VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Aðgangur að gögnum

Í viðmiðunarreglum um réttindi og skyldur stjórnarmanna í aðildarsamtökum ASÍ er að finna í leiðbeinandi reglur um aðgang að gögnum. Þar segir:

„2.3. Aðgangur að gögnum: Stjórnarmenn í aðalstjórn hafa vegna starfa sinna aðgang að fjárhagslegum upplýsingum, skuldbindingum, fundargerðarbókum og skjölum stjórnar nefnda og ráða á vörslustað þeirra. Stjórnarmenn einstakra eininga hafa sambærilegan aðgang að gögnum sem tilheyra stjórnstigi þeirra. 

Reglur þessar eru settar með vísan til 4.gr. laga ASÍ, eru óskuldbindandi en skulu vera aðildarsamtökunum til leiðbeiningar.

Við túlkun laga ASÍ og aðildarsamtakanna ber að hafa hliðsjón af landslögum er varða störf félagasamtaka og túlka þau til samræmis. Það á sérstaklega við um þau félög sem njóta sérstakrar verndar og sem gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki. Í þann hóp falla stéttarfélög og sambönd þeirra. Dómar á þessu sviði eru fáir. Í óröskuðum dómi undirréttar sem birtur er með Hrd. 301/2002 var fallist á kröfu stjórnarmanns um óheftan aðgang hans að bókhaldsgögnum VLFA með þeim orðum „… að honum beri sem aðalstjórnarmanni í stefnda skylda til að hafa eftirlit með rekstri skrifstofu félagsins, …“ Málið varðaði að sönnu einungis bókhald VLFA en af rökstuðningi undirréttar og eftirfarandi rökstuðningi Hæstaréttar má ráða að niðurstöðuna bera að túlka þannig að hún sé almenn leiðbeining um rétt stjórnarmanna í stéttarfélögum til aðgangs að gögnum þeirra en þar segir:

Áfrýjandi er almennt félag með frjálsa félagsaðild. Um slík félög eru fá ákvæði í settum lögum og fer um þau samkvæmt félagssamþykktum og óskráðum reglum, sem byggjast á samningarétti og almennum reglum félagaréttar. Líta verður til þess um hvers konar félag er að ræða þegar þessum reglum er beitt. Skiptir því hér máli að um stéttarfélag er að ræða, en almennt gildir um slík félög að félagsaðild getur haft verulega þýðingu fyrir félagsmenn, meðal annars vegna forgangs þeirra til vinnu samkvæmt kjarasamningum. Félagsmenn taka þátt í félagsstarfinu á fundum. Almennt gildir að stjórnir eru kjörnar á aðalfundi og fara heimildir stjórnar eftir samþykktum félagsins og ákvörðunum funda þess. Stjórnarmenn taka þátt í stjórnarstörfum á stjórnarfundum hafi samþykktirnar ekki gert þar á aðra skipan. Samkvæmt 16. gr. samþykkta áfrýjanda hefur stjórnin á hendi yfirstjórn allra mála milli félagsfunda. Hún boðar félagsfundi og ræður starfsmenn félagsins og segir fyrir um starfsskilyrði þeirra.“

Með hliðsjón af framansögðu verður að telja að óheimilt sé að neita stjórnarmönnum stéttarfélaga um aðgang að gögnum sem varða starfsemi félaganna. Í þessu sambandi ber þó að hafa í huga að persónuverndarsjónarmið geta leitt til þess að aðgang megi takmarka að persónugreinanlegum gögnum sem leynt skulu fara. Sjá „Stéttarfélög og persónuvernd“.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn