VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Félögin skulu opin öllum

Í 2. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur segir um stéttarfélög að þau skuli opin öllum í hlutaðeigandi starfsgrein á félagssvæðinu eftir nánar ákveðnum reglum í samþykktum félaganna.

Félag telst vera stéttarfélag þótt innan vébanda þess séu einstaklingar sem ekki eiga lögvarinn rétt til inngöngu í það.

Í Félagsdómi 3/1945 (II:153) var deilt um það hvort verslunarmannafélag ætti rétt á að koma fram fyrir hönd félagsmanna sinna í kjarasamningum. Kaupsýslumenn á félagssvæði þess töldu að svo væri ekki þar sem 28 af 66 félagsmönnum uppfylltu ekki það inntökuskilyrði í samþykktum félagsins að þeir störfuðu í verslun eða skrifstofu. Félagsdómur féllst ekki á þessa málsástæðu og sagði í dóminum að ekki væri hægt að fallast á þá skoðun að það svipti félagið þeim eiginleikum að vera stéttarfélag samkvæmt lögum nr. 80/1938 þótt til félaga þar teldist eitthvað af fólki sem ekki mundi eiga lögvarinn rétt til inngöngu í félagið.

Þetta ákvæði felur einnig í sér, að stéttarfélögum er óheimilt að takmarka aðild við tiltekna búsetu eða lögheimili félagsmanna og skulu félögin opin öllum sem vinna þau störf á félagssvæðinu sem stéttarfélagið semur um.

Reglan um að stéttarfélag sé öllum opið er ein grundvallarreglan um starfsemi verkalýðsfélaga, og byggir ekki aðeins á lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur heldur einnig á alþjóðasamþykktum, svo sem samþykktumAlþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 87 og 98. Nokkrir dómar Félagsdóms hafa staðfest þessa reglu svo sem Félagsdómur 5/1981 (VIII:243).  Sjá einnig sambærileg mál Félagsdóms: 6/1981 (VIII:250), 7/1981 (VIII:257) og 8/1981(VIII:264).

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn