsaðila til að greiða skaðabætur. Við ákvörðun skaðabóta má taka tillit til saknæmi brotsins, en það þýðir að Félagsdómur getur lækkað bótafjárhæðina eða eftir atvikum fellt hana niður með tilliti til þess, hversu mikil sökin er og hvort rekja megi tjónið til eigin sakar tjónþola og annarra atvika.

Almennar skaðabótareglur gilda

Um ákvörðun skaðabóta gilda almennar reglur skaðabótaréttarins. Skaðabætur byggjast á sakarreglunni, en samkvæmt henni ber maður skaðabótaábyrgð á tjóni ef hann er sakhæfur og veldur tjóninu með bótanæmum, saknæmum og ólögmætum hætti, enda sé tjónið sennileg afleiðing af hegðun hans og sérstakar bótaleysisástæður eru ekki fyrir hendi.

Bætur vegna ólöglegs verkbanns eru fyrst og fremst bætur vegna tekjumissis fyrir þann tíma, sem verkbannið varir, samanber Félagsdóm 6/1969 (VI:163).

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn