VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Vangreidd laun

Vanti upp á launagreiðslur gildir sú regla að launamaður á rétt á leiðréttingu launa auk greiðslu dráttarvaxta frá gjalddaga til greiðsludags. Hafi launaútreikningar verið rangir um eitthvert tímabil ber að leiðrétta þá aftur eins langt og skekkjan hefur staðið.

Fyrirvaralaus kvittun starfsmanns um móttöku launa þarf ekki að breyta rétti hans til leiðréttingar á launum sbr. t.d. Hrd. 1953:643 en þar segir m.a.: „Ákvæði 7.gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 ber að skýra þannig, að þó að starfsmenn hafi kvittað fyrirvaralaust fyrir lægri laun en þeim bar samkvæmt kjarasamningi stéttarfélags síns, þá eigi þeir samt rétt, til að fá mismuninn greiddan úr hendi atvinnurekanda eftir á.“ 

Launagreiðandi getur þó borið fyrir sig ákvæði laga um fyrningu vegna kröfu launamanns um leiðréttingu auk þess sem tómlæti getur einnig haft áhrif.

Fyrning – 4 ár

Laun fyrnast á fjórum árum frá gjalddaga skv. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

Tómlæti

Hafi móttakanda launanna mátt vera ljós skekkjan kann að vera að tómlæti hans hafi áhrif á rétt hans til leiðréttingar aftur í tímann og almennt verður starfsmaður að gera athugasemdir við skekkjur í launaútreikningum án óeðlilegs dráttar, því annars gætu tómlætissjónarmið skert rétt hans. Í Hrd. 1991:70 var fjallað um kröfu manns til leiðréttingar á launum í veikindatilfellum. Voru þá liðin tvö ár og sjö mánuðir frá fyrra veikindatímabilinu sem um var deilt og nær átta mánuðir frá því síðara. Í báðum tilvikum tók maðurinn við launauppgjöri án fyrirvara eða athugasemda. Eftir það hreyfði hann því í engu við atvinnurekandann að hann teldi sig vanhaldinn um launakjör, fyrr en eftir að hann lét af störfum og skrifaði atvinnurekandanum bréf þar sem hann krafði hann um leiðréttingar. Í dómi Hæstaréttar segir að þegar þetta sé virt sé ljóst að maðurinn hafi sýnt mjög verulegt tómlæti um gæslu þess réttar er hann taldi sig eiga á hendur atvinnurekandanum og þar með hafi hann fyrirgert rétti sínum til leiðréttingar. Var atvinnurekandinn sýknaður af kröfum starfsmannsins. 

Svipuð sjónarmið voru uppi í Hrd. 144/2016. Þar átti í hlut framkvæmdastjóri fyrirtækis og taldi Hæstiréttur að ef hann hefði talið sig eiga kröfu á félagið vegna kaupauka hefði honum verið skylt að sjá til þess að slíkrar kröfu væri getið í bókhaldi og ársreikningi. Þessa hefði hann ekki gætt heldur hefði hann fyrst haft uppi kröfuna eftir að hann lét af störfum. Hefði krafan því komið svo seint fram að hann hafði þá þegar glatað ætluðum rétti sínum til að hafa hana uppi fyrir tómlætis sakir.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn