VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Stjórn félags

Umræða um skyldur stjórnarmanna í félögum hefur aukist á undanförnum árum. Skyldur félaganna gagnvart félagsmönnum og þjónusta við þá eru miklar en ekki síður skyldur við hið opinbera. Stéttarfélögum er fengin umsjón verulegra fjármuna til þess að standa m.a. að rekstri og umsjón með stórum hluta á veikindarétti félagsmanna sinna í gegnum sjúkrasjóði sína. Það sama á við um lífeyrissjóðina sem standa undir elli- og örorkulífeyri launafólks. Jafnframt hafa félögin skv. lögum og kjarasamningum heimild til innheimtu félagsgjalda sem standa eiga undir félagslegu hlutverki þeirra. Allt ber þetta að þeim sama brunni, að félögin verða að geta staðið félagsmönnum og stjórnvöldum skil á því að rétt og vel sé farið með það hlutverk sem þau hafa og þá fjármuni sem þau taka til sín.

Þar sem þjóðfélagið verður stöðugt flóknara verður erfiðara fyrir aðila, sem aldrei hafa komið nálægt stjórnun að taka við rekstri stéttarfélags, sem oft á fleira sameiginlegt með rekstri fyrirtækis en sú hugmynd sem menn almennt gera sér um stéttarfélag. Stærri og öflugri félagseiningar gera það að verkum að tækifæri hafa skapast til þess að ráða sérfræðinga til starfa á skrifstofum félaganna undir félagslegri stjórn kjörinna leiðtoga.

Hlutverk og skyldur stjórnar 

Þegar  menn eru kosnir í stjórn stéttarfélags er félagið fært í þeirra umsjón. Það er þá þeirra verkefni að sjá til þess að félagið starfi áfram í þeim tilgangi og að þeim markmiðum sem því er ætlað, bæði samkvæmt ákvæðum í félagslögum og eins samkvæmt ákvörðunum félagsfunda. Ýmist tekst stjórnin þetta verkefni á hendur sjálf eða hún ræður til þess starfsmann. Algengt er að formaður félags sé jafnframt starfsmaður þess.

Félagsfundir hafa samkvæmt almennum reglum félagaréttarins æðsta vald í málefnum félags. Ákvörðun sem tekin er á félagsfundi gildir og stjórninni ber að fylgja henni eftir. Einungis annar félagsfundur getur breytt þeirri ákvörðun eða tekið nýja. Stjórnin tekur við umboði sínu frá félagsmönnum og sækir umboð sitt til þeirra í gegnum þær stofnanir sem lög félagsins mæla fyrir um.

Skyldur samkvæmt félagslögum

Í samþykktum stéttarfélaga eru ákvæði um það hvert sé verksvið stjórnar og hlutverk. Samkvæmt leiðbeinandi reglum ASÍ að lögum stéttarfélaga hefur stjórnin á hendi yfirstjórn allra félagsmála milli félagsfunda. Stjórnin boðar til félagsfunda, þar á meðal aðalfunda. Hún ræður starfsmenn félagsins, ákveður laun þeirra og vinnuskilyrði. Hlutverk stjórnarinnar er því samkvæmt félagslögum að sjá til þess að félagið sé starfrækt í samræmi við samþykktir þess og ákvarðanir svo og gildandi lög og reglur. 

Eftirlit með fjárhag

Ein af mikilvægustu skyldum stjórnarmanna í stéttarfélögum er að hafa eftirlit með fjárhag félagsins. Oft ber formaðurinn hitann og þungann af því að stjórna fjárhag þess en stjórnin hefur skyldu til að fylgjast með því að fjármunum félagins sé vel varið í samræmi við lög þess og tilgang. Stjórnarmenn geta skoðað ársreikninga og þau gögn sem þeir byggja á enda er þeim skylt að árita þá í lok árs og taka þannig á sig meðábyrgð á fjármálum og fjárreiðum félaganna. ASÍ hefur samið ítarlegar viðmiðunarreglur um bókhald og ársreikninga aðildarsamtaka sinna. Þær eru unnar í samvinnu við löggilta endurskoðendur og eru stjórnum og stjórnarmönnum til halds og trausts.

Skyldur samkvæmt landslögum

Ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur fjalla ekki mikið um hlutverk eða skyldur stjórnar í stéttarfélagi. Það er þó ljóst að stjórninni ber að sjá til þess að félagið sinni skyldum sínum. Henni ber því að sjá til þess að félagið fari að lögum en þeirra helst eru eftirfarandi.

Bókhaldslög

Stéttarfélög eru bókhaldsskyld samkvæmt lögum um bókhald nr. 145/1994. Það er á ábyrgð stjórnarinnar að sjá til þess að ákvæðum laganna sé fullnægt.

Skattalög

Stéttarfélög eru ekki tekjuskattsskyld samkvæmt skattalögum. Þau eru undanþæg skattskyldu samkvæmt tekjuskattslögum nr. 90/2003, því þau stunda ekki atvinnustarfsemi í skilningi laganna. Þar sem þau eru ekki skattskyld eru þau heldur ekki framtalsskyld samkvæmt sömu lögum. Stéttarfélagi getur þó verið skylt að innheimta virðisaukaskatt vegna sölu á vöru eða þjónustu sem það hefur með höndum og standa skil á honum í ríkissjóð samkvæmt ákvæðum laga um virðisaukaskatt. 

Stéttarfélögum ber sem launagreiðendum að greiða tryggingagjald samkvæmt lögum um tryggingagjald nr. 113/1990. Þeim ber vegna starfsmanna sinna skylda til eins og öðrum sem hafa menn í vinnu að halda eftir staðgreiðslu skatta starfsmanna sinna, meðlagsgreiðslum, greiðslum í lífeyrissjóð og stéttarfélagsgjaldi.

Hlutafélagalög

Lög um hlutafélög ná að ekki til stéttarfélaga, en ákvæði um stjórnir og stjórnarmenn í hlutafélögum má hafa til hliðsjónar þegar fjallað er um stéttarfélög. Þótt vart sé hægt að lögjafna þar á milli, þar sem hlutafélög eru félög sem stofnuð eru í fjárhagslegum tilgangi, en stéttarfélög teljast til frjálsra félaga, gefa hlutafélagalögin nokkra vísbendingu um skyldur og ábyrgð stjórnarmanna. Í 68. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 segir til dæmis að félagsstjórn fari með málefni félagsins og skuli annast um að skipulag þess og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Einnig skal félagsstjórn annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins.

Hlutverk einstakra stjórnarmanna

Stjórn stéttarfélags tekur sameiginlega ákvarðanir, en í stjórninni er að jafnaði ákveðin verkaskipting. Störf einstakra stjórnarmanna í þágu félagsins eru breytileg frá einu félagi til annars og ræður þar mestu hvort og hversu umfangsmikill skrifstofurekstur og þjónusta félagsins er. Í félagi þar sem fjölmennt starfslið sérfræðinga vinnur er hlutverk einstakra stjórnarmanna allt annað en þar sem enginn er í starfi. Hlutverk stjórnarmanna í stórum félögum beinist því oft fremur að eftirlitsþættinum og mótun stefnu fremur en hinum daglega rekstri.

Venjulega er formaður kosinn sérstaklega, svo og varaformaður, ritari og gjaldkeri. Einnig tíðkast að formaður sé kosinn sérstaklega en stjórnin skipti að öðru leyti með sér verkum.

Formaður

Hlutverk formanns er að kveða til stjórnarfunda og stjórna þeim. Honum einnig skylt að halda stjórnarfund óski meirihluti eða tiltekinn fjöldi stjórnarmanna eftir því, allt skv. nánari ákvæðum félagslaga. Formaður undirritar gerðarbækur og gætir þess að allir stjórnarmenn geri skyldu sína. Hann hefur eftirlit með starfsemi félagsins og eftirlit með því að lögum þess og samþykktum sé fylgt í öllum greinum.

Gjaldkeri

Gjaldkeri eða féhirðir hefur á hendi eftirlit með fjárreiðu og innheimtu félagsins og bókfærslu eftir nánari fyrirmælum félagslaga og stjórnar ef því er að skipta. Að jafnaði er ekki gert ráð fyrir að gjaldkeri sinni þessum störfum sjálfur, heldur getur stjórnin falið starfsmanni að sinna þeim. Gjaldkeri hefur þó ríkari eftirlitsskyldu með fjármálum félagsins en aðrir stjórnarmenn og myndi venjulega undirrita ársreikninga félagsins.

Ritari

Ritari ber ábyrgð á að gerðarbækur félagsins séu haldnar og færðar í þær allar fundargerðir og lagabreytingar. Hann undirritar gerðarbækur félagsins ásamt formanni. Í seinni tíð hefur færst í vöxt að félagsfundir séu hljóðritaðir og jafnvel teknir upp á myndband. Getur þetta verið til mikils hagræðis fyrir ritara sé rétt að málum staðið, en yfirleitt er engin ástæða til að skrá hvert orð sem sagt er á fundum. Byggist ritun fundargerða yfirleitt á venju í hverju félagi.

Meðstjórnendur

Ekki er sérstaklega fjallað um hlutverk meðstjórnenda í leiðbeiningum ASÍ að félagslögum eða félagslögum almennt.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn