Krafan um jöfnuð félagsmanna
Almennt gildir svokölluð jafnræðisregla um félaga að stéttarfélagi. Með jafnræðisreglu er átt við að félagsmenn skuli allir vera jafnir og þeim ekki mismunað. Í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er jafnræðisreglan skilgreind þannig í 11. gr.: „Óheimilt er að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum.“ Þótt stjórnsýslulög taki einungis til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga gilda í þessu samhengi að mestu leyti sömu sjónarmið um stéttarfélög. Ákvarðanir verða ógildanlegar ef þær eru ekki teknar á grundvelli þeirra markmiða sem byggt er á eða ef forsendur þeirra eru ekki í samræmi við markmiðin.
Félagsmenn eiga sama rétt til alls þess sem félagið býður og þeir skulu allir sitja við sama borð. Reglur sem mismuna félagsmönnum verða að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum, en ekki geðþóttaákvörðunum. Þannig er heimilt að deildskipta félagi eftir störfum manna eða landsvæðum og setja hverri deild ákveðnar reglur og stjórn. Allar ákvarðanir sem teknar eru í nafni félagsins sjálfs verða að taka mið af þessu. Reglur um úthlutun orlofshúsa verða til dæmis að vera réttlátar og sanngjarnar og byggjast á almennum reglum. Væru ættingjar formannsins alltaf látnir ganga fyrir fengist slíkt ekki staðist.
Þótt jafnræðisreglan sé hvergi tekin fram í samþykktum stéttarfélaga er hún samofin hugsjón verkalýðshreyfingarinnar. Hún er grundvallarregla þar sem valdi er beitt á lýðræðislegan hátt.
Réttindi hins almenna félagsmanns
Í samþykktum eða lögum flestra stéttarfélaga er sérstök grein um réttindi félagsmanna og önnur um skyldur. Þessi upptalning er sjaldnast tæmandi, en gefur nokkra mynd af því hvernig stéttarfélög telja sig vinna og skilgreina hlutverk sitt.
Í upptalningu á réttindum í samþykktum félaga er oftast aðeins fjallað um réttindi félagsmanna inn á við, en minna fjallað um réttinn út á við. Það er oft hlutverk kjarasamnings að fjalla um réttinn út á við, svo sem forgangsrétt til vinnu, enda er hann hluti af samningi við atvinnurekanda og félagsaðildin ein og sér getur ekki tryggt hann.
Réttur til að vinna eftir þeim kjörum sem félagið semur um
Í samþykktum félaganna er það talið sérstaklega upp að félagsaðild fylgi réttur til að vinna eftir þeim kjörum sem félagið semur um. Þetta ákvæði hafði meiri þýðingu fyrir gildistöku laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Nú tryggir 1. gr. þeirra laga öllum þeim sem vinna þau störf sem kjarasamningurinn tekur til rétt til þeirra kjara sem um er samið.
Málfrelsi, tillögu- og atkvæðisréttur
Þessi réttindi fylgja almennt aðild að hvaða félagi sem er, hvort sem um er að ræða félög sem stofnuð er í fjárhagslegum tilgangi eða frjálsum félögum svo sem stéttarfélögum, líknarfélögum eða áhugamannafélögum. Stundum er tekið fram að réttur þessi nái einungis til félagsfunda og eðli máls samkvæmt nær málfrelsisrétturinn og tillögurétturinn fyrst og fremst til félagsfunda. Á fundum gilda síðan almennar reglur um fundarsköp, sem ekki eru lögfestar. Þær byggja oftast á hefðum og venjum í félögunum sjálfum og eru stundum skráðar. Þessara réttinda njóta einungis fullgildir félagsmenn.
Í samþykktum margra stéttarfélaga eru ákvæði um það að ákveðinn fjöldi félagsmanna, oftast um tíundi hluti félagsmanna, geti krafist þess við stjórn félagsins að félagsfundir verði haldnir í félaginu. Er þetta dæmi um minnihlutavernd í félögum og með þessum hætti reynt að tryggja að ólík sjónarmið fáist rædd á félagslegum grunni.
Atkvæðisrétturinn nær til þeirrar atkvæðagreiðslu sem fram fer í nafni félagsins, hvort sem hún fer fram á félagsfundi eða með öðrum hætti, svo sem allsherjaratkvæðagreiðslu. Í deildskiptum félögum getur verið um að ræða atkvæðagreiðslur sem einungis ná til félagsmanna viðkomandi deildar.
Kjörgengi
Fullgildir félagsmenn í stéttarfélagi eru allir kjörgengir til trúnaðarstarfa fyrir félagið. Ákvæði um takmörkun á seturétti í tilteknum embættum fyrir félagið tíðkast almennt ekki í verkalýðsfélögum, svo sem algengt er hjá öðrum frjálsum félögum.
Réttur á styrkjum úr sjóðum félagsins
Félagsmenn eiga rétt til styrkja úr sjóðum félagsins svo sem nánar er kveðið á um í reglum sjóðanna. Sjóðir stéttarfélaga eru fyrst og fremst félagssjóður, sjúkrasjóður, orlofssjóður og starfsmennta eða fræðslusjóður. Mörg félög hafa einnig vinnudeilusjóð. Varðandi úthlutanir úr sjóðum ber að hafa hliðsjón af áðurnefndri jafnræðisreglu, en að öðru leyti fer um úthlutanir eftir reglum viðkomandi sjóða. Sá nánar um þetta efni í kaflanum „Sjóðir stéttarfélaga“ hér á eftir.
Réttur til að njóta aðstoðar félagsins til að fylgja eftir ráðningarkjörum
Aðild að stéttarfélagi veitir félagsmanni rétt til að leita aðstoðar félagsins þegar samningar og lög á vinnumarkaði eru á honum brotin. Aðildin veitir félagsmanninum þannig vernd. Þessi aðstoð er oftast fyrst og fremst félagsleg, en sé alvarlega brotið á starfsmanni, til dæmis að laun eru ekki greidd eða starfsmanni vikið úr starfi með ólögmætum hætti aðstoða félögin við leiðréttingu og mörg þeirra sjá um og kosta lögfræðiaðstoð ef á þarf að halda.
Réttur til málskots vegna brota félagsmanns
Sé félagsmaður ósáttur við afgreiðslu og niðurstöðu stéttarfélags í máli hans má spyrja til hvaða ráða maðurinn getur gripið. Í samþykktum margra stéttarfélaga eru ákvæði um viðbrögð félagsins við brotum fullgildra félagsmanna á lögum félagsins. Stjórnarfundur tekur slík mál fyrir og ákveður hvort veita skuli áminningu, beita fésektum eða víkja félagsmanni brott úr félagi. Þeim úrskurði má skjóta til félagsfundar.
Sé félagið aðili að heildarsamtökum launafólks eru víða ákvæði um málskot til þeirra samtaka. Þannig geta félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ skotið málum til Alþýðusambandsins. Byggist þetta bæði á lögum viðkomandi félags og á 10. gr. gildandi laga ASÍ (2006). Samkvæmt 10. gr. laganna hafa aðildarsamtök rétt til að skjóta öllum ágreiningsmálum, sem upp kunna að rísa innan eða milli þeirra til miðstjórnar ASÍ. Um ágreining milli aðildarsamtaka sem ekki leysist á grundvelli samstarfssamnings eða á annan hátt ber miðstjórn að leita sátta með deiluaðilum. Náist ekki sátt í slíkri deilu getur miðstjórn að fengnu samþykki deiluaðila vísað málinu til sérstaks gerðardóms sem skipaður skal einum aðila sem miðstjórn skipar í hverju máli, en deiluaðilar skipa síðan hvor sinn aðila. Gerðardómurinn starfi samkvæmt lögum um samningsbundna gerðardóma eins og þau eru á hverjum tíma og eru niðurstöður hans bindandi. Miðstjórn getur ákveðið að ágreiningsmál innan aðildarfélags (sambands) sem til hennar hefur verið vísað skuli ganga til úrskurðarnefndar, sem skipuð skal fimm mönnum, þar af þremur sem miðstjórn skipar í hverju máli, en deiluaðilar skipa síðan hvor sinn aðila. Niðurstaða úrskurðarnefndar er bindandi og verður einungis breytt af ársfundi sambandsins. Fram til þess tíma er ársfundur er haldinn kemur saman eru úrskurðir miðstjórnar og úrskurðarnefndar bindandi.
Málskotsheimild 10. gr. laga ASÍ á fyrst og fremst við um félagsleg ágreiningsmál sem snúa að skipulagsmálum, fremur en ágreining sem verður vegna meints brots einstaks félagsmanns. En málskotsheimildin takmarkast þó ekki við þau og hún er til staðar, þótt hún sé sjaldan notuð.