Í félagsdómi eiga sæti fimm menn sem skipaðir eru til þriggja ára þannig: Einn af Samtökum atvinnulífsins (SA), annar af Alþýðusambandi Íslands (ASÍ), þriðji af félagsmálaráðherra úr hópi þriggja manna, sem Hæstiréttur tilnefnir, og tveir af Hæstarétti og sé annar þeirra sérstaklega tilnefndur til þess að vera forseti dómsins.
Málsaðili utan SA eða ASÍ
Ef atvinnurekandi, sem er málsaðili, er ekki meðlimur í Samtökum atvinnulífsins, skal dómari sá sem tilnefndur er af því, víkja sæti, en í staðinn tilnefnir atvinnurekandinn dómara í málinu og skal hann hafa gert það áður en hálfur stefnufrestur er liðinn, ella tilnefnir forseti dómsins dómarann. Reyndin hefur orðið sú, þrátt fyrir heimild laganna, að vinnuveitendur utan SA neita sjaldnast þessa réttar síns. Sjá þó Félagsdóm 4/1954 (IV:68).
Sama á við þegar málsaðili er stéttarfélag eða samband stéttarfélaga utan heildarsamtaka launafólks gagnvart dómara, skipuðum af Alþýðusambandi Íslands.
Í Félagsdómi 11/1994 (X:228) Atlanta hf. gegn FÍA, gerði FÍA kröfu til þess að dómari ASÍ viki sæti og að hann fengi að tilnefna dómara í hans stað. Var fallist á þá kröfu og vísað til þess að skipan 39. gr. laga nr. 80/1938 er varði tilnefningu dómara í Félagsdóm þyki ekki uppfylla þær kröfur sem telja verði að felist í 1. mgr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Sá munur sem sé á rétti málsaðila til tilnefningar dómara sem felist í 39. gr. þyki fela í sér slíkt ójafnræði aðila að stefndi hafi ástæðu til að draga í efa að mál hans sæti meðferð fyrir óvilhöllum dómstóli hlutlægt séð. Í framhaldi þessa dóms félagsdóms og með 6.gr. lagana nr. 75/1996 var þessu ákvæði laga nr. 80/1938 breytt og jafnræði aðila tryggt.
Í Félagsdómi 1/1994 (X:149) var gerð sú krafa að dómari ASÍ viki sæti fyrir dómara BSRB í máli sem fjallaði um verkfallsboðun Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar hjá Strætisvögnum Reykjavíkur hf., en verkfallsboðunin tengdist ágreiningi um félagsaðild starfsmanna hjá Strætisvögnum Reykjavíkur hf. Krafan var reist á þeirri forsendu að í gögnum málsins hefði ASÍ, sem var stefnt til réttargæslu í málinu, lýst sjónarmiðum varðandi samningsaðild og forgangsrétt til vinnu sem ættu samstöðu með viðhorfum VSÍ í málinu, en hæfi dómara ASÍ sem slíkt var ekki dregið í efa. Á þessi rök féllst Félagsdómur og sagði að við þessar sérstöku aðstæður væri ekki rétt að dómari sem ASÍ hefði tilnefnt sæti í dóminum í málinu. Telja yrði að sú niðurstaða samræmdist 39. gr. laga nr. 80/1938 sem skýra bæri nú með hliðsjón af ákvæðum 1. mgr. 6. gr. Evrópusamnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, samanber auglýsingu nr. 11/1954. Samningurinn var síðan lögfestur á Alþingi, samanber lög nr. 62/1994. Í dóminum kemur ekki fram hverjar hinar „sérstöku aðstæður“ eru þ.e. hvort þær lúti að því að ASÍ hafi verið stefnt til réttargæslu og aðildar að málinu eða hvort þau sjónarmið sem ASÍ hafi látið uppi um efni málsins dugi ein til þess að kalla fram skipan dómara í stað þess sem ASÍ hefur skipað í réttinn.
Iðnlög
Þegar fjallað er um mál sem snertir iðnlöggjöfina, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 skulu dómarar tilnefndir af ASÍ og SA víkja sæti en í þeirra stað tilnefna stefnandi og stefndur hvor sinn mann úr hópi 18 manna, sem tilnefndir eru í því skyni af Iðnsveinaráði ASÍ og Samtökum iðnaðarins til þriggja ára í senn. Iðnsveinaráð ASÍ tilnefnir sex menn og Samtök iðnaðarins tólf menn. Ef aðili tilnefnir ekki dómara eða ekki næst samkomulag um tilnefninguna milli samaðila máls, og nefnir forseti Félagsdóms þá dómara í hans stað úr hópi sömu manna.
Opinberir starfsmenn
Þegar Félagsdómur dæmir í málum samkvæmt ákvæðum laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmannatilnefna annars vegar viðkomandi heildarsamtök stéttarfélaga opinberra starfsmanna og hins vegar fjármálaráðherra eða Samband íslenskra sveitarfélaga dómara til setu í dómnum í stað þeirra sem nefndir hafa verið af ASÍ og SA.
Dómarar þessir eru tilnefndir til þriggja ára í senn samanber 1. mgr. 27. gr. laga nr. 94/1986. Sé stéttarfélag opinberra starfsmanna utan heildarsamtaka aðili máls fyrir Félagsdómi nefnir það sjálft dómara í það mál.