VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Lagaumhverfi

Stjórnsýslulög

Stjórnsýslulög nr. 37/1993 gilda um alla stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og þar á meðal þegar teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur manna, sbr. 1. gr. þeirra. Það á þó ekki við um ákvarðanir sem varða réttindi og skyldur manna skv. vinnurétti, sbr. m.a. Hrd. nr. 418/1995. Þar segir í niðurstöðu dómsins:

Samkvæmt því, sem áður sagði, gilti kjarasamningur stéttarfélags stefnda um starf hans hjá húsnæðisnefndinni og réð samband þeirra. Var það samningssamband einkaréttarlegs eðlis. Óumdeilt er, að samkvæmt samningum og þeim lögum, sem um slíka samninga gilda, hafa vinnuveitendur að verulegu leyti frjálst mat við uppsagnir launþega, þótt með nokkrum takmörkunum sé, sem ekki skipta máli hér. Þannig geta þeir meðal annars borið fyrir sig fjárhagslegar ástæður og heildarhagsmuni fyrirtækja sinna. Samdráttur í trésmíðum á vinnustað stefnda kallaði á viðbrögð áfrýjandans Húsnæðisnefndar Reykjavíkur, og réðust þau af slíkum sjónarmiðum. Ákvörðun húsnæðisnefndar var á sviði vinnuréttar, en var ekki stjórnvaldsathöfn í skilningi stjórnsýsluréttar. Stefndi gat ekki vænst þess, að staða hans gagnvart húsnæðisnefnd sem vinnuveitanda væri önnur en sú, sem fólst í kjarasamningi hans og almennt gildir á vinnumarkaði, og að nefndin hefði takmarkaðri rétt að þessu leyti en aðrir vinnuveitendur.

Hæstiréttur klofnaði í málinu en ekki um framangreinda meginreglu heldur þá ákvörðun áfrýjanda að láta skráningu á atvinnuleysisskrá utan Reykjavíkur ráða því, hverjum var sagt upp. Þetta taldi minnihlutinn vera stjórnsýslulega ákvörðun en ekki vinnuréttarlega.

Samskonar niðurstaða var í Hæstaréttardómi í máli nr. 24/2009. Þar segir:

Hæstiréttur taldi að svarbréf flugmálastjóra 26. ágúst 2014 hefði falið í sér túlkun á kjarasamningi og verið staðfesting á röðun í launaflokk. Sú niðurstaða hefði verið fengin á grundvelli vinnuréttar en ekki stjórnsýsluréttar, enda eru ákvæði laga nr. 94/1986 reist á þeirri meginreglu að kjarasamningar séu gerðir á forsendum samningaréttar og feli ekki í sér einhliða ákvarðanir um réttindi og skyldur launþegans. Þessi niðurstaða flugmálastjóra gat því ekki talist stjórnsýsluákvörðun samkvæmt 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, sem kæra mætti til æðra stjórnvalds samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna og 49. gr. laga nr. 70/1996. 

Lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna (starfsmannalög) gilda um ríkisstarfsmenn án tillits til þess hvaða stéttarfélagi þeir tilheyra. Lögin taka til, skv. 1. gr. þeirra, hvers manns sem skipaður, settur eða ráðinn er í þjónustu ríkisins til lengri tíma en eins mánaðar án tillits til þess hvort og þá hvaða stéttarfélagi hann tilheyrir enda verður starf hans talið aðalstarf. Auk forseta Íslands, ráðherra og alþingismanna taka lögin ekki til starfsmanna hlutafélaga og annars konar félaga einkaréttareðlis, jafnvel þótt þau séu að öllu leyti í eigu ríkisins og ennfremur starfsmanna stofnana sem að einhverju leyti eru í eigu annarra en ríkisins, þar á meðal sjálfseignarstofnana, jafnvel þótt þær séu eingöngu reknar fyrir framlög frá ríkinu. Þeir starfsmenn ríkisins sem eru félagar í stéttarfélögum innan vébanda ASÍ og fá laun greidd á grundvelli kjarasamninga við þau félög falla þannig undir lögin að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Í starfsmannalögunum er fjallað um almenn skilyrði þess að fá skipun eða ráðningu í starf. Skylt er að auglýsa laus störf samkvæmt 7. gr. laganna með örfáum undantekningum sem lúta að tímabundnum störfum og afleysingastörfum. Þá er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að upplýsingum um nöfn og starfsheiti umsækjenda þegar umsóknarfrestur er liðinn.

Sérstaklega er fjallað um ráðningu í starf í 8. kafla laganna og kemur þar fram að starfsmenn ríkisins skulu ráðnir til starfa ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Í 9. kafla er fjallað um starfslok ríkisstarfsmanna. Sjá nánar hér.

Samkvæmt 14. gr. starfsmannalaganna ber starfsmönnum ríkisins skylda til að rækja starf sitt með alúð og samviskusemi í hvívetna. Þeir skulu gæta kurteisi og forðast að hafast nokkuð það að sem verða kann þeim til vanvirðu eða álitshnekkis, leiðbeina þeim sem til þeirra leita og gæta þagmælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi og leynt skulu fara.

Starfsmönnum er skylt að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði. Starfsmaður getur þó kosið að segja upp starfi sínu vegna slíkra breytinga enda skýri hann forstöðumanni frá því innan eins mánaðar frá því að breytingarnar voru tilkynntar honum. Ef breytingarnar hafa í för með sér skert launakjör starfsmanns eða réttindi skal hann halda óbreyttum launakjörum eða réttindum í jafnlangan tíma og réttur hans til uppsagnarfrests er samkvæmt ráðningarsamningi, skv. 19. gr. laganna.

Þá er forstöðumönnum gert skylt að áminna starfsmann hafi hann sýnt af sér nánar tilgreinda háttsemi skv. 21. gr. laganna.

Auk framangreindra ákvæða eru í lögunum reglur um greiðslu launa, skyldu starfsmanna til að taka orlof, rétt til launa í veikindaforföllum og fæðingarorlofi svo dæmi séu nefnd.

Réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga

Um starfsmenn sveitarfélaga gilda, auk almennra laga á vinnumarkaði, sveitarstjórnarlög nr. 45/1998 og kjarasamningar. Þannig segir í sveitarstjórnarlögum að kjarasamningar ákvarði starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna en þó er tekið fram að starfsmenn séu bundnir þagnarskyldu um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt eiga að fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli máls og helst þagnarskyldan þótt látið sé af starfi.

Í mörgum kjarasamningum starfsmanna sveitarfélaga hafa ákvæði starfsmannalaga verið tekin upp. Það á þó ekki við um kjarasamninga sveitarfélaga við félagsmenn aðildarfélaga ASÍ.

Réttindi og skyldur á almennum vinnumarkaði

Starfsmönnum á almenna vinnumarkaðnum er ekki markaður sérstakur lagarammi um réttindi og skyldur þeirra. Um réttindi þeirra og skyldur þeirra fer því eftir ákvæðum kjarasamninga auk almennra laga á vinnumarkaði.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn