VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Túlkun kjarasamninga

Efni kjarasamninga er mjög víðtækt. Þeim er ekki aðeins ætlað að gilda sem grundvöllur ráðningarsambands þeirra einstaklinga sem eftir þeim vinna, heldur fjalla þeir einnig um samskiptareglur aðila vinnumarkaðarins. Þeir leggja kvaðir á ótiltekinn fjölda aðila, sem koma ekki að samningagerðinni sjálfri, og hagsmunir þessara aðila eru oft gerólíkir. Þetta veldur því að mikið reynir á túlkun samninganna, og að oft er deilt um hina réttu þýðingu kjarasamnings.

Við þetta bætist sú staðreynd að kjarasamningar eru oft gerðir í lok langra og erfiðra samningaviðræðna, sem gjarnan hafa staðið samfleytt í nokkur dægur, aðstæður sem í sjálfu sér eru ekki til þess fallnar að auka gæði samningstextans. Einnig er vert að vekja athygli á því að samningsaðilar í slíkum samningaviðræðum leggja oft meira upp úr því að ná samkomulagi, en að textinn sé öllum aðgengilegur. Jafnvel geta menn talið það kost að vera ekki of skýrir í framsetningu, því þá er möguleikinn til staðar að fara með ágreininginn fyrir dóm síðar.

Við túlkun á kjarasamningum verður að hafa í huga að kjarasamningar eru samningar sem ætlað er að gilda í lengri tíma. Sú túlkun sem síðan verður á samningunum skapar venju, sem erfitt getur verið að breyta síðar. Sé kjarasamningsákvæði óljóst er því rétt að túlka það þröngt.

Þegar kemur að túlkun kjarasamnings eru aðstæður oft þannig að það fellur í hlut atvinnurekanda að túlka hann. Atvinnurekandinn greiðir út kaup, og þarf þess vegna að túlka samninginn til að greiða það út með réttum hætti. Ágreiningur milli aðila kemur oftast upp þegar launamaður er ósáttur við skilning atvinnurekanda á einstökum ákvæðum kjarasamnings. Sem dæmi má taka úttalningu veikindadaga. Verði starfsmaður aldrei veikur, reynir ekki á þetta atriði. Veikist starfsmaður og atvinnurekandi greiðir honum kaup allan tímann án þess að kanna rétt starfsmannsins verður væntanlega heldur ekki ágreiningur um túlkun. Vilji atvinnurekandi hins vegar fara eftir ákvæðum kjarasamnings og telja út þá daga, sem hann telur starfsmann eiga inni kann að skapast ágreiningur. Segja má að hér séu aðilar ekki jafnsettir. Atvinnurekandinn greiðir launin, og starfsmaðurinn verður að sækja rétt sinn til hans.

Þessi atriði gera það að verkum að ágreiningur um túlkun á kjarasamningum er mjög tíður.

Með hugtakinu túlkun hefur verið átt við það að gera grein fyrir því, hvaða skilning beri að leggja í samning og hvaða réttaráhrif samningurinn skuli hafa.

Í fræðiritum samningaréttarins er gjarnan greint milli tveggja þátta við túlkun á kjarasamningum, annars vegar túlkun í þrengri merkingu, sem beinist að skilningi á tilteknum löggerningi, og hins vegar fyllingu, sem tekur til ákvörðunar þess hvaða réttaráhrif löggerningur eigi að hafa á grundvelli réttarreglna eða réttarheimilda.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn