Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera starfsfólki kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu, óháð kyni. Ráðstafanir skulu m.a. miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsfólks og þarfa atvinnulífsins, þ.m.t. að starfsfólki sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna brýnna fjölskylduaðstæðna. Ekki er um að ræða launarétt á meðan á ráðstöfunum stendur, heldur að atvinnurekandi taki tillit til og geri ráðstafanir til þess að auka svigrúm starfsmanns. Ekki hefur mikið reynt á umrædda reglu í framkvæmd, en þó hefur fallið einn úrskurður hjá kærunefnd jafnréttismála sem beinlínis fjallar um réttinn til samræmingar og þeirra ráðstafana sem atvinnurekandi þarf að grípa til.
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála nr. 1/2018 er áhugaverður í þessu sambandi. Kærandi var starfsmaður kærða er hún fór í fæðingarorlof í september 2016. Til stóð að hún yrði í fæðingarorlofi í eitt ár. Í ágústmánuði ári síðar upplýsti hún kærða um að illa gengi að finna dagvistunarúrræði fyrir barn sitt. Skömmu síðar upplýsti hún kærða um að hún fengi dagvistun hluta dags og gæti þar með bara starfað í 70% starfi, en fyrir fæðingarorlof starfaði hún í 100% starfi. Faðir barnsins hafði þá sjálfur fengið jákvæð svör um svigrúm í sínu starfi á móti henni til að sinna barninu. Aðilar deildu á um samskiptin sem í framhaldi urðu, allt til þess þegar kærði tilkynnti kæranda um að þar sem hún hafði ekki mætt til starfa og að upplýsa um að hún ætti ekki kost á að sinna fullu starfi, hafi hún þar með sagt starfi sínu lausu/rift ráðningarsamningi. Það lá fyrir að kærandi hafði gert allt sem í hennar valdi stóð til þess að koma barni í vistun til þess að geta sinnt starfi, sem leiddi til þess að hún gat unnið 70% starf. Hins vegar lá ekkert fyrir um með hvaða hætti kærði hafði reynt að koma til móts við kæranda, eða hvernig skert starfshlutfall hafi komið niður á rekstri kærða, önnur en yfirlýsing hans um að hann hafi allt reynt. Kærunefndin taldi það atvinnurekenda nær en kæranda að koma með tillögu um það með hvaða móti unnt væri að koma til móts við hana með tímabundnum aðgerðum og að sama skapi að kærði hafi ekki sýnt fram á þær rekstrarlegu ástæður sem stóðu í veg fyrir svigrúmi um breytingu á vinnutíma með óyggjandi hætti. Var það því niðurstaða nefndarinnar að kærði hafi brotið gegn 21. gr. laganna um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs.
Af úrskurði þessum má ætla að á atvinnurekenda hvílir rík skylda til þess að 1) finna lausnir í formi breytts vinnutíma, skertum vinnutíma, vinnu utan starfsstöðvar eða ámóta ráðstöfunum, 2) og sýna fram á það með óyggjandi hætti að raunverulegar rekstrarlegar ástæður séu fyrir því að ekki er hægt að komast til móts við starfsmann.