VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Réttur til fæðingarorlofs

Réttur til töku fæðingarorlofs stofnast við;

  •  fæðingu barns,
  •  frumættleiðingu barns yngra en átta ára,
  •  töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur.

Réttur til fæðingarorlofs stofnast við fæðingu barns. Þó er foreldri heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag.

Réttur til  töku fæðingarorlofs fellur niður þegar barnið nær 24 mánaða aldri, samanber þó rétt til fæðingarorlofs vegna ættleiðingar og töku barns í varanlegt fóstur.

Komið getur til tilfærslu eða framsal á rétti foreldris til fæðingarorlofs í eftirfarandi tilfellum:

  •  Þegar annað foreldrið andast á meðgöngu barns og barnið fæðist lifandi.
  •  Þegar foreldri er einhleypt og hefur gengist undir tæknifrjóvgun eða einhleypt foreldri sem hefur frumættleitt barn eða tekið barn í varanlegt fóstur.
  •  Þegar foreldri er ekki fært um að uppfylla skyldu til að feðra barn sitt.
  •  Þegar annað foreldri andast áður en barn nær 24 mánaða aldri.
  •  Þegar foreldri er ófært vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss eða afplánunar refsivistar um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess.
  •  Þegar foreldri er gert að sæta nálgunarbanni gagnvart barni sínu, gagnvart foreldrinu og/eða brottvísun

Við ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur er miðað við 24 mánuði frá þeim tíma þegar barnið kemur inn á heimilið. Ef foreldrar þurfa að sækja barnið til annarra landa getur fæðingarorlof hafist við upphaf ferðar.

Forsjárlaust foreldri á rétt til fæðingarorlofs ef fyrir liggur samþykki þess foreldris sem fer með forsjána.

Heimilt er að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks um allt að sjö mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarlega fötlun sem krefst nánari umönnunar foreldris. Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn