VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Riftun ráðningarsamnings

Lögum nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum er ætlað að standa vörð um réttindi og atvinnuöryggi starfsmanna þegar fyrirtækið sem þeir starfa hjá er framselt til nýs atvinnurekanda.

Þrátt fyrir þetta markmið laganna þá hefur hver starfsmaður þann rétt að hafna því að ráðningarsamningur sinn, með þeim réttindum og skyldum sem honum fylgja, sé framseldur til annars atvinnurekanda. Sá réttur byggir á þeim grundvallarrétti launafólks að mega velja frjálst og óháð hvort það starfi fyrir tiltekinn atvinnurekanda eða ekki. Starfsmenn verða m.ö.o. ekki með vísan til framangreindra laga knúnir gegn vilja sínum til að samþykkja framsal á ráðningarsamningi sínum til nýs atvinnurekanda.

Í lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum er ekki tekin afstaða til þess hvaða áhrif slík ákvörðun kann að hafa á réttarstöðu starfsmanns sem hafnar yfirfærslu á ráðningarsamningi sínum til nýs atvinnurekanda. Því er þannig ekki svarað hvort hann eigi rétt á launum út sinn kjarasamningsbundna uppsagnarrétt, hvort honum beri að vinna uppsagnarfrestinn og þá hvort honum beri að skila vinnuframlagi sínu undir verkstjórn hins nýja atvinnurekanda eða eftir atvikum þess gamla. Úr þessu álitaefni hefur ekki verið skorið af hálfu Hæstaréttar.

Ef hlutaðeigandi starfsmanni býðst sams konar starf hjá hinum nýja atvinnurekanda á sömu launum og starfskjörum og áður, verður almennt að líta svo á að réttur hans til launa í uppsagnarfresti sé bundinn því skilyrði að hann starfi út uppsagnarfrestinn. Ef uppsagnarfresturinn er ekki að fullu liðinn þegar aðilaskiptin eiga sér stað yrði hann því að klára uppsagnarfrestinn undir verkstjórn hins nýja atvinnurekanda, en missa ella rétt til launa fyrir þann hluta uppsagnarfrestsins sem fellur eftir aðilaskiptin. Hinn kosturinn er sá að starfsmaðurinn mæti einfaldlega ekki til starfa fyrir hinn nýja atvinnurekanda þann dag sem aðilaskiptin eiga sér stað, en sú ákvörðun getur haft eftirmála í för með sér samkvæmt almennum reglum um bótaábyrgð starfsmanna vegna brotthlaups úr starfi.

Réttarstaða starfsmanna er önnur en að framan greinir ef aðilaskipti hafa fyrirsjáanlega í för með sér verulegar breytingar á launum og/eða öðrum starfskjörum þeirra. Þannig segir í  lögunum að ef aðilaskipti leiða til verulegra breytinga á starfsskilyrðum, starfsmanni í óhag, og starfsmaður kýs að rifta ráðningarsamningi sínum af þeim sökum, þá skuli lítið svo á að atvinnurekandi hans beri ábyrgð á þeirri riftun. Ef það er niðurstaðan þarf starfsmaðurinn ekki að vinna út uppsagnarfrestinn og gæti krafið atvinnurekanda um bætur, sem gætu eftir atvikum numið jafnhárri upphæð og samningsbundnum launum í uppsagnarfresti.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn