VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Kjarasamningar um hópuppsagnir

Í kjarasamningi ASÍ og VSÍ/VMS árið 1992 var gert samkomulag um hópuppsagnir sem að nokkru leyti gengur lengra en lögin um hópuppsagnir. Tilgangur samkomulagsins er að beina uppsögnum einungis að þeim starfsmönnum sem ætlunin er að láti af störfum, en ekki öllum starfsmönnum eða hópum starfsmanna.

Samkomulagið nær til allra félagsmanna innan ASÍ nema sjómanna. Það tekur til uppsagna að minnsta kosti 10 manna í fyrirtækjum með 16-100 starfsmenn, að minnsta kosti 10% starfsmanna í 100-300 manna fyrirtækjum og að minnsta kosti 30 uppsagna í fyrirtækjum með 300 starfsmenn eða fleiri.

Undanþágur

Það telst ekki til hópuppsagna þegar starfslok verða samkvæmt ráðningarsamningum sem gerðir eru til ákveðins tíma eða vegna sérstakra verkefna. Samkomulagið gildir ekki um uppsagnir einstakra starfsmanna, um uppsagnir til breytinga á ráðningarkjörum án þess að starfslok séu fyrirhuguð né um uppsagnir áhafna skipa.

Samráð

Ákvæði samkomulagsins um samráð aðila svara til ákvæða um sama efni í lögum um hópuppsagnir.

Framkvæmd hópuppsagna

Verði, að mati vinnuveitanda, ekki komist hjá hópuppsögnum þó að stefnt sé að endurráðningu hluta starfsmanna, skal miða við að ákvörðun um það hvaða starfsmönnum bjóðist endurráðning liggi fyrir eins fljótt og mögulegt er. Hafi ákvörðun um endurráðningar ekki verið tekin og starfsmanni tilkynnt að ekki geti orðið af endurráðningu það tímanlega að eftir standi að minnsta kosti 2/3 hlutar uppsagnarfrests, framlengist uppsagnarfrestur starfsmanns um einn mánuð ef uppsagnarfrestur er þrír mánuðir, um þrjár vikur ef uppsagnarfrestur er tveir mánuðir og um tvær vikur ef uppsagnarfresturinn er einn mánuður.

Þetta ákvæði tekur til starfsmanna sem áunnið hafa sér að minnsta kosti eins mánaðar uppsagnarfrest. Þrátt fyrir ákvæði þetta er heimilt, vegna utanaðkomandi atvika sem vinnuveitandi ræður ekki við, að skilorðsbinda tilkynningu um endurráðningu því að vinnuveitandinn geti haldið áfram þeirri starfsemi sem starfsmaðurinn er ráðinn til án þess að það leiði til lengingar uppsagnarfrests. Þessari síðustu setningu er ætlað að ná til þess ef atvinnurekandi á það undir því að samningar náist við aðra, hvort starfsemi geti haldið áfram eða ekki.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn