VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Tímabundin ráðning

Tilskipun ráðsins nr. 1999/70/EB  frá 28. júní 1999 um tímabundna ráðningarsamninga sem er staðfesting Evrópusambandsins á rammasamningi milli Samtaka evrópskra iðn- og atvinnurekenda (UNICE), Evrópusamtaka fyrirtækja með opinberri eignaraðild (CEEP) og Evrópusambands verkalýðsfélaga (ETUC).

Tilskipunin á ensku.

Gildandi lög. Lög nr. 19/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna.

Markmið og gildissvið. Markmið þessarar tilskipunar er að koma í framkvæmd rammasamningnum um tímabundna ráðningarsamninga sem var gerður 18. mars 1999 milli almennu þverfaglegu samtakanna (UNICE, CEEP og ETUC).

Í samningnum eru settar fram almennar meginreglur og lágmarkskröfur er varða tímabundnar ráðningar og jafnframt er viðurkennt að við nákvæma útfærslu þeirra verður að taka mið af séraðstæðum í hverju ríki, hverri atvinnugrein og af árstíðabundnum aðstæðum.

Markmiðið er að bæta gæði tímabundinna ráðninga með því að tryggja beitingu meginreglunnar um bann við mismunun og að setja rammaákvæði til að koma í veg fyrir misnotkun sem byggist á endurnýjun tímabundinna ráðningarsamninga eða ráðningarsambanda jafnharðan og þeim lýkur. Að því er varðar starfskjör skulu launamenn, sem eru ráðnir tímabundið, ekki sæta lakari meðferð en sambærilegur launamaður, sem er ráðinn ótímabundið, af þeirri ástæðu einni að þeir hafi gert tímabundinn ráðningarsamning eða stofnað til tímabundins ráðningarsambands nema slíkt sé réttlætanlegt á grundvelli hlutlægra ástæðna.

_________________________________________________________________________


EFTA-dómstóllinn

Mál er varða túlkun þessarar tilskipunar hafa ekki komið til kasta EFTA-dómstólsins.


Evrópudómstóllinn


C-307/05. 13 September 2007. Yolanda Del Cerro Alonso. 


___________________________________

C-180/04. 7. september 2006. Vassallo.


___________________________________

C-53/04. 7. september 2006. Marrosu.___________________________________

C-212/04. 4. júlí 2006. Adeneler.

Evrópudómstóllinn kveður á um í þessu máli að reglur í grískri vinnulöggjöf sem veita atvinnurekanda heimild til að endurnýja tímabundnar ráðningar starfsmanna standist ekki þær kröfur sem gerðar eru um það efni samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins nr. 1999/70/EB frá 28. júní 1999 um tímabundna ráðningarsamninga og þeim rammasamningi heildarsamtaka aðila vinnumarkaðsins á Evrópuvísu sem tilskipunin vísar til.

Að mati Evrópudómstólsins samræmast hinar grísku reglur ekki því markmiði tilskipunarinnar að koma í veg fyrir misbeitingu atvinnurekanda á þessu ráðningarformi. Niðurstaða Evrópudómstólsins var byggð á því að umrædd lög settu atvinnurekendum ekki nægilega skýr takmörk varðandi heimild þeirra til að ráða starfsmenn endurtekið til tímabundinna starfa í stað þess að gera við  þá ótímabundna ráðningarsamninga.

Mál þetta hófst í Grikklandi með málshöfðun 18 starfsmanna þarlends fyrirtækis gegn atvinnurekanda sínum til viðurkenningar á því að skilgreina bæri ráðningarsamband þeirra sem ótímabundið. Hlutaðeigandi starfsmenn voru upphaflega ráðnir til tímabundinna starfa. Í stað þess að gera við þá ótímabundna ráðningasamninga þegar þeirri ráðningu lauk voru þeir ráðnir til sömu starfa á ný á grundvelli nýrra tímabundinna ráðningarsamninga. Mun þessi háttur hafa verið hafður á um nokkurra ára skeið. Hver samningar var gerður til átta mánaða í senn, en frá lokum hvers samnings þar til nýr tímabundinn samningur  komst á liðu allt frá 22 dögum til 10 mánaða og 26 daga, eftir því hvaða starfsmaður átti í hlut.

Eftir að tilskipun Evrópusambandsins nr. 1999/70/EB um tímabundna ráðningarsamninga tók gildi í Grikklandi árið 2003, litu umræddir starfsmenn svo á að þetta fyrirkomulag endurtekinna tímabundinna ráðninga stæðist ekki og að skilgreina bæri ráðningarsamband þeirra sem ótímabundið. Bentu þeir á að störf þeirra hjá umræddum atvinnurekanda hefðu sannarlega verið til að mæta þörf hans fyrir fast og viðvarandi vinnuafl. Endurteknar tímabundnar ráðningar til sömu starfa fyrir atvinnurekandann stafaði ekki af sérstökum hlutlægum aðstæðum í rekstri fyrirtækisins heldur yrðu þær fyrst og fremst raktar til misbeitingar hans á þessu ráðningarformi.

Evrópudómstóllinn var beðinn um álit á því hvort ákvæði í hinni grísku löggjöf sem þessar tímabundnu ráðningar munu hafa verið reistar á stæðust samkvæmt tilskipuninni og þeim rammasamningi sem hún vísar til. Niðurstaða Evrópudómstólsins var sú að það gerði hún ekki. Voru það einkum tvö atriði sem dómstóllinn gerði athugasemdir við.

Í fyrsta lagi stóðst það ekki samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar að atvinnurekanda væri heimilt lögum samkvæmt að ráða starfsmenn endurtekið til sömu starfa á grundvelli tímabundinna ráðningarsamninga án þess að það kæmi fram í lögum hvaða skilyrði yrðu að vera uppfyllt fyrir slíkum ráðningum. Ekki væri nóg að vísa einungis til þess að hlutlægar ástæður þyrftu að vera hendi, það yrði að tilgreina hverjar þessar hlutlægu ástæður væru. Lögin skilgreindu ekki hverjar þessar hlutlægu ástæður gætu verið, einungis að heimild atvinnurekanda til endurnýjunar tímabundinna ráðningarsamninga væri heimil “lögum samkvæmt.”

Evrópudómstóllinn kveður mjög skýrt á um að tilskipunin og rammasamningurinn sem hún vísar til byggi á því að hið ótímabundna ráðningarsamband skuli vera meginreglan í réttarsambandi launafólks og atvinnurekanda. Beri aðildarríkjum við innleiðingu tilskipunarinnar í landsrétt sinn skylda til að standa vörð um þessa meginreglu. Í ljósi tilgangs tilskipunarinnar og rammasamningsins verði að skilgreina hugtakið hlutlægar ástæður sem kröfu um það að í landsrétti aðildarríkja sé vísað til ákveðinna atriða eða þátta sem séu sérstök fyrir hlutaðeigandi starf eða framkvæmd þess og sem geti af þeim sökum réttlætt ráðningu starfsmanns á ný til tímabundinna starfa. 

Í öðru lagi gerði Evrópudómstóllinn athugasemd við skilgreiningu grískra laga á því hvenær nýr tímabundinn ráðningarsamningur telst taka við af öðrum. Samkvæmt lögunum var um slíkt að ræða ef þeir væru gerðir milli sömu aðila með sama eða sambærilegu efni og tíminn sem liði á milli þeirra væri ekki lengri en 20 vinnudagar. Samkvæmt tilskipuninni er hverju aðildarríki eftirlátið að skilgreina hvenær einn tímabundinn ráðningarsamningur telst taka við öðrum. Evrópudómstóllinn bendir hins vegar á að svigrúmi aðildarríkja hvað þetta varðar séu settar ákveðnar skorður þar sem ekki megi stefna í hættu því markmiði tilskipunarinnar að stemma stigu við misnotkun atvinnurekanda á þessu ráðningarformi. Að mati Evrópudómstólsins voru framangreind lagaákvæði ekki talin uppfylla þetta markmið tilskipunarinnar. Líta bæri svo að þessi 20 daga tímarammi væri til þess falinn að draga úr markmiði og raunverulegu gildi tilskipunarinnar. Ósveigjanleg og takmarkandi skilgreining gæti í raun leitt til þess að stór hópur launafólks með tímabundna ráðningu yrði af þeirri réttarbót sem rammasamningurinn hefði að geyma. Um leið geti þessi skilgreining beinlínis lagt grunn að misnotkun þessa ráðningarforms af hálfu atvinnurekanda. 


___________________________________

C-144/04. 22. nóvember 2005. Mangold. 

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn