Almennt er það ástand þar sem allir einstaklingar í ákveðnu samfélagi eða hóp eru jafnir og hafa sömu stöðu. Margir þættir spila saman í að tryggja einstaklingi jafnrétti, en það byggist meðal annars á jöfnum borgaralegum réttindum, tjáningarfrelsi, eignarrétti og jöfnum aðgangi að vörum og þjónustu. Jafnrétti nær til allra innan tiltekins samfélags, og veitir öllum sömu möguleika og skyldur. Til þess að haldið sé utan um jafnréttisástand er krafist afnáms lögbundinnar stéttaskiptingar og mismununar fólks á grunni óumbreytanlegra eiginleika vitundar þess. Sem dæmi um slíka eiginleika má nefna kyn, aldur, kynþátt, kynhneigð, kynvitund, stétt, móðurmál, trúarbrögð, heilsuástand og fötlun.
Krafan um jafnrétti kynja og bann við mismunun launafólks á vinnumarkaði án tillits til þátta sem ekki varða hæfni launafólks eða verðmæti vinnuframlags þess er og hefur ætíð verið ein af grundvallarkröfum verkalýðshreyfingarinnar. Stéttarfélög eru bundin af þessari meginreglu og semja ekki um ólík kjör félagsmanna sinna á grundvelli kyn eða annarra þátta sem hafa ekkert með stöðu þeirra á vinnumarkaði að gera. Þessi grundvallarregla er einnig undirstrikuð sérstaklega í lögum um starfskjör launafólks nr. 55/1980 en þar segir að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör óháð kyni […] fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til.
Jafnrétti er einnig og almennt ein mikilvægustu mannréttindi okkar og eru tryggð m.a. í Stjórnarskrá Íslands, sbr. 65. gr. þar sem segir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“ Þá segir í 2 mgr. sömu greinar að konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna. Þessi réttur er síðan speglaður í almennum lögum og ítrekaður víða.
Ísland hefur lengi verið talið framarlega í baráttunni fyrir jafnrétti á vinnumarkaði, aðallega þó jafnrétti karla og kvenna. Nú er að finna sérstakar reglur um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, lög nr. 85/2018, jafna meðferð á vinnumarkaði, lög nr. 86/2018 og um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög nr. 150/2020. Auk þess skal fylgja jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðum meginreglum þegar við á.
Mikið af þeirri löggjöf sem gildir hér á landi á sér rætur í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum en einnig og ekki síður í EES rétti. Nánari upplýsingar um starf Evrópusambandsins á sviði jafnréttismála er að finna á sérstakri heimasíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um jafnréttismál. Fjölmargar samþykktir og tilmæli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar ILO fjalla um jafna meðferð og bann við mismunun. Jafnframt hefur ILO gefið út margskonar fræðsluefni um hin ólíkustu málefni á þessum vettvangi eins og t.d. fyrir lögfræðinga og dómara eins og um alnæmi, aids og réttindi á vinnumarkaði sem alla jafna fær litla athygli hér á landi. Jafnframt hefur ILO gefið út viðmiðunarreglur um fötlunarstjórnun á vinnustað sem er að finna hér: „Fötlunarstjórnun á vinnustað – Viðmiðunarreglur ILO“.
Jafnrétti á vinnumarkaði og bann við mismunun er sífellt verkefni sem tekur ýmsum breytingum og þróast og er í dag orðið stórt verkefni á vinnumarkaði. Það er mikilvægur þáttur þessa verkefnis, að allir sem til þess hafa færni og hæfni, geti verið virk á vinnumarkaði án mismununar. Atvinnuþátttaka er mikilvæg vegna framfærslu, en ekki síður sem félagslegur þáttur sem vinnur gegn einangrun og fátækt. Um er að ræða lifandi málefni sem tekur mið af samtíma og siðferði.
Í undirköflum verður leitast við að fjalla um nokkur atriði sem áhrif hafa á mat um jafnrétti á vinnumarkaði. Fjarri lagi er um tæmandi umfjöllun að ræða um alla þætti og umfjöllunin bundin við kyn, aldur og fötlun.