VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Atvinnuleysi

Samkvæmt lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar verður umsækjandi um atvinnuleysisbætur eðli máls samkvæmt að vera atvinnulaus.

Sem bótaskilyrði snýr hugtakið atvinnuleysi fyrst og fremst að því hvort ráðningarsambandi launamanns og atvinnurekenda hafi verið slitið í samræmi við ákvæði laga og kjarasamninga. Í umfjöllun um það atriði koma einkum til skoðunar ákvæði kjarasamninga um uppsögn ráðningarsamnings og uppsagnarfresti. Önnur atriði geta einnig komið til skoðunar s.s. hvort umsamin leyfi frá störfum verði talin jafngilda slitum á ráðningarsambandi,  hver réttarstaða starfsmanna er þegar atvinnurekstur hefur stöðvast vegna fjárhagserfiðleika/gjaldþrots o.s.frv.

Lögin hafa einnig að geyma ýmsar reglur þar sem fjallað er um áhrif annarra tekna hins tryggða á rétt hans til atvinnuleysisbóta, s.s. fjármagnstekna, tekna af hlutastarfi eða tilfallandi aukastörfum, orlof við starfslok, bætur almannatrygginga o.s.frv.

Uppsagnarfrestur

Atvinnuleysistryggingasjóður er ekki bundinn af samkomulagi atvinnurekanda og launamanns um brottfall á skyldum hvors annars samkvæmt ráðningarsamningi hvað varðar launarétt og vinnuskyldu á uppsagnarfresti í þeim tilgangi að koma hlutaðeigandi starfsmanni nánast fyrirvaralaust á atvinnuleysisbætur.

Ef starfshlutfall starfsmanns samkvæmt ráðningarsamningi er lækkað úr 100% í 75% með tilheyrandi skerðingu í launum og starfsmaður og atvinnurekandi hans verða ásáttir um að þessi breyting komi til framkvæmda strax um næstu mánaðarmót í stað þess að miða við 3 mánaða uppsagnarfrest starfsmannsins skv. kjarasamningi er Atvinnuleysistryggingasjóður ekki bundinn af þessu samkomulagi með þeim réttaráhrifum að hlutaðeigandi starfsmaður geti sótt um hlutabætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar strax um næstu mánaðarmót. Ákvæði laga um rétt til hlutabóta eiga ekki við þegar launamaður ákveður sjálfur að draga úr starfshlutfalli sínu.

Orlof við starfslok

Samkvæmt 4. mgr. 51. gr. ATVL. telst hver sá sem hefur fengið greitt út ótekið orlof við starfslok eða fær greiðslur vegna starfsloka ekki tryggður í skilningi laganna á því tímabili sem þær greiðslur eiga við um. Við umsókn um atvinnuleysisbætur ber umsækjanda að taka fram hvenær hann ætlar að taka út orlof sitt fyrir lok næsta orlofstímabils.

Aukastörf

Ef hinn tryggði er í aukastarfi sem launamaður á kvöldin og/eða um helgar samhliða aðalstarfi á dagvinnutímabili telst hann atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar ef hann missir aðalstarfið ef hann miðar atvinnuleit sína við það að finna starf á dagvinnutímabili. Aukavinna hans á kvöldin og/eða um helgar hefur ekki áhrif á það. Samkvæmt 36. gr. ATVL. koma tekjur fyrir slík aukastörf hins vegar til frádráttar atvinnuleysisbótum hans, með fyrirvara þó um frítekjumark samkvæmt ákvæði laganna.

Aftur á móti ef hinn tryggði er í aukastarfi sem launamaður á kvöldin og/eða um helgar samhliða aðalstarfi á dagvinnutímabili og er sagt upp aukastarfinu yrði litið svo á að hann væri ekki atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Nám

Í lögum um atvinnuleysistryggingar er miðað við að samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði, útiloki hinn tryggða frá rétti til atvinnuleysisbóta. Sama gildir um nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.

Þó er í ATVL Vinnumálastofnun veitt heimild til að meta sérstaklega hvort umsækjandi um atvinnuleysisbætur geti talist tryggður samkvæmt lögunum þegar hann hefur stundað nám með starfi sem hann missti og námið er ekki lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Þá er Vinnumálastofnun ennfremur veitt heimild til þess að meta sérstaklega hvort sá sem stundar nám í framhaldsskóla eða háskóla uppfylli skilyrði laganna þrátt fyrir námið enda um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Fæðingar- og foreldraorlof

Hver sá sem nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof telst ekki tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Þá telst sá sem er í foreldraorlofi enn í ráðningarsambandi og er þar af leiðandi ekki atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Launalaust leyfi

Starfsmaður á ekki rétt á atvinnuleysisbótum ef hann er í launalausu leyfi þar sem það verður ekki lagt að jöfnu við slit ráðningarsambands og telst hlutaðeigandi einstaklingur því ekki atvinnulaus í skilningi ATVL.

Gjaldþrot – rekstrarerfiðleikar

Atvinnurekandi telst gjaldþrota í skilningi laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þegar héraðsdómari hefur kveðið upp úrskurð um að bú hans skuli tekið til gjaldþrotaskipta.

Starfsmenn eiga rétt á atvinnuleysisbótum strax og úrskurður hefur verið kveðinn upp um gjaldþrotaskipti á búi atvinnurekanda. Vinnumálastofnun er heimilt að greiða starfsmanni gjaldþrota félags atvinnuleysisbætur skv. 32. gr. (tekjutengdar atvinnuleysisbætur) og 33. gr. (grunnatvinnuleysisbætur) þann tíma sem hann er án atvinnu á uppsagnarfresti meðan hann bíður eftir endanlegu uppgjöri á launakröfum sínum samkvæmt lögum nr. 88/2003 um Ábyrgðasjóð launa. Skilyrði er að hann uppfylli á því tímabili almenn skilyrði laganna. Hann verður auk þess að að framselja til Atvinnuleysistryggingasjóðs þeim hluta launakröfu sinnar á hendur Ábyrgðasjóði launa sem nemur upphæð þeirra atvinnuleysisbóta sem hann fær greiddar á þessum tíma.

Verkfall eða verkbann

Meginreglan samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar er sú að atvinnumissir vegna verkfallsaðgerða skapar launafólki sem í hlut á ekki rétt til atvinnuleysisbóta. Réttarstöðunni hvað þetta varðar er skipt í þrjá meginflokka.

  • Launamaður leggur niður störf í verkfalli
    Meðan á verkfalli stendur eru aðilar ekki bundnir af ákvæðum ráðningarsamnings. Launagreiðslur falla niður og skyldur starfsmanns til að vinna sömuleiðis. Í ATVL er kveðið skýrt á um að þessi hópur á ekki rétt á atvinnuleysisbótum þann tíma sem verkfall stendur yfir. Þar segir: “Launamaður sem leggur niður störf í verkfalli eða vegna verkbanns vinnuveitanda telst ekki tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar þann tíma sem vinnustöðvunin stendur yfir“.
  • Hinn tryggði er atvinnulaus þegar verkfall skellur á
    Staða hins tryggða gagnvart atvinnuleysistryggingum er önnur ef hann er ekki í ráðningarsambandi þegar verkfall skellur á. Hann er á atvinnuleysisbótum, eða eftir atvikum ekki á vinnumarkaði þegar verkfallið skellur á. Um þetta segir í lögunum: “Launamaður sem hefur misst starf sitt áður en til verkfalls eða verkbanns kom en tekur það fram í umsókn að hann sé að leita að starfi í þeirri starfsgrein sem verkfallið eða verkbannið tekur til telst ekki tryggður þann tíma sem vinnustöðvunin stendur yfir á fyrstu fjórum vikunum frá því að Vinnumálastofnun tók við umsókn hans“. 

    Samkvæmt ATVL getur umsækjandi um atvinnuleysisbætur einungis valið sér störf í tiltekinn tíma frá því að hann sótti um atvinnuleysisbætur (4 vikur frá því hann sækir um atvinnuleysisbætur) en þegar sá tími er liðinn verður hann að vera reiðubúinn að taka hverju því starfi er býðst að viðlögðum bótamissi. Eftir þann tíma er litið svo á að umsækjandi sé að leita að fleiri störfum og þar með í virkri atvinnuleit enda þótt hann kjósi helst að fá starf í ákveðinni starfsgrein. Hefur verkfall eða verkbann því ekki áhrif á rétt hans til atvinnuleysisbóta á þeim tíma. Ekki er gert ráð fyrir að sú ákvörðun hins tryggða að greiða áfram til stéttarfélags síns þann tíma sem hann er án atvinnu til að halda tengslum við vinnumarkaðinn hafi áhrif á rétt hans samkvæmt ATVL, enda þótt að stéttarfélagið eigi aðild að verkfalli.
  • Verkfall tekur einungis til starfa í viðkomandi starfsgrein á afmörkuðu svæði
    Ef verkfall eða verkbann tekur einungis til starfa í viðkomandi starfsgrein á afmörkuðu svæði þá á 4 vikna reglan ekki við. Hinn tryggði getur því talist í virkri atvinnuleit þegar verkfall eða verkbann tekur eingöngu til starfa í viðkomandi starfsgrein á afmörkuðu svæði enda miðað við að hinn tryggði sé reiðubúinn að ráða sig til starfa hvar sem er á landinu.

Frelsissvipting

Í ATVL segir að hver sá sem hefur verið sviptur frelsi sínu með dómi teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum á þeim tíma er hann tekur út refsingu sína í fangelsi. Hið sama á við um þann sem hefur verið sviptur frelsi sínu með úrskurði dómara eða tekur út refsingu sína í samfélagsþjónustu.

Fjármagnstekjur

Fjármagnstekjur hins tryggða koma til frádráttar atvinnuleysisbótum hans. Til fjármagnstekna teljast vextir af innistæðum bankareikninga, leigutekjur, arður af hlutabréfum og söluhagnaður og aðrar eignatekjur. Fjármagnstekjur sem eru umfram frítekjumark samkvæmt ATVL koma til frádráttar atvinnuleysisbótum. Atvinnuleysisbætur eru skertar um helming þeirra fjármagnstekna sem umfram eru. 

Tilfallandi greiðslur

Ef starfsmaður á við starfslok óuppgerðar kröfu á hendur atvinnurekanda vegna vangoldinna launa á ekki að draga slíkar síðbúnar greiðslur frá atvinnuleysisbótum. Um er að ræða tekjur sem hlutaðeigandi einstaklingar vann fyrir meðan hann var í ráðningarsambandi og hefðu að réttu átt að koma til útborgunar áður en hann varð atvinnulaus. Slík greiðsla verður því ekki skilgreind sem nýjar tilfallandi tekjur í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Slysa- eða sjúkradagpeningar almannatrygginga

Þeir sem fá greidda slysa- eða sjúkradagpeninga samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum á sama tíma.

Öðru máli gegnir um elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur úr almannatryggingum. Slíkar greiðslur koma til frádráttar atvinnuleysisbótum hins tryggða samkvæmt  reglum þar um en koma ekki í veg fyrir rétt hins tryggða til atvinnuleysisbóta.

Greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra

Þeir sem fá greiðslur samkvæmt lögum nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum á sama tímabili.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn