VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Atkvæðagreiðsla um verkfall

Samkvæmt 15.gr. laga nr. 80/1938 er það skilyrði löglega boðaðs verkfalls að greidd hafi verið atkvæði um tillögu um verkfall í almennri og leynilegri atkvæðagreiðslu atkvæðisbærra félagsmanna eða almennri leynilegri póstatkvæðagreiðslu þeirra. Í kaflanum er fjallað um hverjir teljist atkvæðisbærir félagsmenn og síðan þær tvær tegundir almennra leynilegra atkvæðagreiðslna sem lögin vísa til. Loks verður fjallað um rafrænar atkvæðareiðslur sem tekið hafa við af hefðbundnum atkvæðagreiðslum á pappír. Innan ASÍ gildir hér sérstök reglugerð sambandsins og er til hennar vísað eftir því sem við á.

Hverjir hafa atkvæðisrétt

Meginreglan er sú að allir félagsmenn geta átt atkvæðisrétt um verkfall, hvort sem verkfallið tekur til þeirra allra eða einungis hluta þeirra. Þetta er hverju sinni háð ákvörðun þess stéttarfélags sem til verkfalls boðar. 

Í þessu sambandi ber að hafa í huga að stéttarfélög samtímans eru mun stærri en þau voru, bæði þegar lög nr. 80/1938 voru sett og eins þegar lögunum var breytt 1996. Einstök stéttarfélög geta því átt aðild að fleiri en einum aðalkjarasamningi t.d. aðalkjarasamningi um störf verkafólks, öðrum um störf iðnaðarmanna, þeim þriðja um störf sjómanna, þeim fjórða við ríkið og svo framvegis. Það er því svo, að þegar efnt er til atkvæðagreiðslu meðal allra atkvæðisbærra félagsmanna tiltekins stéttarfélags um verkfall er átt við alla sem taka laun eftir þeim aðalkjarasamningi sem vinnudeilan tekur til og þeim sérkjarasamningum sem teljast hluti hans.

Ef vinnustöðvun er einungis ætlað að taka til tiltekins eða ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilgreindum vinnustað þá er heimilt að taka ákvörðun um vinnustöðvun með atkvæðum þeirra sem henni er ætlað að taka til. Vald stéttarfélaganna til ákvörðunar hér um byggir á 2.mgr. 15.gr. laga nr. 80/1938. þar segir: „Nú er vinnustöðvun einungis ætlað að taka til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilgreindum vinnustað og er þá heimilt að taka ákvörðun um vinnustöðvun með atkvæðum þeirra sem henni er ætlað að taka til.“ Síðan segir „Þarf þá fimmtungur atkvæðisbærra að taka þátt í atkvæðagreiðslu og meiri hluti þeirra að styðja tillögu um vinnustöðvun.“ Túlkun skv. beinni orðanna hljóðan bendir til þess að fimmtungsþátttaka sé nauðsynleg við þessar aðstæður hvort sem stuðst er við almenna atkvæðagreiðslu eða almenna póstatkvæðagreiðslu. Niðurstaða Félagsdóms í Féld. 2/2019  tekur af allan vafa hér um og ljóst að þáttökuhlutföllin gilda ekki ef notuð er almenn leynileg póstatkvæðagreiðsla við þessar aðstæður. 

Í þessum dómi Félagsdóms var einnig deilt það hverjir skyldu atkvæðisrétt þegar allir félagsmenn Eflingar sem unnu skv. kjarasamningi um störf á veitinga- og gistihúsum greiddu atkvæði um verkfall sem þannig var skipulagt að það tók einungis til tiltekinna starfa sem ljóst væri að einungis hluti þeirra sem tækju laun skv. þessum kjarasamningi ættu að sinna í reynd. Talið var heimilt að allir mættu greiða atkvæði og jafnframt að þáttökuhlutföll skv. 2.mgr. 15.gr. giltu ekki þar sem um almenna leynilega (rafræna) póstatkvæðagreiðslu hefði verið að ræða. 

Á túlkun þessa ákvæðis reyndi einnig í Féld. 4/2016. Verkalýðsfélagið Hlíf ákvað að boða til verkfalls við álverið í Straumsvík þannig að það tæki einungis flutningasveitar og útskipunar á áli. Atkvæði greiddu þeir félagsmenn einir sem unnu þessi störf við höfnina í Straumsvík. Atvinnurekendur töldu að álverið væri einn vinnustaður og því hefðu allir félagsmenn Hlífar átt að greiða atkvæði. Félagsdómur hafnaði þeirri túlkun. Á kjörskrá hafi verið allir sem verkfallið átti að taka til, um afmarkað vinnusvæði innan fyrirtækisins væri að ræða og „flutningasveitin“ bæði skilgreindur hópur innan fyrirtækisins og hennar getið í kjarasamningi. Hugtakið „tilgreindur vinnustaður“ í skilningi 2.mgr. 15.gr. ber því að skilja rúmum skilningi og þannig að ekki sé átt við fyrirtæki í heild sem vinnustað og að vinnustaður geti verið afmarkaður hluti eða starfsstöð innan fyrirtækis eða stærri vinnustaðar, sé hægt að skilgreina þau störf sem í hlut eiga og þá starfsmenn sem þeim sinna með nægilega skýrum hætti.

Innan ASÍ gildir reglugerð sambandsins um leynilega allsherjaratkvæðagreiðslu og er tekið á atkvæðisrétti í 2. kafla hennar, sérstaklega 13.gr. 

Almenn leynileg atkvæðagreiðsla

Með almennri leynilegri atkvæðagreiðslu er átt við að hún skuli ná til allra félagsmanna sem atkvæðisrétt hafa, að hún fari þannig fram að þeir geti greitt atkvæði án afskipta og að ekki sé hægt að rekja tiltekin atkvæði til tiltekinna félagsmanna. 

Þetta verður ekki gert án þess að atkvæðagreiðslan sé skrifleg eða framkvæmd á rafrænan hátt þannig að fyllsta öryggis sé gætt. Framkvæmdin getur verið með ýmsum hætti. Setja má upp kjörstað eða kjörstaði þar sem greiða má atkvæði á pappír eða rafrænt en einnig má greiða atkvæði leynilega á félagsfundum. Til þess hins vegar að almenn leynileg atkvæðagreiðsla sé skuldbindandi þarf fimmtungur (1/5 eða 20%) atkvæðisbærra félagsmanna samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og jafnframt þarf tillagan hafi notið stuðnings meirihluta greiddra atkvæða. Að jafnaði efna stéttarfélögin því fremur til almennra og leynilegra póstatkvæðagreiðslna þar sem engin þátttökuhlutföll gilda.

Mikilvægt er að kjörfundur þar sem greidd skulu atkvæði sé nægilega auglýstur. Það er ábyrgð hlutaðeigandi stéttarfélags hve lengi atkvæðagreiðsla stendur yfir. Telja verður þó að atkvæðagreiðsla megi ekki standa í svo skamman tíma að þeim sem vinnustöðvun á að taka til gefist ekki tækifæri til þess að tjá vilja sinn.

Innan ASÍ gildir reglugerð sambandsins um leynilega allsherjaratkvæðagreiðslu og er tekið á atkvæðagreiðslum af þessum toga í 2. kafla hennar, sérstaklega 8, 9, 12 og 14-17.gr.

Almenn leynileg póstatkvæðagreiðsla

Heimilt er að viðhafa almenna leynilega póstatkvæðagreiðslu um tillögu um verkfall og gildir niðurstaða hennar þá óháð þátttöku sbr. 1.mgr. 15.gr. laga nr. 80/1938. Þessi regla tekur jöfnum höndum til ákvörðunar um verkfall allra félagsmanna og til ákvörðunar allra félagsmanna um verkfall sem taki einungis til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilteknum vinnustað sbr. Féld. 2/2019

Í athugasemdum með lögunum segir að með póstatkvæðagreiðslu sé átt við þá tilhögun atkvæðagreiðslu að öllum atkvæðisbærum félagsmönnum á kjörskrá, þ.e. atkvæðaskrá samtaka atvinnurekenda eða félagaskrá stéttarfélaga, sem eiga í hlut, séu send kjörgögn heim. Kjörgögn skulu vera atkvæðaseðill og ómerkt umslag ásamt umslagi sem unnt er að póstleggja ófrímerkt og sem áritað er með nafni og póstfangi viðtakanda. Lögmætur atkvæðaseðill skal fyrir fram áritaður skýrlega með „já“ -reit og „nei“ -reit við tillögu um samþykkt meðfylgjandi verkfallsboðunar þannig að unnt sé að auðkenna annan reitinn. Atkvæðaseðill skal síðan settur í ómerkta umslagið og það inn í hið áritaða sem auðvelt er að póstleggja. Með því eigi að vera tryggð leynileg atkvæðagreiðsla.

Innan ASÍ gildir reglugerð sambandsins um leynilega allsherjaratkvæðagreiðslu og er tekið á atkvæðagreiðslum af þessum toga í 2. kafla hennar, sérstaklega 10.gr. 

Almenn leynileg rafræn atkvæðagreiðsla

Lögin nr. 80/1938 fjalla ekki um almennar leynilegar rafrænar atkvæðagreiðslur. Af þeim ástæðum gengu ASÍ og SA frá sérstakri bókun hjá ríkissáttasemjara þar um þann 6.4 2017. Skv. henni er heimilt að viðhafa almenna leynilega rafræna atkvæðagreiðslu um boðun vinnustöðvunar sem hefur sömu réttaráhrif og almenn leynileg póstatkvæðagreiðsla eins og henni er í lýst í lögum 80/1938 og greinargerð með þeim breytingum sem gerðar voru á þeim lögum 1996.

Þar sem bein ákvæði laga nr. 80/1938 fjalla ekki um annað en „póst“ atkvæðagreiðslur eins og þeim er lýst hér að framan, hefur það verið ráðlegging ASÍ að beita ekki rafrænni atkvæðagreiðslu gagnvart atvinnurekendum sem ekki eru bundnir af ofangreindri bókun. Fjármálaráðherra og Samtök sveitarfélaga hafa bæði staðfest að rafrænar atkvæðagreiðslur í samræmi við bókun ASÍ og SA hafi gildi gagnavart þeim. 

Innan ASÍ gildir reglugerð sambandsins um leynilega allsherjaratkvæðagreiðslu og er tekið á rafrænum atkvæðagreiðslum 2. kafla hennar, sérstaklega 11.gr. 

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar og færanlegir kjörstaðir

Eins og í öllum öðrum kosningum er heimilt að viðhafa atkvæðagreiðslu um verkfall utan kjörfundar, samhliða atkvæðagreiðslu á kjörstað, póstatkvæðagreiðslum eða rafrænum atkvæðagreiðslum. Haga ber frágangi slíkra atkvæða þannig að tryggt sé að hver og einn geti einungis greitt eitt gilt atkvæði.

Við talningu atkvæða þarf þá að gæta þess að atkvæði utan kjörfundar sé ekki talið, hafi atkvæði á kjörstað þegar verið greitt. Ef tvisvar eru greidd atkvæði utan kjörfundar eða ef bæði er skilað póstatkvæði og utankjörfundaratkvæði gildir það atkvæði sem síðast er greitt og skulu hin ekki talin. Ef hins vegar atkvæði eru greidd rafrænt, gildir rafræna atkvæðið sbr. m.a. 5.mgr. 11.gr. reglugerðar ASÍ.

Færanlegur kjörstaður

Á árinu 2019 efndi Efling – stéttarfélag til atkvæðagreiðslu um verkfall. Henni var þannig háttað að fyrst og fremst var atkvæðagreiðslan rafræn og auk þess sem greiða mátti atkvæði utan kjörfundar var ekið með færanlegan kjörstað milli vinnustaða og atkvæðisbærum félagsmönnum gert mögulegt annað af tvennu að greiða atkvæði á fartölvu sem þar var að finna eða bréflega eins og um utankjörfundaratkvæði væri að ræða. Samtök atvinnulífsins höfðuðu mál fyrir Félagsdómi, Féld. 2/2019, og freistuðu þess að fá atkvæðagreiðsluna dæmda ólögmæta. Félagsdómur gerði ekki athugasemd við þessa framkvæmd enda nægilegrar leyndar gætt við framkvæmd atkvæðagreiðslunnar.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn