VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Setuverkfall

Falli launagreiðslur niður um einhvern tíma getur verið um verulega vanefnd launagreiðanda að ræða og forsenda brostin fyrir áframhaldandi vinnu. Stafi vanefnd af ytri ómöguleika, svo sem vegna verkfalls bankamanna, og því sé ekki hægt að nálgast fé til launagreiðslu verður starfsfólk væntanlega að sætta sig við það ástand. Meta verður í hverju tilviki til hvaða aðgerða launafólk grípur, meðal annars með tilliti til þess hversu alvarleg vanefndin er. Sé vanefnd veruleg er almennt viðurkenndur sá réttur launafólks að leggja niður störf, það er að efna ekki meginskyldu ráðningarsamnings.

Aðrar skyldur samningsins verður þó að uppfylla, svo sem að mæta til vinnu, stimpla sig inn og vera til taks. Um þetta kunna þó að vera skiptar skoðanir en þar sem hér er ekki um verkfallsaðgerð að ræða heldur einungis að vinnuframlag er fellt niður verður að uppfylla aðrar skyldur. Sé einungis deila um einhvern hluta launa eða orlof verður að fara með þann ágreining eins og annan réttarágreining.

Í álitsgerð, sem Guðríður Þorsteinsdóttir lögmaður tók saman um þetta efni 1984, telur hún þessar meginreglur gilda:

  • Séu óumdeild laun ekki greidd á réttum tíma er starfsmönnum almennt heimilt að leggja niður vinnu.
  • Sé aðeins óverulegur hluti launa ógreiddur er ekki heimilt að beita vinnustöðvun.
  • Vanefnd sem stafar af óviðráðanlegum utanaðkomandi atvikum (force majeure) getur leyst atvinnurekanda undan ábyrgð.
  • Almennt ber að greiða laun þá daga sem lögleg vinnustöðvun vegna vangoldinna launa stendur.
  • Almennt yrði það ekki talið skilyrði fyrir greiðslu launa meðan vinnustöðvun stendur að starfsmaður mæti til vinnu.
  • Réttur til vinnustöðvunar er almennt hjá einstökum starfsmönnum.
  • Atvinnurekanda ber að greiða starfsmanni dráttarvexti af vangreiddum launum.
VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn