VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Mörk iðnaðar

Með lögum nr. 70/1954 um breytingu á 44. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 fékk Félagsdómur aukin verkefni, en í 2. gr. laganna var stéttarfélögum, félögum meistara og iðnrekenda og einstökum atvinnurekendum heimilað að leita úrskurðar Félagsdóms um það hvort starfsemi félli undir I. og II. kafla laga um iðju og iðnað, svo og um það til hvaða löggiltrar iðngreinar hún taki. Með iðnaðarlögum nr. 42/1978 voru lögin um iðju og iðnað afnumin. Ákvæðunum í lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur hefur þó ekki verið breytt. Gera verður ráð fyrir að Félagsdómur geti þrátt fyrir þessa breytingu dæmt um mörk iðju og iðnaðar. Ekkert er minnst á lögsögu Félagsdóms í lögunum.

Tveir dómar Félagsdóms hafa sérstaklega fjallað um þetta. Í Félagsdómi 1/1957 (IV:188) var deilt um það hvort starfræksla klichégrafvélar gæti talist iðnaður og taldi Félagsdómur svo ekki vera. Í Félagsdómi 6/1968 (VI:128) var deilt um mörk milli starfs faglærðra iðnaðarmanna og ófaglærðra og mörk milli starfsgreina fagmanna.

Í Hrd. 1968:1155 var deilt um það hvort ákveðið starf teldist iðnaður í skilningi laga um iðju og iðnað. Var málið flutt í bæjarþingi Hafnarfjarðar og síðan áfrýjað til Hæstaréttar. Hæstiréttur felldi hinn áfrýjaða dóm úr gildi með þeim rökum að úrlausnarefnið bæri undir Félagsdóm.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn