Svipuð sjónarmið gilda um tilkynningar starfsmanna til atvinnurekenda þegar þeir hyggjast ganga úr starfi og þegar atvinnurekendur hyggjast reka starfsmenn. Kemur þetta fram í Hrd. 1978:1247 en þar hætti starfsmaður fyrirvaralaust starfi þar sem laun voru ekki greidd á gjalddaga eða með gjaldgengum peningum. Undirréttur tekur fram að starfsmaður hafi ekki tilkynnt atvinnurekanda að hann myndi hætta eða vildi hætta vegna vanefnda á kaupgreiðslum og gaf starfsmaður því atvinnurekanda ekki kost á að sjá um að vanefndir á kaupgreiðslum endurtækju sig ekki. Sjá hér Hrd. 1995:1293.