Í tilvikum þegar starfsmenn eru beðnir um að samþykkja einhver sérstök eða óvanaleg ákvæði er skynsamlegt að leita sér ráðgjafar hjá viðeigandi stéttarfélagi enda samningsaðstaða aðila við gerð ráðningarsamnings ekki jöfn. Dæmi um slíkt ákvæði gæti t.d. verið krafa atvinnurekanda um endurgreiðslu á útlögðum kostnaði vegna námskeiða sem þeir hafa verið eða verða sendir á. Ef atvinnurekandi hefur lagt út verulegar fjárhæðir í þessu skyni þá er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að hann geti gert kröfu um að starfsmaður vinni tiltekinn tíma hjá honum að loknu námskeiði en endurgreiði ella að hluta þennan kostnað. Setja verður slíkum heimildum atvinnurekanda sérstakar takmarkanir m.a. um það hve lengi starfsmenn skuli vera bundnir af slíkum ákvæðum og hvaða reglur skuli gilda um útreikning slíkrar endurgreiðslu.
Önnur dæmi um ólögmæt ákvæði ráðningarsamninga eru t.d. ákvæði um „prufuráðningar“ eða „prufuvaktir“. Allt launafólk sem innir af hendi vinnuframlag fyrir atvinnurekanda á rétt til launa fyrir það framlag í samræmi við kjarasamninga sbr. 1.gr. l. nr. 55/1980 og engar undanþágur vegna prufu- eða reynslutíma eru heimilar. Í því efni skiptir engu máli hvort af endanlegri ráðningu verður eða ekki.
Sjá einnig hér um næsta kafla um hvað beri að varast við gerð ráðningarsamninga.