Með sama hætti og atvinnurekanda eru heimiluð tiltekin úrræði vegna vanefnda á ráðningarsamningi getur starfsmaður gripið til ákveðinna ráðstafana og jafnvel rift ráðningarsamningi vegna verulegra vanefnda atvinnurekanda. Verður að meta það hverju sinni hvort um vanefndir á ráðningarsamningi er að ræða og í ljósi þess til hvaða úrræða starfsmaður getur gripið.
Undir ákveðnum kringumstæðum er starfsmanni talið heimilt að efna ekki meginskyldur samkvæmt ráðningarsamningi án þess að rifta honum vegna vanefnda atvinnurekanda. Er það ef veruleg vanefnd verður og launagreiðslur berast ekki og ef öryggismálum er svo háttað að starfsmanni stafi hætta af. Sjá t.d. grein 7.3.4. í kjarasamningi Starfsgreinasambandsins. Eru þessar heimildir tengdar tilteknum vanefndum sem ætla má að séu tímabundnar. Að því loknu ber starfsmanni að efna skyldur sínar að nýju. Sé ekki bætt úr vanefndum getur orðið um verulega vanefnd að ræða og getur gróft brot þá leitt til þess að starfsmaður á rétt á að rifta ráðningarsamningi sínum.