Hve lengi starfsmenn eiga rétt á launum í veikindum ræðst af ýmsum þáttum. Grunnréttindi hvað varðar hinn almenna vinnumarkað er að finna í lögum um uppsagnarfrest og veikindarétt nr. 19/1979 og hvað varðar sjómenn í sjómannalögum nr. 35/1985. Ofan á þessi grunnréttindi hefur verkalýðshreyfingin samið um nokkuð betri rétt og hvað félagsmenn í stéttarfélögum opinberra starfsmanna varðar þá er þessi réttur umtalsvert betri en lögin og kjarasamningar á almennum vinnumarkaði geyma. Til þess að þekkja hversu lengi menn eiga rétt til greiðslu í veikindum er því mjög nauðsynlegt að kanna hverju sinni þann kjarasamning sem unnið er eftir.
Hér á eftir verður fjallað um grunnréttinn eins og hann birtist í lögum nr. 19/1979 og sjómannalögum nr. 35/1985.
Í 1 og 2.mgr. 5.gr. laga nr. 19/1979 segir: „Allt fastráðið verkafólk, sem ráðið hefur verið hjá sama atvinnurekanda í eitt ár samfellt, skal er það forfallast frá vinnu vegna sjúkdóma eða slysa eigi missa neins í af launum sínum, í hverju sem þau eru greidd, í einn mánuð. – Hafi slíkt starfsfólk verið ráðið hjá sama atvinnurekanda í þrjú ár samfellt skal það, auk þess sem í 1. mgr. segir, halda daglaunum sínum í einn mánuð, en í tvo mánuði eftir fimm ára samfellda ráðningu hjá sama atvinnurekanda.“
Í 6.gr. laganna segir um veikindi á fyrsta starfsári: „Á fyrsta starfsári hjá sama atvinnurekanda skal verkafólk eigi missa neins í af launum, í hverju sem þau eru greidd, í tvo daga fyrir hvern unninn mánuð í veikinda- og slysatilfellum, auk réttar til dagvinnulauna skv. 4. gr. „
Í 1 og 2.mgr. 36.gr. sjómannalaga nr. 35/1985 segir: „Ef skipverji verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann verður fyrir meðan á ráðningartíma stendur skal hann eigi missa neins í af launum sínum í hverju sem þau eru greidd svo lengi sem hann er óvinnufær af framangreindum ástæðum, þó ekki lengur en tvo mánuði. Sé skipverji í launalausu fríi er hann veikist eða slasast tekur hann laun frá þeim tíma er hann skyldi hefja störf að nýju. Skipverji, sem forfallast vegna veikinda, á þó ekki rétt til launa í fleiri daga en hann hefur verið í þjónustu útgerðarmanns. – Hafi skipverji verið ráðinn á sama skip eða hjá sama útgerðarmanni í tvö ár samfellt skal hann, auk þess sem í 1. mgr. segir, halda föstu kaupi, kauptryggingu eða sérlega umsömdu veikindakaupi í allt að einn mánuð en í allt að tvo mánuði eftir fjögurra ára samfellda ráðningu hjá sama útgerðarmanni.“
Um skýringu þeirra launahugtaka sem ákvæði þessi geyma vísast til kaflans „Greiðslur í veikindum“.
Atriði sem áhrif hafa á lengd veikindaréttar
Ýmis atriði koma hér til skoðunar; annars vegar þau atriði sem mælt er fyrir um í lögum nr. 19/1979 og hins vegar það sem samið er um í kjarasamningum. Á síðustu árum hefur áhersla verið lögð á aukinn flutning veikindaréttar milli atvinnurekenda. Það kemur til vegna meiri hreyfanleika vinnuaflsins. Tap réttinda við atvinnuskipti getur verkað hamlandi á hreyfanleika vinnuaflsins og latt launafólk í að sækja sér starfs- og endurmenntun.
Samfelldur starfstími og endurráðning hjá sama atvinnurekanda
Réttur starfsmanna til launa í veikindum er áunninn réttur. Það ræðst fyrst og fremst af samfelldum starfstíma hjá sama atvinnurekanda hve langur rétturinn er. Þetta er meginregla laga nr. 19/1979 og yfirleitt liggur ljóst fyrir hve langur samfelldur ráðningartími manna er, hvenær þeir hófu störf og hve lengi þeir unnu. Lög nr. 19/1979 gera ekki ráð fyrir því að veikindaréttindi endurnýist við endurráðningu hjá sama atvinnurekanda. Það fer eftir kjarasamningum hverju sinni hve hratt launafólk endurnýjar veikindarétt sinn við endurráðningu hjá sama atvinnurekanda.
Flutningur réttinda milli atvinnurekenda
Sé samið í kjarasamningum um flutning á veikindarétti milli atvinnurekenda, gildir það yfirleitt aðeins um hluta af áunnum rétti. Verkamaður sem t.d. hefur starfað hjá sama atvinnurekanda og áunnið sér 4 mánaða veikindarétt flytur skv. kjarasamningi SGS sem tók gildi 1. febrúar 2008, með sér 2 mánaða rétt (1 á staðgengilslaunum og 1 á dagvinnulaunum) enda hafi hann ráðið sig innan 12 mánaða hjá nýjum atvinnurekanda og starfslok hjá hinum fyrri borið að með eðlilegum hætti. Með því er t.d. átt við að starfsmaðurinn hafi ekki hlaupist fyrirvaralaust úr starfi eða verið rekinn fyrirvaralaust vegna alvarlegra brota á ráðningarsamningi.
Fæðingarorlof
Um ávinnslu veikindaréttar í fæðingarorlofi fer skv.lögum um fæðingar og foreldraorlof nr. 95/2000 en þar er tekið fram að fæðingarorlof reiknist til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta.