VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Verkföll á opinberum vinnumarkaði

Lögn nr. 80/1938 gilda um verkföll aðildarfélaga ASÍ hjá opinberum atvinnurekendum þ.e. hjá ríki og sveitarfélögum. Samið hefur verið um nokkur frávik frá þeim sbr. hér á eftir. Sérstök lög gilda um verkföll og kjarasamninga opinberra starfsmanna, lög  nr. 94/1986.

Samkvæmt þessum lögum hafa stéttarfélög sem falla undir lögin verkfallsheimild í þeim tilgangi að stuðla að framgangi krafna sinna í deilu um kjarasamning með vissum skilyrðum og takmörkunum. Lesa má hér um samanburð verkfallsréttar á almennum og opinberum vinnumarkaði. 

Til hverra ná lög 94/1986

Samkvæmt 1.gr. laga nr. 94/1986 gilda lögin um alla starfsmenn sem eru félagar í stéttarfélögum sem samkvæmt 4. og 5. gr. laganna hafa rétt til að gera kjarasamninga samkvæmt þeim og eru ráðnir hjá ríkinu, ríkisstofnunum, sveitarfélögum eða stofnunum þeirra með föstum tíma-, viku eða mánaðarlaunum, enda verði starf þeirra talið aðalstarf. Þ.e. þau taka einungis til opinberu stéttarfélaganna.

Lögin ná einnig skv. 2.gr. til starfsmanna sjálfseignarstofnana sem starfa í almannaþágu samkvæmt lögum, eru í fjárlögum eða njóta fjárframlaga til launagreiðslna úr ríkissjóði  af daggjöldum eða úr sveitarfélagssjóði enda komi til samþykki viðkomandi stofnana.

Lögin ná ekki eingöngu til félagsmanna aðildarfélaga BSRB heldur einnig til félagsmanna annarra stéttarfélaga starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Við setningu laganna vaknaði sú spurning hvort þau myndu hafa áhrif á þá skiptingu starfsmanna sem viðgengist hefur milli félaga innan ASÍ og félaga innan BSRB og annarra félaga opinberra starfsmanna þar sem hin nýju lög rýmkuðu verulega samningsumboð gagnvart ríkinu frá því sem verið hafði. Sú skipting byggir á því að almennu stéttarfélögin innan ASÍ semja við ríki og sveitarfélög á grundvelli l. 80/1938 sbr. 3.tl. 2.mgr. 1.gr. laga  nr. 94/1986, meðan opinberu félögin semja skv. lögum nr. 94/1986. Þessi spurning vaknaði þar sem allar skilgreiningar og afmarkanir vantar í lög nr. 94/196 um hverjir séu starfsmenn ríkis og sveitarfélaga í skilningi laganna og hvort lögin gætu þá til dæmis náð til stéttarfélags eins og Sóknar (nú Eflingar) sem hafði innan sinna raða félagsmenn sem störfuðu skv. kjarasamningum félagsins hjá ríkinu, ríkisstofnunum, sveitarfélögum og stofnunum og þá einnig hvort einstök stéttarfélög gætu valið eftir hvaða lögum þau semdu. Vegna þessa lýsti þáverandi fjármálaráðherra því yfir við afgreiðslu málsins á þingi að lögin breyttu í engu því skipulagi og skiptingu sem verið hefði milli félaga ASÍ og félaga opinberra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði. Almennu stéttarfélögin semji því eftir sem áður við hið opinbera á grundvelli laga 80/1938. Sjá hér um t.d. Félagsdóm 1/1994 ( X:153) Í kjarasamningum Starfsgreinasambands Íslands á árinu 2004 var hins vegar samið um það í sérstöku samkomulagi að ákvæði III. kafla laga nr. 94/1986 skuli gilda um ákvörðun og framkvæmd verkfalla aðildarfélaga SGS frá og með gildistöku þess samnings. Í kjarasamningum SGS 2020 var einnig samið um að útbúnir skyldu svipaðir listar og útbúnir eru skv. 19.gr. laga nr. 94/1986 um hverjum sé heimilt að vinna í verkföllum.

Takmarkanir á verkfallsrétti þeirra sem lögin ná til. 

Í 19. gr. laganna fjallað sérstaklega um takmarkanir á verkfallsrétti opinberra starfsmanna. Í ákvæðinu er að finna upptalningu á því til hvaða starfsmanna heimild til verkfalls nær ekki en þeir eru m.a. embættismenn og starfsmenn sem heyra undir kjararáð, starfsmenn Alþingis, Stjórnarráðs og ríkissaksóknara auk starfsmanna sem starfa við nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu. Á hverju ári gera fjármálaráðherra og sveitarfélög að undangengnu samráði við viðkomandi stéttarfélög skrá yfir þau störf sem falla undir þessi ákvæði.

Til hverra ná lögin ekki 

Í 2.mgr. 1. gr. laganna eru taldir embættismenn  og starfsmenn sem lögin gilda ekki um þ.e. sem ekki hafa kjarasamningsrétt skv. þeim. Þeir eru:

1 Embættismenn ríkisins sem fá laun samkvæmt sérákvæðum í lögum sem um þá gilda og 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins auk embættismanna og starfsmanna fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem vinna að stefnumörkun í mannauðs- og kjaramálum.

2 Starfsmenn ríkisbanka eða lánastofnana ríkisins.

3 Þeir starfsmenna stofnana og fyrirtækja ríkis og sveitarfélaga þegar kaup þeirra og kjör fara eftir kjarasamningum stéttarfélaga þeirra og vinnuveitenda, sbr. lög nr. 80/1938 og lög nr. 19/1979.

4 Þeir sem skipa samninganefndir ríkis og sveitarfélaga.

5 Þeir starfsmenna sveitarfélaga sem getið er í 6.–8. tölulið 19. gr. laganna eru utan samningsumboðs stéttarfélags samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar sem ákveður þeim starfskjör án samnings.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn