VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Áhættumat og heilsuvernd

Áætlun um öryggi og heilbrigði 

Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Áætlunin skal meðal annars fela í sér (1) mat á áhættu og (2) áætlun um heilsuvernd.

Áhættumat

Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gert sé sérstakt áhættumat þar sem meta skal áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi. Við gerð áhættumatsins skal sérstaklega litið til starfa þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi þeirra starfsmanna sem sinna þeim sé meiri hætta búin en öðrum starfsmönnum.

Þegar áhættumat á vinnustað gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna sé hætta búin skal atvinnurekandi grípa til nauðsynlegra forvarna í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hættuna eða, þar sem þess er ekki kostur, draga úr henni eins og frekast er unnt.

Áætlun um heilsuvernd

Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gerð sé áætlun um heilsuvernd. Sú áætlun byggir á framangreindu áhættumati þar sem meðal annars kemur fram áætlun um forvarnir, þar á meðal um aðgerðir sem grípa þarf til í því skyni að draga úr atvinnutengdum sjúkdómum og slysum.

Markmið heilsuverndar er að: 

  • stuðla að því að starfsmenn séu verndaðir gegn hvers konar heilsuvá eða heilsutjóni sem stafa kann af vinnu þeirra eða vinnuskilyrðum,
  •  stuðla að því að vinnu sé hagað þannig að starfsmenn fái verkefni við hæfi og stuðla að andlegri og líkamlegri aðlögun þeirra að starfsumhverfi,
  • draga úr fjarvistum frá vinnu vegna veikinda og slysa með því að auka öryggi og viðhalda heilsu starfsmanna á vinnustað,
  • stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna.

Í áætlun um forvarnir skal koma fram lýsing á hvernig hættum og þeirri áhættu sem þeim fylgir samkvæmt áhættumati skuli mætt, svo sem með skipulagi vinnunnar, fræðslu, þjálfun, vali á tækjum, efnum eða efnablöndum, notkun öryggis- eða hlífðarbúnaðar, innréttingum á vinnustað eða öðrum forvörnum. Skal leggja áherslu á almennar ráðstafanir áður en gerðar eru ráðstafanir til verndar einstökum starfsmönnum.

Félags- og tryggingamálaráðherra setur nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um heilsuvernd, þar á meðal um heilsuvernd sem tekur mið af sérstökum áhættuþáttum, forvarnir með hliðsjón af eðli starfa, stærð vinnustaða og gerð og frágang skjala sem tengjast áætlun um heilsuvernd.

Eftirtaldar reglur hafa verið settar á grundvelli þessarar heimildar. 
Rg. 931/2000 (öryggi og heilbrigði kvenna sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti). 
Rg. 349/2004 (um sprengifimt andrúmsloft á vinnustöðum). 
Rg. 553/2004 (verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum efna á vinnustöðum). 
Rg. 1000/2004 (um aðgerðir gegn einelti á vinnustað). 
Rg. 384/2005 (um vinnu í kældu rými við matvælaframleiðslu). 

Þjónustuaðili – aðstoð við gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað

Þegar gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað, þar á meðal mat á áhættu og áætlun um heilsuvernd, krefst færni sem atvinnurekandi eða starfsmenn hans hafa ekki yfir að ráða skal atvinnurekandi leita aðstoðar til þess hæfra þjónustuaðila sem hafa hlotið viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins til þeirra starfa. Skal atvinnurekandi upplýsa þjónustuaðila um þá þætti sem vitað er eða grunur leikur á að hafi áhrif á öryggi og heilbrigði starfsmanna. Enda þótt atvinnurekandi njóti þjónustu slíkra aðila ber hann engu að síður ábyrgð á að áætlunin sé gerð og henni fylgt eftir.

Þjónustuaðili skal hljóta viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins áður en hann hefur starfsemi. Fullnægi þjónustuaðili ekki síðar settum skilyrðum er Vinnueftirliti ríkisins heimilt að afturkalla viðurkenninguna í heild eða að hluta þannig að hún takmarkist við ákveðna tegund starfsemi.

Þjónustuaðili sem veitir heildstæða þjónustu á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum skal hafa aðgang að sérfræðingum sem Vinnueftirlit ríkisins hefur viðurkennt að hafi fullnægjandi þekkingu á heilbrigðissviði, í félagsvísindum, á tæknisviði eða öðru sambærilegu sérsviði þannig að þeir séu færir um að meta og bregðast við hættum eða hvers konar öðrum óþægindum vegna eðlisfræðilegra, efnafræðilegra, líffræðilegra, vistfræðilegra og sálfræðilegra þátta. Að öðrum kosti er Vinnueftirliti ríkisins heimilt að takmarka viðurkenningu sína við ákveðna tegund starfsemi.

Þjónustuaðila er heimilt að gera samninga við aðra aðila um einstaka þætti vegna þjónustu. Skulu þeir aðilar uppfylla skilyrði þau sem sett eru fyrir viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins. Samningar þessir skulu liggja fyrir þegar óskað er eftir viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins.

Þjónustuaðili skal gæta trúnaðar í starfi sínu. Hann skal fara með allar upplýsingar sem hann kemst að í starfi sínu og varða persónuleg málefni og einkahagi starfsmanna sem trúnaðarmál. Sama gildir um upplýsingar er tengjast fyrirtækjum er hann starfar fyrir.

Heilsufarsskoðun starfsmanna

Samkvæmt vinnuverndarlögunum eiga starfsmenn kost á heilsufarsskoðun á kostnað atvinnurekanda áður en þeir eru ráðnir til starfa, meðan þeir eru í starfi og þegar við á eftir að þeir eru hættir störfum, enda séu starfsskilyrði þeirra slík að heilsutjón geti hlotist af og ástæða til þess að ætla að á þann hátt megi koma í veg fyrir eða hefta atvinnusjúkdóma og atvinnutengda sjúkdóma.

Atvinnurekandi skal tryggja, að heilsuverndareftirlit, læknisskoðanir, mælingar og rannsóknir valdi ekki tekjutapi starfsmanna. 
Starfsmönnum og fyrrverandi starfsmönnum ber skylda til að gangast undir eftirlit, skoðanir, mælingar og rannsóknir samkvæmt reglum þeim sem gilda á hverjum tíma.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn