VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Vinna fellur niður

Vinnutími og vinnuskylda er samningsatriði við ráðningu og því verða breytingar til skerðingar á vinnutíma af hálfu atvinnurekanda ekki gerðar einhliða eða án undangenginnar uppsagnar. Laun skal því almennt greiða þó vinna falli niður af ástæðum sem launafólk ber ekki ábyrgð á. 

Hafi atvinnurekandi ekki störf fyrir fólkið að vinna eða ef hann ákveður að loka vinnustað vegna t.d. veðurs, er hann skuldbundinn samt sem áður til að greiða starfsfólkinu laun fyrir þann tíma sem það er ráðið til starfa. Starfsmenn eru með sama hætti skyldugir til að vinna þann tíma sem þeir eru ráðnir og geta ekki án undangenginnar uppsagnar breytt vinnutíma sínum einhliða. Jafnvel þótt verkefni séu ekki til staðar á vinnustað ber þeim að mæta til vinnu og dvelja á vinnustaðnum.

Í sumum kjarasamningum er að finna ákvæði um lokun vegna veðurs en veður eitt og sér fellur ekki undir „force major“ reglur sem fjallað er um hér á eftir. Sama á við þó gefnar séu út veðurviðvaranir. 

Í almennum kjarasamningi iðnaðarmanna við Samtök atvinnulífsins segir t.d.: „Falli vinna niður vegna óhagstæðs veðurs eða annarra orsaka, sem starfsmaður á ekki sök á, greiðist fullt dagvinnukaup. Sjá þó lög nr. 19/1979. Heimilt er, þegar þannig stendur á, að fela starfsmanni önnur störf.“

Í kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands á almennum vinnumarkaði er svipað ákvæði en þar segir: „Það telst kvaðning til vinnu ef starfsmönnum er ekki tilkynnt í lok starfsdags að ekki sé ætlast til að þeir mæti í vinnu næsta morgun, enda hamli eigi að dómi verkstjóra veður eða aðrar óviðráðanlegar ástæður að unnið sé næsta dag frá morgni. Þó skulu starfsmenn þegar þannig stendur á fá greiddar fjórar vinnustundir.“

Í almennum kjarasamningum við ríki og sveitarfélög segir um sama efni: „Falli niður vinna á verkstað vegna veðurs eða annarra orsaka sem starfsmenn eiga enga sök á, skal skylt að greiða kaup fyrir fastan reglulega vinnutíma. Í slíkum tilvikum er heimilt að fela starfsmönnum önnur viðfangsefni í þágu stofnunarinnar.“

Meginreglan skv. framansögðu er sú að það er á ábyrgð atvinnurekanda ef starfsemi er lokað vegna veðurs og eiga þá starsmenn rétt til launa þann tíma sem lokað er. Þetta er í samræmi við þá ályktun sem draga má af 3.gr. laga nr. 19/1979 sem fjallað er um hér á eftir. 

Spyrja má hvers konar aðstæður í fiskvinnslu gefi atvinnurekanda heimild til að senda fólk launalaust heim án slita á ráðningarsambandi á grundvelli 3.gr. laga nr. 19/1979. Á þessi sjónarmið reyndi í dómi Hrd. 68/1983.

Langvarandi taprekstur hafði verið, fyrirtækið í peningaþrotum, annað af tveimur skipum hafði hætt viðskiptum og lánafyrirgreiðsla hafði verið stöðvuð og af þessum ástæðum ekki hægt að fá hráefni til vinnslu. Þetta mat Hæstiréttur sem svo að atvinnurekanda hefði verið heimilt að taka starfsmann af launaskrá án slita á ráðningarsamningi samkvæmt 3. gr. laga nr. 19/1979 á meðan unnið væri að því að skapa fiskvinnslunni möguleika til þess að afla hráefnis. Í dóminum segir enn fremur að bæði orðalag greinarinnar og orðalag 3. gr. áður gildandi laga ásamt aðdraganda að setningu þeirra styðji þessa niðurstöðu en lagaákvæðum þessum virðist meðal annars ætlað að taka tillit til þess óstöðugleika sem oft er í íslenskum sjávarútvegi og atvinnurekendur sjálfir fá ekki við ráðið. Þau sjónarmið eiga hins vegar ekki um aðrar atvinnugreinar og fordæmisgildi þessa dóms því takmarkað hvað aðrar þær varðar. Ákvæðið á t.d. ekki við um flutning á vinnslu milli landshluta sbr. Féld. 10/2014 eða þegar aflakvóti fer minnkandi en tækifæri eru til kaupa eða annarra ráðstafana sbr. Féld. 14/1996.

Algengt er í samningum að undanskilin sé áhætta vegna ófyrirséðra ytri atvika eða svokallaðar vis major eða force majeure reglur. Þessar reglur ber að túlka þröngt þ.e. þær gilda einungis í undantekningartilvikum. Sjá einnig kaflann „Force majeure og slit ráðningar„. 

Falli vinna niður vegna óviðráðanlegra ytri atvika getur það leitt til þess að skylda til greiðslu launa fellur niður. Í 3. gr. laga um rétt verkafólks il uppsagnarfrests o.fl. nr. 19/1979 er ákvæði um það að falli niður atvinna hjá atvinnurekanda, svo sem vegna þess að hráefni er ekki fyrir hendi hjá fiskiðjuveri, upp- og útskipunarvinna er ekki fyrir hendi hjá skipaafgreiðslu, fyrirtæki verður fyrir ófyrirsjáanlegu áfalli, svo sem vegna bruna eða skiptapa, og verður atvinnurekanda þá eigi gert að greiða bætur til launþega sinna, þó að vinna þeirra nemi eigi 130 klukkustundum á mánuði, enda missa launþegar þá eigi uppsagnarrétt sinn meðan slíkt ástand varir. Samkvæmt 2.mgr. geta þeir hins vegar tekið aðra vinnu með einfaldri tilkynningu til atvinnurekanda og eru því ekki bundnir af uppsagnarfresti.

Samkvæmt þessu lagaákvæði eru ófyrirséð ytri atvik ekki skilyrði fyrir því að niður falli launagreiðslur vegna hráefnisskorts í fiskiðju eða upp- og útskipunarvinnu. Í öllum öðrum starfsgreinum þurfa ófyrirsjáanleg áföll að vera til staðar til að atvinnurekendur losni undan skuldbindingum gagnvart starfsmönnum. Engu skiptir hvort ráðning er tímabundin eða ótímabundin sbr. Hrd. 378/1995.

Ætlun aðila á almennum vinnumarkaði í kjarasamningum 2011 var að kanna réttarstöðu launafólks í þessu efni á hinum norðurlöndunum og var það markmið ASÍ að semja skyldi í framhaldinu um bætta réttarstöðu. Í bókuninni segir: „Á fyrsta ári frá gildistöku aðalkjarasamninga aðildarsamtaka ASÍ og SA skal sérstakur vinnuhópur, skipaður fulltrúum ASÍ og SA, taka saman upplýsingar og gögn frá Norðurlöndunum um fyrirkomulag launagreiðslna og/eða bóta til starfsmanna í kjölfar force majeure atvika.“ Eftirfarandi var þá tekið saman en rétturinn þar er rýmri en hér á landi.

Finnland: Réttur til launa helst í allt að 14 daga. ”Om arbetstagaren är förhindrad att utföra sitt arbete på grund av en eldsvåda eller en exceptionell naturtilldragelse som har drabbat arbetsplatsen eller av en annan av arbetstagaren och arbetsgivaren oberoende liknande orsak, har arbetstagaren rätt att få lön för den tid hindret varar, dock för högst 14 dagar.”

Noregur: Samkvæmt lögum styttast allir uppsagnarfrestir í 14 daga við force major aðstæður sem varða atvinnurekstur. Samkvæmt kjarasamningi LO-NHO getur atvinnurekandi stytt hann úr 14 dögum í tvo. Laun haldast á uppsagnarfresti en það á þó ekki við um eldsvoða þ.e. ef vinnustaðurinn brennur því þá fær atvinnurekandi bætur sem halda honum skaðlausum vegna launa. 

Svíþjóð: Skv. 21.gr. l. 80/1982 skiptir ekki máli hvers vegna ráðningarsambandi er slitið þ.e. hvort það er vegna uppsagnar eða vegna force major aðstæðna atvinnurekanda. Launamaður heldur því launum á þeim uppsagnarfresti sem við hann á. „En arbetstagare som permitteras har rätt till samma lön och andra anställningsförmåner som om arbetstagaren hade fått behålla sina arbetsuppgifter. 

Danmörk:  Á samningssviði  „skrifstofumanna“ (funktionær) þá getur atvinnurekandi ekki borið fyrir sig force major til styttingar á uppsagnarfresti enda sé starfsmaður reiðubúinn til starfa meðan það er mögulegt fyrir annað launafólk. Um þetta eru ákvæði í kjarasamningum. Hins vegar fellur niður skylda til greiðslu launa á uppsagnarfresti þegar við eiga force major aðstæður. (”pludseligt, var uforudseelig og ikke kunne afvendes eller dens følger afbødes.”)

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn