VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Orlof og sóttkví

Þegar farsóttir geysa hafa stjórnvöld heimild skv. sóttvarnarlögum nr. 19/1997, til að fyrirskipa einstaklingum að vera í sóttkví. Sé viðkomandi í launuðu orlofi frá störfum vaknar spurning um hvort þeir dagar sem sóttkví er sætt teljist til orlofsdaga eða hvort ákvæði orlofslaga og kjarasamninga eigi að leiða til þess að orlofstöku megi fresta.

Fjallað er um orlofrétt launafólks annars vegar í lögum um orlof nr. 30/1987 og hins vegar í kjarasamningum. Í 6.gr. orlofslaga segir: „Geti starfsmaður ekki vegna veikinda farið í orlof á þeim tíma sem vinnuveitandi ákveður skv. 5. gr. skal hann sanna forföll sín með læknisvottorði. Getur starfsmaður þá krafist orlofs á öðrum tíma og skal orlofið ákveðið í samráði atvinnurekanda við starfsmanninn skv. 5. gr. en þó eins fljótt og unnt er eftir að veikindunum lýkur.“

Í þessu ákvæði, sem nánast er óbreytt frá setningu laga nr. 16/1943 um orlof, er ekki með skýrum hætti tekið fram að það eigi við um veikindi í orlofi en þannig hefur ákvæðið þó verið túlkað en ákvæði kjarasamninga fjalla nánar um þau skilyrði sem uppfylla þarf. Í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði (2021) segir um það efni: „Veikist starfsmaður í orlofi innanlands, í landi innan EES svæðisins, Sviss, Bandaríkjunum eða Kanada það alvarlega að hann geti ekki notið orlofsins skal hann á fyrsta degi tilkynna það atvinnurekanda t.d. með símskeyti, rafpósti eða á annan sannanlegan hátt nema force major aðstæður hindri en þá um leið og því ástandi léttir. Fullnægi starfsmaðurinn tilkynningarskyldunni, standi veikindin lengur en í 3 sólarhringa og tilkynni hann atvinnurekanda innan þess frests hvaða læknir annist hann eða muni gefa út læknisvottorð, á hann rétt á uppbótarorlofi jafnlangan tíma og veikindin sannanlega vöruðu. Undir framangreindum ástæðum skal starfsmaður ávallt færa sönnur á veikindi sín með læknisvottorði. Atvinnurekandi á rétt á að láta lækni vitja starfsmanns er veikst hefur í orlofi. Uppbótarorlof skal eftir því sem kostur er veitt á þeim tíma sem starfsmaður óskar á tímabilinu 2. maí til 15. september, nema sérstaklega standi á. Sömu reglur og að ofangreinir gilda um slys í orlofi.“ Í kjarasamningum aðildarsamtaka ASÍ við sveitarfélögin ríkið eru styttri en samkynja ákvæði.

Veikindin verða skv. þessum ákvæðum kjarasamninganna að vera það alvarleg að maður geti ekki notið orlofsins. Ekki þarf endilega að vera um sams konar mat að ræða og við óvinnufærni, heldur kemur hér inn huglægt mat á því hvað er að njóta orlofs. Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 56/2013 er ákvæði 6.gr. orlofslaga túlkað þannig: „Miða verður við hvort þeir geti tekið sér fyrir hendur flest það sem menn gera í venjulegu orlofi. Ekki verður miðað við sérstakar kröfur sem kunna að vera gerðar til þess að starfsmenn í tilteknum störfum teljist vinnufærir. Þegar litið er til þess að í læknisvottorði er talað um minni mátt og stirðleika hefur stefnandi ekki sannað að hann hafi verið ófær um að vera í orlofi á tímabilinu.“

Í orlofslögum eða kjarasamningum er ekki sérstaklega kveðið á um að launafólk sem veikist eða slasast í orlofi eigi rétt til greiðslu launa í veikindum, einungis að viðkomandi geti krafist orlofs á öðrum tímum þ.e. hann á frítökurétt. Almenn túlkun laga- og kjarasamningsákvæðanna er hins vegar sú að þá virkist veikindaréttur fyrir þá daga sem orlofs hefur ekki verið notið.

Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að þeim sem gert er að sæta sóttkví skv. fyrirmælum yfirvalda er óheimilt allt samneyti við aðra einstaklinga og er gert að halda sig heima við eða í sérstökum sóttvarnarhúsum. Í 12.tl. 2.mgr. sóttvarnarlaga nr. 19/1997 er sóttkví skilgreind þannig: „Takmörkun á athafnafrelsi og/eða aðskilnaður einstaklinga sem grunur leikur á að hafi verið útsettir fyrir smiti en eru ekki veikir eða grunsamlegs farangurs, gáma, farartækja eða vöru frá öðrum eða öðru á þann hátt sem kemur í veg fyrir hugsanlega útbreiðslu sýkingar eða mengunar.“ Brot gegn sóttkví geta varðað refsingu sbr. 19.gr. sömu laga.  

Sóttkví byggist þannig á því að gera ráð fyrir því vegna almannaöryggis að einstaklingur sem gert er að sæta sóttkví hafi í reynd sýkst og sé meðhöndlaður þannig þar til annað er í ljós leitt. Telja verður því, að  öldungis megi jafna réttarstöðu þeirra sem ekki geta notið orlofs vegna sjúkdóms skv. 6.gr. laga nr. 30/1987 við réttarstöðu þeirra sem gert er að sæta sóttkví og innilokun vegna ætlaðs sjúkdóms sem leiðir til þess að viðkomandi þurfi að einangra sig eða dveljast í sóttvarnarhúsi. 6.gr. orlofslaganna megi þannig beita með lögjöfnun um þau tilvik, að teknu tilliti til þeirra skilyrða sem sett eru í kjarasamningum þ.e. að sóttkví standi að minnsta kosti í 3 daga eða lengur. Sömu sjónarmið eiga við um túlkun kjarasamninga.

Tilkynna þarf launagreiðanda um sóttkví með sama hætti og veikindi og skila inn tilskyldum vottorðum. Við þessar aðstæður á launamaður rétt til þess að fresta orlofstöku sinni og ljúka henni í samráði við launagreiðanda eins fljótt og hægt er eftir að sóttkví lýkur.

Sérstök lög voru sett vegna Covid-19 faraldursins þar sem launagreiðendum var gert kleyft að sækja endurgreiðslu þeirra launa sem þeir greiddu í sóttkví í ríkissjóð. Ef launagreiðandi hafði neitað greiðslu gátu launamenn sjálfir sótt um endurgreiðslu. ( Sjá 5.gr. laga nr. 24/2020)

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn