Sjómenn
Í 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 segir að útgerðarmaður skuli sjá um að gerður sé skriflegur ráðningarsamningur, skipsrúmssamningur, við skipverja.
Samningurinn skal vera í tvíriti og heldur hvor sínu eintaki. Í samningnum skal m.a. greina fullt nafn skipverja, fæðingarár og dag, heimili og kennitölu, stöðu hans á skipinu, nafn og heimilisfang nánasta aðstandanda eða ættingja, ferð þá eða tímabil sem skipverjinn er ráðinn til, hvar ráðningu skuli slitið og uppsagnarfrest, sé um það samið, umsamið kaup og önnur hlunnindi.
Í 42. gr. sömu laga er að finna sambærilegt ákvæði um skipstjóra.
Hafi ekki verið gerður skipsrúmssamningur hefur það ekki áhrif á ráðninguna sem slíka en komi upp túlkunarágreiningur ber útgerðin hallann af því að samningur var ekki gerður.
Á þetta atriði hefur reynt í nokkrum málum fyrir Hæstarétti.
Í Hrd. nr. 294/2000 var fjallað um umfang greiðsluskyldu útgerðaraðila vegna slyss sem sjómaður varð fyrir um borð í einu af skipum hans. Sjómaðurinn var fyrir slysi í skipinu A þann 1. júní 1998 og varð óvinnufær til 16. júlí sama ár. Hann fékk greidd laun til 16. júlí en krafðist staðgengilslauna til 4. ágúst, en þann dag lauk veiðiferð þess skips sem hann hafði verið á þegar slysið varð. Hélt hann því fram að þar sem hann hefði verið ráðinn á skipið A ætti hann rétt til launa á meðan fjarvera skipsins hamlaði því að hann hæfi störf á því, sbr. 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Hæstiréttur bendir á í sjómannalögum sé út frá því gengið að sjómenn séu ráðnir í tiltekið skiprúm. Hefur sá, sem heldur því fram að ráðning sjómanns hafi verið miðuð við störf á ótilgreindum skipum útgerðar, sönnunarbyrði fyrir því. Útgerðaraðilinn var talinn þurfa að bera hallann af sönnunarskorti um inntak ráðningarsamningsins, enda hafði hann ekki hlutast til um gerð skriflegs ráðningarsamnings svo sem skylt var samkvæmt 6. gr. sjómannalaga. Var því lagt til grundvallar að viðkomandi sjómaður hefði verið ráðinn í skipsrúm á skipinu A.
Í Hrd. nr. 158/2003 var útgerðaraðili sýknaður af kröfu skipverja sem hrasaði við vinnu sína í vinnslusal skipsins og slasaðist. Skipverjinn hafði að auki uppi kröfu um laun í uppsagnarfresti. Ekki var ágreiningur milli aðila um að skipverjinn hefði í upphafi aðeins verið ráðinn sem afleysingamaður í þessa einu veiðiferð og þá sem 2. stýrimaður. Var ekki gerður um þetta skriflegur ráðningarsamningur þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga. Aðilar deildu hins vegar um hvort gengið hafi verið frá fastráðningu meðan á veiðiferðinni stóð. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að ekki þótti miðað við atvik málsins að láta útgerðaraðilann bera hallann af því að ekki hafði verið gerður skriflegur samningur um framhaldsráðningu skipverjans. Með því að skipverjanum tókst ekki að sanna þá fullyrðingu að hann væri fastráðinn var hafnað kröfu hans um laun í uppsagnarfresti.
Iðnnemar
Í lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 er fjallað um starfsnám. Í 25. gr. laganna segir að starfsnám skuli stuðla að almennri menntun nemenda, veita þeim undirbúning til tiltekinna starfa og innsýn í hlutverk fyrirtækja og starfsfólks í atvinnulífi. Náminu er jafnframt ætlað að hvetja nemendur til að viðhalda þekkingu sinni og bæta við hana með endurmenntun eða áframhaldandi námi.
Reglugerð um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað nr. 840/2011 geymir ákvæði um námssamninga. Þar segir að gera skuli námssamning milli iðnfyrirtækis eða meistara og iðnnema í samræmi við lög um framhaldsskóla og reglugerðina. Iðnmenntaskólar fylgjast með að samningar um starfsþjálfun í atvinnulífinu séu gerðir fyrir hönd iðnnema á verknámsbrautum. Fulltrúi menntamálaráðherra staðfestir námssamning.
Leita skal staðfestingar fulltrúa ráðherra á námssamningi innan mánaðar frá undirskrift. Menntamálaráðuneytið leggur til eyðublöð undir námssamninginn og ræður gerð hans. Þar skal skrá upphaf náms, áætluð námslok svo og skóla þar sem nám er stundað. Fyrstu 3 mánuðir námstíma samkvæmt námssamningi skoðast sem reynslutími. Hvenær sem er á reynslutíma getur hvor samningsaðili um sig slitið námssamningi án þess að tilgreina ástæður.