VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Foreldraorlof

Tilskipun ráðsins nr. 96/34/EB  frá 3. júní 1996 um rammasamninginn um foreldraorlof sem Samtök evrópskra iðn- og atvinnurekenda (UNICE), Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild (CEEP) og Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC) hafa gert.

Tilskipunin á ensku.

Síðari breytingar. Tilskipun nr. 97/75/EB frá 15. desember 1997 um breytingu og rýmkun á tilskipun 96/34/EB um rammasamninginn um foreldraorlof sem UNICE, CEEP og ETUC hafa gert svo að hún taki til Hins sameinaða konungsríkis Stóra-Bretlands og Norður-Írlands.

Gildandi lög. Lög nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof.

Markmið og gildissvið. Markmið þessarar tilskipunar er að koma í framkvæmd rammasamningnum um foreldraorlof sem var gerður 14. desember 1995 milli heildarsamtaka aðila vinnumarkaðarins á Evrópuvísu (UNICE, CEEP og ETUC).

Samningurinn hefur að geyma lágmarksákvæði um foreldraorlof og leyfi frá vinnu af óviðráðanlegum ástæðum (force majeure) og hefur þann tilgang að stuðla að samræmingu atvinnu og fjölskyldulífs og að karlar og konur fái sömu tækifæri og njóti jafnræðis. Samningurinn veitir launafólki, bæði körlum og konum, einstaklingsbundinn rétt til foreldraorlofs vegna fæðingar eða ættleiðingar barns til að gera þeim kleift að annast barnið í að minnsta kosti þrjá mánuði upp að nánar tilteknum aldri, sem getur verið allt að átta árum, sem aðildarríki og/eða aðilar vinnumarkaðarins ákveða.
______________________________________________________________________


EFTA-dómstóllinn

Málum er varða túlkun á tilskipun um foreldraorlof hefur enn sem komið er ekki verið vísað til EFTA-dómstólsins. 



Evrópudómstóllinn

C-519/03. 14. apríl 2005. Framkvæmdastjórnin gegn Luxembourg. 

C-333/97. 21. október 1999. Lewen.

Í þessu máli skilgreinir Evrópudómstóllinn „desemberuppbót“ sem laun í skilningi Rómarsáttmálans, jafnvel þó að hún sé greidd án laga- eða samningsskyldu og jafnvel þó hún sé fyrst og fremst greidd sem hvatning til starfsmanna um áframhaldandi störf þeirra eða sem umbun fyrir trúnað við fyrirtækið eða hvorutveggja. Ástæðan fyrir því að atvinnurekandi innir slíka greiðslu af hendi skiptir ekki máli svo framarlega sem greiðslan tengist ráðningarsambandi hans og viðkomandi starfsmanns.

Samkvæmt 119 Rs. er atvinnurekendum bannað að synja konum í foreldraorlofi um greiðslu á desemberuppbót, án þess að taka tillit til vinnu sem þær eiga að baki á því ári sem uppbótin er greidd, eða tímabila sem þær nutu sérstakrar verndar sem mæður (þ.e. þegar þeim var meinað að vinna af heilsufarsástæðum), ef uppbótin er greidd eftirá sem laun fyrir vinnu á því ári. 119. gr. kemur hins vegar ekki í veg fyrir að konum í foreldraorlofi sé synjað um slíka uppbót þegar uppbótin er beinlínis háð því skilyrði að starfsmaður sé við störf þegar uppbótin er greidd.

Þó að 119. gr. komi ekki í veg fyrir að atvinnurekandi noti tímabil sem starfsmaður er í foreldraorlofi og þá til að lækka greiðsluna uppbótarinnar hlutfallslega, þá kemur 119. gr. í veg fyrir að atvinnurekandi taki í sama tilgangi með í reikninginn tímabil sem konur nutu sérstakrar verndar sem mæður (þ.e. þegar þeim var meinað að vinna af heilsufarsástæðum).

Slík uppbótargreiðsla telst hins vegar ekki laun í skilningi b-liðar 2. mgr. 11. gr. tilskipunar 92/58 um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti. Gilda hvorki 2. mgr. 11. gr. tilskipunar 92/85/EBE né 6. mgr. 2. gr. viðauka við tilskipun 96/34/EB um slíkar uppbótargreiðslur.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn