VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Gjaldþrot atvinnurekanda

Gjaldþrot felur í sér vangetu manns til að standa lánardrottnum skil á gjaldföllnum kröfum þeirra eða að öðru leyti uppfylla skuldbindingar sínar gagnvart þeim. Með hugtakinu gjaldþrotaskiptum er átt við þá aðferð sem ber að nota þegar eignum gjaldþrotamanns er skipt á milli lánardrottna hans. Gjaldþrotameðferð á að tryggja að eignir og skuldir bús séu sannreyndar, að bókhald og löggerningar skuldara séu rannsökuð, að möguleiki opnist til riftunar ýmissa löggerninga skuldara, að lánardrottnum sé tryggt visst jafnræði sem felst í því að fá greiðslur af andvirði eigna bús eftir ákveðnum reglum um skuldaröð.

Við uppsögn gjaldþrotaúrskurðar missir þrotamaður forræði á búi sínu, hann hefur ekki lengur rétt til að selja eignir sínar eða ráðstafa réttindum sínum, til að taka við greiðslum eða uppsögnum eða stofna til skuldbindinga.

Við gjaldþrot atvinnurekanda er bú hans fengið skiptastjóra, sem fer síðan með forsvar búsins. Í gjaldþrotalögum nr. 21/1991 eru ákvæði um hvernig fer með ráðningarsamninga starfsmanna og í lögum um ábyrgðarsjóð launa eru launafólki tryggðar greiðslur á launum úr þrotabúi að ákveðnu hámarki.

Réttarstaða launamanns við gjaldþrot

Þegar héraðsdómari kveður upp úrskurð um að bú skuldara sé tekið til gjaldþrotaskipta tekur þrotabú skuldarans við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti eða naut við uppkvaðningu úrskurðarins, nema annað leiði af réttarreglum, eðli réttindanna eða löggerningi sem verður ekki hnekkt vegna gjaldþrotaskiptanna, sbr. 72. gr. gjaldþrotalaga. 

Þrotabú tekur við öllum fjárhagslegum skyldum sem hvíldu á þrotamanni við úrskurðinn og nýtur hæfis til að eiga og öðlast réttindi og bera skyldur. Er með öðrum orðum persóna að lögum. Réttarstaða launamanns er tilgreind í 98. gr. laganna. Þrotabúið tekur þá í raun við ráðningarsamningum þrotamannsins en í greininni er nánar kveðið á um framhaldið. Í 2. mgr. er tekið fram að starfsmenn eiga rétt til launa frá því úrskurður var kveðinn upp og til þess tíma þegar þrotabúið tekur afstöðu til ráðningarsamninga sem þrotamaður var aðili að.

Réttur skiptastjóra samkvæmt ákvæðum gjaldþrotalaga

Þegar úrskurður hefur verið kveðinn upp um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta skal ákveða hvort þrotabúið taki við réttindum og skyldum samkvæmt ráðningarsamningum þeirra manna sem starfa við atvinnurekstur þrotamanns, samanber 1. mgr. 98. gr. gjaldþrotalaga.

Ef gjaldþrotaskiptin leiða til breyttra aðstæðna og brýnir hagsmunir starfsmanns krefjast þess getur hann þó slitið ráðningarsamningi sínum. Honum er þá skylt að veita þrotabúinu hæfilegan frest til að leita annars starfsmanns í sinn stað, enda setji þrotabúið tryggingu fyrir greiðslu launa þann tíma sem hann sinnir starfi af þessum sökum ef þess er krafist, sbr. 3. mgr. 98. gr. 

Starfsmaður er með öðrum orðum ekki bundinn af uppsagnarfresti sínum, heldur af því sem telja má hæfilegan frest til að fá annan mann í verkið. Þann tíma sem starfsmaður vinnur fyrir þrotabúið er þrotabúinu skylt að setja tryggingu fyrir greiðslu launa. Þessi skylda er óvenjuleg þegar launagreiðslur eiga í hlut því hvergi annars staðar í íslenskum vinnurétti þekkist það að aðilum sé skylt að setja tryggingar fyrir launagreiðslum hyggist þeir ráða fólk í vinnu.

Rétthæð launakrafna í gjaldþrotabú

Allar kröfur á hendur þrotabúi falla sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar, þar á meðal launakröfur, kröfur um orlofsgreiðslur, lífeyrissjóðsgreiðslur og slysabætur.

Samkvæmt 112. gr. gjaldþrotalaga njóta þessar kröfur forgangs á eftir útfararkostnaði, skiptakostnaði, launagreiðslum eftir gjaldþrot og veðkröfum:

  1. Kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamannsins sem hafa fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag, það er þann dag sem beiðni barst til gjaldþrotaskipta, greiðslustöðvunar eða nauðasamninga.
  2. Kröfur um bætur vegna slita á vinnusamningi sem hafa átt sér stað á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag eða eftir frestdag.
  3. Kröfur um orlofsfé eða orlofslaun sem réttur hefur unnist til á ofangreindu tímabili.
  4. Kröfur um gjöld til lífeyrissjóða, sjúkrasjóða og orlofsheimilasjóða sem þrotamanninum hefur borið að greiða samkvæmt lögum eða kjarasamningi á ofangreindu tímabili.
  5. Kröfur um bætur vegna örorku eða dauðsfalls manns sem starfaði í þjónustu þrotamanns og varð þar fyrir slysi sem olli örorku eða dauðsfalli og átti sér stað á því tímabili sem um ræðir í 1. tölul. eða eftir frestdag.

Ábyrgðarsjóður launa 

Ábyrgðarsjóður launa ábyrgist kröfur starfsmanna vegna vangoldinna launa sem ekki fást greiddar úr þrotabúi atvinnurekanda þeirra.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn