VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Efni kjarasamninga

Kjarasamningar eru samningar um kaup og kjör launafólks, sem gerðir eru af stéttarfélagi og ætlað er að gilda um tiltekinn tíma. Þar er kveðið almennt á um kaup, mánaðar, viku- eða tímakaup, lengd vinnutíma, dagvinnu, yfirvinnu, vaktavinnu, matar- og kaffitíma, uppsagnarfrest, orlof og greiðslur í veikindum. Á vinnumarkaði og í vinnurétti, rétt eins og á öðrum sviðum samfélagsins og í samningarétti almennt, gildir grundvallarreglan um samningsfrelsi. Í henni felst að aðilar ráða efni samnings sín á milli. Á vinnumarkaði er samningsfrelsi stéttarfélaganna sérstaklega varið af 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar á þann veg að löggjafanum ber með lögum að kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Af þessum ástæðum verður að koma ótvírætt fram í lögum ef ákvæði þeirra eiga að vera ófrávíkjanleg við gerð kjarasamninga sbr. t.d. HRD 515/2014 auk þess sem löggjafinn hefur ekki ótakmarkaðar heimildir til þess að skerða samningsréttinn með ófrávíkjanlegum lagareglum. 

Einu ákvæði laganna nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sem lúta að efni kjarasamninga eru ákvæði 6. gr. um gildistíma og uppsagnarfrest. Þar segir að tilgreina skuli samningstíma og uppsagnarfrest í kjarasamningi. Sé það ekki gert telst samningstími eitt ár og uppsagnarfrestur þrír mánuðir. Sé samningi ekki sagt upp innan uppsagnarfrests, telst hann framlengdur um eitt ár, nema annað sé ákveðið í samningnum sjálfum.

Svo sem að framan er greint eru kjarasamningar samningar stéttarfélags og atvinnurekanda um kaup og kjör. Þessir aðilar geta að sjálfsögðu gert með sér samkomulag um atriði, sem ekki eru kjaratengds eðlis án þess að um sé að ræða kjarasamning. Um það var deilt í Félagsdómi 5/1994 (X:178), hvort samningur, sem Flugvirkjafélag Íslands annars vegar og Flugleiðir hf. gerðu sín í milli sumarið 1993 hefði verið kjarasamningur eða samningur einkaréttarlegs eðlis. Deilur höfðu staðið milli aðila um nokkurt skeið og kjarasamningur, sem aðilar höfðu gert sín í milli hafði verið felldur af félaginu. Var sú leið þá farin að gera samkomulag milli aðila um nokkur atriði sem valdið höfðu ágreiningi, svo sem túlkun á kjarasamningsákvæði, um verkfærapeninga og endurskoðun og endurútgáfu á kjarasamningi. Orðið kjarasamningur var tekið út úr skjalinu og það kallað samkomulag. Ekki var heldur kveðið á um gildistíma eða uppsagnarfrest í skjalinu. Þetta skjal var samþykkt á félagsfundi í Flugvirkjafélaginu og fullyrt af formanni félagsins að samkomulagið væri ekki kjarasamningur, mönnum væri þess vegna heimilt að boða verkfall næsta dag. Nokkrum mánuðum síðar boðuðu flugvirkjar verkfall. VSÍ höfðaði mál gegn félaginu og krafðist þess að verkfallið yrði dæmt ólögmætt, þar sem í gildi væri kjarasamningur milli aðila og því væri friðarskylda. Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir þessar breytingar á fyrra skjali breytti það ekki þeirri staðreynd að um kjarasamning milli aðila væri að ræða.

Lágmarksréttur

Lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 kveða á um það að kjarasamningar séu lágmarkskjör. Samkvæmt 1. gr. laganna skulu laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.  

Áður en þetta ákvæði var lögfest með 1.gr. laga nr. 9/1974 (starfskjaralögum), nú 1.gr. laga nr. 55/1980, gilti um þetta 7. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur um að samningar einstakra verkamanna við atvinnurekendur væru ógildir að svo miklu leyti, sem þeir færu í bága við samninga stéttarfélags við atvinnurekandann, enda hefði félagið ekki samþykkt þá. Kjarasamningurinn er því réttarheimild og að því leyti hliðstæður lögum eða opinberum reglum. Upp hafði komið vafi um túlkun þessa lagaákvæðis og úr því var bætt með lögunum nr. 9/1974. 

Almenn ákvæði

Efni flestra kjarasamninga má greina upp í þrjá þætti, í fyrsta lagi bein launaákvæði samningsins, í öðru lagi önnur atriði sem snerta kjör launamannsins og í þriðja lagi ákvæði sem lúta að samskipum samningsaðilanna.

Kaup

Flestir kjarasamningar hefjast á kafla um kaup. Það er sá hluti samningsins sem mest er notaður og oftast er flett upp í. Þessum hluta samningsins er oftast breytt frá einum kjarasamningi til þess næsta.

Kaup ræðst ekki aðeins af tímakaupi, vikukaupi eða föstu mánaðarkaupi, heldur einnig álagsgreiðslum, vaxtagreiðslum, eingreiðslum og uppbótargreiðslum ýmis konar. Á undanförnum árum hefur það aukist að fara fremur þá leið að bæta kjör með eingreiðslum en beinum hækkunum á launataxta.

Önnur einstaklingsbundin kjör

Meginmál kjarasamninga fjallar um önnur einstaklingsbundin réttindi, svo sem vinnutíma, matar- og kaffitíma, fæðis- og flutningskostnað, orlof, forgangsrétt til vinnu, aðbúnað og hollustuhætti, vinnuslys og laun í veikinda- og slysatilfellum, verkfæri og vinnuföt, greiðslur í sjúkra- orlofs- og lífeyrissjóði, félagsgjöld, uppsagnarfrest og endurráðningu, trúnaðarmenn, ákvæðis- og bónusvinnu og fleiri sérgreinda þætti.

Samskiptaákvæði samningsaðila

Í flestum kjarasamningum eru ákvæði sem lúta eingöngu að samskiptum samningsaðilanna. Þetta eru ákvæði um aðila kjarasamningsins, gildistíma og uppsagnarfrest, um meðferð ágreiningsmála, forsendur kjarasamningsins og endurmat á forsendum. Einnig má telja ákvæði um forgangsrétt hér með, þótt þau snúi einnig beint að einstökum aðilum samningsins, því forgangsréttarákvæðin eru fyrst og fremst sett til að styrkja þær félagslegu einingar sem stéttarfélag og félag atvinnurekenda eru.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn