VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Réttindi launafólks

Evrópusambandið hefur heimild samkvæmt stofnsáttmála sambandsins til að samræma reglur í aðildarríkjunum á sviði félags- og vinnumála, með samþykkt tilskipana.

Frumkvæði að setningu tilskipana á sviði félags- og vinnumála er ekki aðeins í höndum stofnana Evrópusambandsins. Hvað varðar vinnumál sérstaklega hafa heildarsamtök aðila vinnumarkaðarins á Evrópuvísu heimild til að gera samninga um samræmingu reglna á tilteknum sviðum og hafa slíkir samningar m.a. verið gerðir um foreldraorlof, hlutastörf og tímabundna ráðningarsamninga. Þeim samningum er þá í kjölfarið vísað til framkvæmdastjórnar sambandsins sem er heimilt að staðfesta þá með útgáfu tilskipunar. Sú afgreiðsla hefur þau áhrif að aðildarríkjunum ber skylda til að taka efni viðkomandi samninga upp í sinn landsrétt og geta gert það með lögum og/eða kjarasamningum. Í sumum tilvikum fara samningar heildarsamtaka launafólks og atvinnurekanda ekki þessa boðleið heldur er það í verkahring hlutaðeigandi aðildarsamtaka í aðildarríkjunum að hrinda þeim í framkvæmd. Dæmi um slíka samninga er samningur á milli Evrópu­sambands Launafólks (ETUC) og Evrópusamtaka atvinnurekenda (BUSINESSEUROPE og CEEP) um starfstengda streitu sem hér var hrint í framkvæmd með samkomulagi ASÍ og SA 7. júní 2007.

Aðildarríkjum ber skylda til að taka tilskipanir Evrópusambandsins upp í sinn landsrétt og hvað varðar vinnu- og félagsmál þá hafa þau heimild til að gera það með lögum og/eða kjarasamningum. Aðalatriðið er að tryggt sé að efni viðkomandi tilskipana nái í raun og veru til alls launafólks og þeirra atvinnurekanda. Það ræðst af hefðum í hverju aðildarríki  hvor leiðin er farin. Í sumum ríkjum eru stjórnvöld mjög áhrifamikil hvað varðar reglusetningu á vinnumarkaði en annars staðar eru þau verkefni í meira mæli falin aðilum á vinnumarkaði. 

Hér á landi hafa stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins almennt verið þeirrar skoðunar að leitast skuli við að hrinda ákvæðum þessara tilskipana í framkvæmd með kjarasamningum. Beri þær tilraunir ekki árangur standi löggjafarleiðin hins vegar alltaf opin. Niðurstaðan hér hefur verið sú að í flestum tilvikum hafa þessar tilskipanir verið innleiddar með lögum. Skýrist það m.a. af efni viðkomandi tilskipana, sbr. tilskipun um ábyrgð á launum við gjaldþrot og þeirrar kröfur að efni þeirra hafi almennt gildi jafnt á hinum almenna sem og hinum opinbera vinnumarkaði, sbr. t.d. tilskipun um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Í nokkrum tilvikum hefur báðum aðferðum verið beitt, þ.e. lögum og kjarasamningum, sbr. við innleiðingu tilskipunar vinnutíma og tilskipunar um hlutastörf.

Þessum tilskipunum Evrópusambandsins er hér raðað í tímaröð eftir því hvenær þær komu fyrst fram. Sumum þessara tilskipana hefur breytt og þær uppfærðar og í einhverjum tilvikum hafa þær fengið ný númer.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn