VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Sveigjanleiki í orlofstöku

Miklir möguleikar eru gefnir á sveigjanlegri töku fæðingarorlofs. Þá geta foreldrar valið að hve miklu leyti þeir taka orlofið saman eða á ólíkum tíma. Fæðingarorlof má nýta allt til 24 mánaða aldurs barnsins og lengur ef um er að ræða ættleiðingu eða varanlegt fóstur.

Starfsmaður skal eiga rétt á að taka fæðingarorlof í einu lagi.

Með samkomulagi við atvinnurekanda er starfsmanni einnig heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það er tekið samhliða skertu starfshlutfalli. Þó má aldrei taka fæðingarorlof skemur en tvær vikur í senn.

Atvinnurekandi skal leitast við að koma til móts við óskir starfsmanns um sveigjanlega tilhögun fæðingarorlofsins. Geti atvinnurekandi ekki fallist á óskir starfsmanns um sveigjanlega tilhögun skal hann að höfðu samráði við starfsmanninn leggja til aðra tilhögun innan viku frá móttökudagsetningu tilkynningar starfsmanns um orlofstöku. Skal atvinnurekandi gera þetta skriflega og tilgreina ástæður fyrir breyttri tilhögun. Ef samkomulag næst ekki á milli starfsmanns og atvinnurekanda um töku fæðingarorlofs á starfsmaður alltaf rétt á að taka fæðingarorlof sitt í einu lagi.

Hafi atvinnurekandi ekki komið með skriflegar og rökstuddar athugasemdir við óskir starfsmanns um tilhögun fæðingarorlofs innan viku frá móttökudagsetningu tilkynningar um töku orlofsins, má starfsmaður líta svo á að tilhögun hans á töku fæðingarorlofs hafi verið samþykkt.

Þrátt fyrir það sem að framan greinir skal móðir vera í fæðingarorlofi minnst fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn