Slys við vinnu sem ekki er að rekja til sakar atvinnurekanda skapa sama greiðslurétt í forföllum frá vinnu og veikindi. Það sama á við um slys á leið til eða frá vinnu. Þetta eru kölluð almenn vinnuslys. Að auki bætast við dagvinnulaun í allt að 3 mánuði.
Þetta þýðir:
- Forföll vegna almennra vinnuslysa eru ekki reiknuð með öðrum forföllum á hverjum 12 mánuðum þegar greiðsluréttur er reiknaður. Það þýðir að þau skerða ekki réttindi launafólks vegna veikinda eða annarra almennra slysa við vinnu eða á beinni leið til eða frá vinnu.
- Forföll vegna veikinda eru ekki reiknuð með þegar greiðsluréttur vegna vinnuslyss er reiknaður út. Það þýðir að notaður veikindaréttur skerðir ekki réttindi launafólks vegna slysa við vinnu eða á beinni leið til eða frá vinnu.
- Hvert og eitt slys skapar að auki sjálfstæðan rétt til dagvinnulauna í 3 mánuði. Þessi réttur bætist við fyrir hvert og eitt slysa við vinnu eða á beinni leið til eða frá vinnu.
Sjálfstæður réttur
Í almennum kjarasamningum aðildarsamtaka ASÍ segir (2016): „Forfallist starfsmaður af völdum slyss við vinnuna eða á beinni leið til eða frá vinnu og eins ef starfsmaður veikist af atvinnusjúkdómi, skal hann auk réttar til launa í veikindum halda dagvinnulaunum sínum í þrjá mánuði. – Ofangreindur réttur er sjálfstæður réttur og gengur ekki á veikindarétt starfsmannsins.“
Breytingar voru gerðar á veikindaréttarkafla kjarasamninga í kjarasamningum 2000. Þá var ágreiningi um endurtekningaregluna eytt en lögfræðingar SA höfðu þá nýlega haldið því fram að vissulega væri einn réttur fyrir hverja tegund veikinda en réttur vegna hver veikindi tæmdist til framtíðar. T.d. ef ég fékk flensu 1997 og kláraði veikindaréttinn þá átti ég ekki veikindarétt vegna flensunnar sem ég fékk 1999. Lausnin í kjarasamningum 2000 var sú að lengja veikindaréttinn og gera hann heildstæðan þ.e. öll veikindi á hverjum 12 mánuðum leggjast saman. Við þessar breytingar á kjarasamningum á árinu 2000 var sérstaklega bókað að þessi breyting hefði engin áhrif á slysarétt launafólks. Þannig skapar hvert slys á leið til vinnu, á leið frá vinnu og við vinnu sjálfstæðan rétt hvert um sig. Sama á við um atvinnusjúkdóma. Eftir 2000 kom upp ágreiningur um hvort veikindaréttur sem nýttur var vegna vinnuslyss ætti að teljast með öðrum nýttum veikindarétti vegna sjúkdóma. 2004 gaf það tilefni til sérstakrar viðbótar við slysatryggingarákvæði kjarasamninga þar sem bætt var inn nýrri málsgrein: „Ofangreindur réttur er sjálfstæður réttur og gengur ekki á veikindarétt starfsmannsins. „
Þessu tvennu þ.e. almennum veikindarétti og veikindarétti í tengslum við slys á ekki að blanda saman þ.e. að við útreikning veikindaréttarhluta slysaréttarins eru þeir dagar sem nýttir hafa verið á síðustu 12 mánuðum ekki dregnir frá. Önnur túlkun er röng. Breytingarnar á kjarasamningum árið 2000 röskuðu ekki slysaréttinum þ.e. fullur veikindaréttur plús þrír mánuðir fyrir hvert slys var áfram í gildi og sérstök breyting gerð 2004 til þess að taka af allan vafa um að ekki eigi að blanda saman veikindarétti vegna sjúkdóma og veikindarétti vegna vinnuslysa.
Flutningur hins slasaða
Atvinnurekandi kostar flutning hins slasaða til heimilis eða sjúkrahúss og greiðir eðlilegan sjúkrakostnað meðan hann nýtur launa, annan en þann sem Tryggingastofnun greiðir.
Skyldutrygging vegna slysa
Atvinnurekendum ber að kaupa atvinnuslysatryggingu fyrir starfsmenn sína samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Tryggingin gildir að jafnaði vegna slysa á vinnustað og á beinni leið til eða frá vinnu.
Hún greiðir þó ekki bætur vegna slysa sem hljótast af notkun skráningarskyldra vélknúinna ökutækja hér á landi og sem eru bótaskyld samkvæmt lögboðinni ökutækjatryggingu, hvort heldur ábyrgðartryggingu eða slysatryggingu ökumanns og eiganda samkvæmt umferðarlögum.
Örorkubætur eru greiddar vegna varanlegrar örorku sem reiknuð er í prósentustigum. Dagpeningar eru greiddir vegna tímabundinnar örorku og dánarbætur vegna andláts launamanns.
Fyrning bótaréttar – gættu réttar þíns
Tilkynningar: Tilkynna þarf vátryggjanda atvinnurekanda eða upplýsa hann um með slysið meðan sannanlegum hætti innan árs frá því slys varð og gæta þess jafnframt að krafan í trygginguna fyrnist á 4 árum talið frá lokum þess almanaksárs þegar sá er kröfuna á fékk nauðsynlegar upplýsingar um þau atvik sem krafa hans er reist á.
Mikilvægt er fyrir starfsmenn að gera reka að því að fá greiddar bætur úr atvinnuslysatryggingu um leið og þeir fá vitneskju um þau atvik sem bótakrafa er reist á. Samkvæmt 1.mgr. 124. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004 glataði sá sem rétt átti til bóta samkvæmt slysatryggingu þeim rétti ef krafa var ekki gerð um bætur til félagsins innan árs frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á. Við 1.mgr. 124.gr. var, vegna sameiginlegrar kröfu ASÍ og SA og í kjölfar bókunar með kjarasamningum 2011, bætt eftirfarandi texta sem gildi tekur 1.7 2015: „… eða því hefur ekki borist tilkynning um vátryggingaratburð með öðrum hætti.“ Þessari viðbót var bætt inn í lögin þar sem nokkur brögð voru að því, að tryggingafélög neituðu ábyrgð þó þau hefðu haft vitneskju um vátryggingaratburð, t.d. vegna tilkynningar þriðja aðila eða vegna innkominnar lögregluskýrslu og báru þá fyrir sig að hinn slasaði hefði ekki gert kröfu um bætur innan árs frestsins. Breytingunni er ætlað að bæta úr þessu en eftir sem áður er mjög mikilvægt að launafólk gæti þess að slys séu tilkynnt viðeigandi vátryggingarfélagi og krafa gerð um bætur svo fljótt sem verða má eftir að slys á sér stað.
Ágreiningur hefur einnig verið við tryggingafélögin um upphaf þess árs frests sem 1.mgr. 124.gr. mælir fyrir um. Meginreglan er sú, að þessi frestur byrjar að líða þegar hinum slasaða verður ljóst, að afleiðingar slyssins séu varanlegar þ.e. fresturinn byrjar ekki að líða á slysdegi eins og sum tryggingafélög hafa viljað bera fyrir sig.
Í Hrd. nr. 7/2009 komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að tjónþoli gæti ekki hafa hlotið vitneskju um atvik sem leiddu af sér rétt hans til bóta fyrr en afleiðingar slyss kæmu fram. Því byrjaði frestur ekki að líða við vinnuslysið heldur þegar afleiðingar slyssins voru tjónþola kunnar. Slysið átti sér stað 27.12 2006 og eftir það átti hin slasaði í afleiðingum þess. Það var hins vegar ekki fyrr en í mars 2008 í heimsókn til sérfræðings sem í ljós kom að afleiðingarnar séu varanlegar. Hæstiréttur miðaði upphaf tilkynningarfrestsins við þau tímamörk og beitir sömu nálgun í Hrd. nr. 34/2014.
Fyrning: Bótaréttur á grundvelli atvinnuslysatryggingar fyrnist skv. ákvæðum 1.mgr. 125.gr. laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004 á 4 árum meðan almenn fyrning krafna vegna líkamstjóna eru 10 ár sbr. 9.gr. fyrningalaga nr. 150/2007. Tekist var á um það í Hrd. 12/2023 hvers eðlis atvinnuslysatrygging væri. Héraðsdómur hafði talið að um væri að ræða svokallaða höfuðstólstryggingu í skilningi fyrrihluta 1.málsliðar 1.mgr. 125.gr. l. 30/2004 (fyrning 10 ár) en ekki aðrar tryggingar í skilningi seinnihluta fyrsta 1. málsliðar 125.gr. Hæstiréttur skar endanlega úr því að ekki væri um höfuðstólstryggingu að ræða og að fyrningartíminn væri 4 ár.