VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Undantekningar

Friðarskyldan er eins og áður er sagt skylda aðila kjarasamnings til að halda vinnufrið þann tíma sem kjarasamningur gildir.  Undir vissum kringumstæðum getur aðilum þó verið heimilt að leggja niður störf á kjarasamningstíma. Þær undantekningar lúta annars vegar að rétti stéttarfélags til vinnustöðvunar samkvæmt ákvæðum laganna um stéttarfélög og vinnudeilur, og einnig geta einstakir félagsmenn eða hópar þeirra átt rétt á að leggja niður vinnu.  


Félagslegar aðgerðir
Á meðan kjarasamningar eru í fullu gildi er stéttarfélagi heimilt á grundvelli 17. gr. laga nr. 80/1938 að boða vinnustöðvun í tveimur tilvikum. Heimilt er að boða samúðarverkfall og heimilt er að boða vinnustöðvun til að fylgja eftir dómum Félagsdóms. Þar með eru upptalin þau tilvik sem stéttarfélag getur boðað verkfall út af á meðan í gildi er kjarasamningur aðila. 

Samúðarverkfall

Samúðarverkfall telst vinnustöðvun eins aðila sem gerð er til stuðnings kröfum annars, sem á í verkfalli.  Í 3. tl. 17. gr. laga nr. 80/1938 segir að óheimilt sé að hefja vinnustöðvun til styrktar félagi, sem hafið hefur ólögmæta vinnustöðvun. Með gagnályktun frá þessari grein fæst sá skilningur að heimilt sé að hefja vinnustöðvun til styrktar félagi sem hafið hefur lögmæta vinnustöðvun. Samúðarverkföll eru almennt viðurkennd í dag með vísan til þessa lagaákvæðis og einnig vegna framkvæmdar í þessum málum áður en lög nr. 80/1938 voru sett.  Félagsdómur hefur staðfest þennan rétt.  Sjá Félagsdóma 1/1941 (I:130),2/1945 (II:159) og 6/1975 (VII:192).

Samúðarverkföll eru að því leyti ólík öðrum verkföllum að þau miða að því að stuðla að framgangi krafna annars aðila en þess sem stendur að samúðarverkfallinu. Þeir sem fara í samúðarverkfall vonast því ekki til þess að koma fram sínum eigin kröfum heldur kröfum annarra. Sé tilgangurinn sá að knýja fram breytingar á eigin samningum er ekki um samúðarvinnustöðvun að ræða og kann slík aðgerð þar af leiðandi að vera ólögmæt. Hér er því um hreina stuðningsaðgerð að ræða.

Friðarskyldan kemur samkvæmt þessu ekki í veg fyrir samúðarverkföll. Þetta helgast fyrst og fremst af tilgangi þeirra. Þess verður þó að geta að það er ekki heiti vinnustöðvunar sem gerir hana að samúðarverkfalli heldur tilgangur hennar og markmið.
  
Fylgja eftir dómum Félagsdóms
Önnur undantekning á friðarskyldunni lýtur að heimild í 1. tl. 17. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur. Þar segir að óheimilt sé að hefja vinnustöðvun ef ágreiningur er einungis um atriði, sem Félagsdómur á úrskurðarvald um, nema til fullnægingar úrskurðum dómsins. Hafi verið kveðinn upp dómur í Félagsdómi er því heimilt að knýja samningsaðila til efnda með vinnustöðvun, hvort sem kjarasamningur er í gildi eða ekki.
 
Réttur einstakra félagsmanna til að leggja niður vinnu
Einstaklingar eða hópar einstaklinga geta lagt niður vinnu undir ákveðnum kringumstæðum. Séu vanefndir á ráðningarsamningi verulegar af hálfu atvinnurekenda geta launamenn rift ráðningarsamningi og gengið úr starfi. Hér er þó ekki átt við riftun, heldur það úrræði að leggja niður störf þar til bætt er úr tilteknu ástandi. Ekki er um að ræða félagslega aðgerð, það er aðgerð sem boðað er til af stéttarfélagi á grundvelli reglna um verkföll, heldur heimild einstaklings eða hóps starfsmanna við ákveðnar kringumstæður. Reglur um boðun vinnustöðvunar eiga því hér ekki við, heldur verða starfsmenn undir þessum kringumstæðum að gera atvinnurekanda grein fyrir aðgerðum og kröfum um úrbætur.

Vangreidd laun
Séu laun ekki greidd getur verið um verulega vanefnd launagreiðanda að ræða og brostin forsenda fyrir ráðningarsambandi.  Starfsmenn geta þá valið milli þess að ganga úr starfi eða leggja niður störf þar til úr rætist. Að sjálfsögðu er einnig sá möguleiki til staðar að innheimta laun með aðstoð dómstóla, en sá ferill tekur lengri tíma. Hér skal einungis fjallað um það þegar starfsmenn leggja niður störf á vinnustað meðan laun eru ekki greidd.  

Almennt er talið að starfsmenn, fái þeir laun ekki greidd, hafi rétt til þess að leggja niður störf á vinnustað þar til úr rætist. Þar sem ekki er um að ræða aðgerð sem ætlað er að knýja fram breytingar á kjarasamningi er ekki verið að brjóta friðarskyldu.   Skiptar skoðanir hafa verið um það hér á landi hvort mætingarskylda falli niður við aðgerð sem þessa. Sumir hafa talið að nauðsynlegt sé fyrir starfsmenn að mæta á vinnustað, stimpla sig inn og lýsa sig reiðubúna til starfa um leið og peningar koma,   en aðrir hafa litið svo á að meðan laun séu ekki greidd sé ekki hægt að gera kröfu til þess að starfsmenn mæti á staðinn. Telja verður að hyggist starfsmenn leggja niður störf til að knýja á um greiðslu launa sé ráðlegast  að haga því þannig að þeir fyrirgeri ekki rétti. Með setuverkfalli halda þeir öllum rétti, þeir mæta á staðinn, lýsa sig reiðubúna til að hefja störf um leið og laun eru greidd en hafast að öðru leyti ekki að.

Aðgerðina er nauðsynlegt að tilkynna þeim sem hún beinist að, en þar sem ekki verður talið að  um félagslega aðgerð sé að ræða gilda ekki reglur í 16. gr. laga nr. 80/1938 um tilkynningar.  Um það eru þó nokkuð skiptar skoðanir hvort stéttarfélag geti boðað til vinnustöðvunar vegna vangreiddra launa eða hvort þessi réttur er eingöngu bundinn við þá einstaklinga sem brotið er á. 

Um leið og launagreiðsla berst er starfsmönnum skylt að hefja störf að nýju. Þessi heimild er til staðar vegna verulegrar vanefndar launagreiðanda sjálfs. Stafi vanefnd af óviðráðanlegum ytri atvikum, (force majeure), svo sem ef rafmagnsleysi eða óveður kemur í veg fyrir að hægt sé að greiða laun verður starfsfólk væntanlega að sætta sig við það ástand. Heimildin telst vart vera til staðar vegna skekkju á launaútreikningi, vegna ágreinings um launaútreikning eða vegna vangreidds orlofs.  Úrræði vegna vangreidds orlofs er að finna í 11. gr. laga um orlof nr. 30/1987.

Hættuleg vinna
Önnur undantekning frá friðarskyldunni grundvallast af hættu er steðjar að launafólki við vinnu. Ef heilbrigðis- og öryggisbúnaði á vinnustað er svo áfátt að veruleg slysahætta er fyrir hendi er starfsmanni heimilt, og í ákveðnum tilvikum skylt að leggja fyrirvaralaust niður vinnu án þess að um friðarskyldubrot sé að ræða.

Í 86. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum segir að þegar atvinnurekanda eða starfsmönnum sem falin hefur verið verkstjórn, öryggisvarsla eða öryggistrúnaðarstarf, verði ljóst að skyndilega hafi upp komið bráð hætta á heilsutjóni eða vinnuslysum starfsmanna á vinnustað, svo sem vegna loftmengunar, eitraðra, eldfimra eða hættulegra efna, hættu á hruni jarðvegs, vörustæðu eða burðarvirkis, fallhættu, sprengihættu eða annarrar alvarlegrar hættu, er þeim skylt að hlutast til um að starfsemin verði stöðvuð strax og/eða starfsfólk hverfi frá þeim stað þar sem hættuástand ríkir.

Einnig gilda hér almenn neyðarréttarsjónarmið.  Mönnum ber að forða sér sé hætta yfirvofandi, jafnvel þótt verkstjóri eða öryggistrúnaðarmaður hafi ekki fyrirskipað slíkt.

Önnur tilvik
Hægt er að hugsa sér að fleiri tilvik geti komið upp sem leysi starfsmenn frá vinnuskyldu tímabundið, án þess að um brot á friðarskyldu sé að ræða. Í dönskum rétti hafa grófar ærumeiðingar þótt heimila þeim launþegum er fyrir þeim verða að leggja fyrirvaralaust niður vinnu. Byggir þetta á ákvæði í heildarkjarasamningi. Vafasamt er að þetta gilti hér á landi, þar sem slík ákvæði eru ekki í kjarasamningum.

Líkamlegt ofbeldi eða hótun um beitingu þess af hálfu vinnuveitanda gagnvart launþega getur væntanlega veitt starfsmanni rétt á að stöðva vinnu án þess að slíkt væri talið vera brot.

Óánægja og deilur á vinnustað vegna verkstjórnar geta ekki skapað starfsmönnum rétt til að leggja niður vinnu og meginreglan er sú að skýra verður allar undantekningar á friðarskyldu þröngt.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn