VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Túlkun samnings

Skýring samnings eða túlkun hans í þrengri merkingu beinist að því að draga ályktun um merkingu viljayfirlýsingar af orðalagi hennar eða öðru því hátterni, sem yfirlýsingargjafi tjáði sig með við stofnun viðkomandi löggernings, eða samnings. Skýringin grundvallast einungis á þeim staðreyndum, sem sannaðar verða, en hins vegar hefur túlkandinn nokkuð frjálsar hendur um skýringaraðferðir. Um skýringar á kjarasamningum gilda að mestu sömu sjónarmið og annarra samninga, en tillit verður að taka til sérstöðu kjarasamninga þegar þeir eru skýrðir.

Vandamál við skýringu

Þótt settar séu fram almennar meginreglur um skýringu, hlýtur hún ætíð að vera nokkuð einstaklingsbundin. Taka verður tillit til aðstæðna við samningsgerð, hvað vakað hafi fyrir aðilum, þann skilning sem ætla má að aðilar hafi lagt í samninginn, þá orðnotkun sem almennt tíðkaðist þegar samningur var gerður, venjur sem kunna að hafa skapast og forsögu samningsins.

Orðanna hljóðan

Við skýringu á kjarasamningi er meginreglan sú að fara eftir orðanna hljóðan og þeim skilningi sem fólk almennt leggur í ákvæðið. Sé ákvæðið skýrt orðað er þetta ekki vandamál. 

Sums staðar nota menn fagmál sem getur haft aðra merkingu fyrir þá sem standa utan við fagið. Að öðru jöfnu yrði fagmálið lagt til grundvallar, svo framarlega sem samningsaðilar töluðu sama tungumál í þeim efnum.

Stundum verður ágreiningur um skýringu á kjarasamningi þar sem annar aðilinn heldur fram skilningi sem ekki er í samræmi við orðalag ákvæðisins, á meðan hinn aðilinn heldur sig við orðalagið. Í slíkum tilvikum þarf að komast að því hver tilgangur ákvæðisins hafi verið og hvaða skilning menn lögðu í það við samningsgerðina. Geti aðilinn sýnt fram á að tilgangur ákvæðisins hafi verið annar en skýrt orðalag segir til um kann að vera fallist á það sjónarmið.

Tekist var á um þessi sjónarmið í Hrd. 444/2016. Í héraðsdómi sem Hæstiréttur staðfesti segir: „Þegar deilt er um skýringu samningsákvæða, þar á meðal ákvæða sem aðilar vinnumarkaðarins semja um við gerð kjarasamninga, liggur beinast við að skýra ákvæðin samkvæmt orðanna hljóðan. Nægi orðskýring ekki til að leysa úr vafa koma önnur atriði til skoðunar, svo sem sönnunargögn sem varpað geta ljósi á tilgang og markmið að baki samningsákvæðum.“ Engin gögn lágu fyrir um hver tilgangur aðila hafi verið og við þær aðstæður var hallinn af óskýru orðalagi tiltekinnar málsgreinar lagður á atvinnurekandann en í dómi segir: „Hafi það verið ætlun kjarasamningsaðila að takmarka rétt til fjarvistaruppbótar með þeim hætti sem stefndi heldur fram, við störf fjarri „föstum vinnustað“ starfsmanns, hefði að áliti dómsins þurft að taka það skýrt fram í texta greinarinnar.“  Niðurstaðan dómsins varð sú að túlka hina umdeildu málsgrein í samhengi við orðalag þeirra málsgreina sem á eftir fóru og í samræmi við orðanna hljóðan skv. almennum skilningi.  

Hugsast getur að orðalag ákvæðis leiði síðar vegna breyttra aðstæðna til niðurstöðu sem er ekki í neinu samræmi við upphaflegan tilgang þess. Vafasamt getur þá verið að byggja rétt á slíku ákvæði. Að sjálfsögðu er þetta háð mati hverju sinni.  

Almenn ákvæði – sérákvæði

Sé sérákvæði í kjarasamningi þar sem vikið er frá almennum ákvæðum sama kjarasamnings vegna sérstaklega skilgreindra tilvika eða hópa starfsmanna, ganga sérákvæðin framar hinum almennu ákvæðum. Sjá t.d. Félagsdóm 16/2016.

Hvað vakti fyrir samningsaðilum

Ein skýringarregla er sú að byggja á því hvað hafi vakað fyrir aðilum og hvaða skilning þeir voru sammála um að leggja í kjarasamninginn við kjarasamningsgerðina. Með því að hafa samband við þá sem komu að samningsgerðinni finnast oft skýringar á orðalagi, ástæður fyrir að því er virðist einkennilegum samningsákvæðum, og þegar ljóst er hvað vakað hafi fyrir aðilum verður túlkunin oft mun augljósari og einfaldari. Nefna má sem dæmi ákvæði í kjarasamningi Verkamannasambands Íslands (nú Starfsgreinasambands Íslands, SGS) um upphaf vinnutíma. Án nokkurra skýringa er það einkennilegt að vinnutími skuli hefjast kl. 7:55. Virkur vinnutími í dagvinnu á viku er 37 klst. og 5 mínútur. Umsaminn kaffitími í samningnum er 20 mínútur fyrir hádegi og tuttugu mínútur eftir hádegi. Miðað við það ætti virkur vinnutími því ekki að vera nema 36 klst. og 40 mínútur. Við styttingu vinnuvikunnar í 40 klst. á sínum tíma vildi VMSÍ halda 20 mínútna kaffitíma fyrir og eftir hádegi og samdist þá þannig að einungis 35 mínútur eru í raun greiddar á dag vegna kaffitíma og verkafólkið mætir þess í stað fimm mínútum fyrr á morgnana eða kl. 7.55.

Semja má um breytta túlkun kjarasamnings

Þótt orðalag samningsákvæðis kunni að vera skýrt geta aðilar komið sér saman um ákveðinn skilning á því og ákveðna túlkun. Þannig getur innihald samnings orðið annað en orðalagið eitt segir til um. Þegar svo stendur á, taka aðilar oft til endurskoðunar orðalag við næstu kjarasamningsgerð. Það getur þó verið viðkvæmt mál, því nýtt orðalag kann að kalla á nýjan ágreining um túlkun. Sérstaklega á þetta við þegar kjarasamningur í heild sinni er tekinn upp og færður í nýjan búning. Þá er algengt að málið sé leyst með sameiginlegri bókun um að breytt form samnings feli ekki í sér neinar efnisbreytingar.

Víða í kjarasamningum eru ákvæði um samstarfsnefndir aðila sem starfa á gildistíma kjarasamnings og taka til umfjöllunar ágreiningsefni sem upp kunna að koma. Sérstaklega er þetta algengt í röðum opinberra starfsmanna og einnig hefur Starfsmannafélagið Sókn og viðsemjendur þess slíka samstarfsnefnd. Niðurstöður slíkrar vinnu hafa fullt gildi, enda bregðast nefndirnar yfirleitt við strax þegar ágreiningur um túlkun verður, og hefð hefur því ekki skapast um aðra framkvæmd.

Skýringarákvæði í kjarasamningum

Í sumum kjarasamningum hefur verið samið um að setja inn sérstakar skýringar aftan við tiltekin samningsákvæði. Þessum ákvæðum svipar til bókana með kjarasamningum. Í Félagsdómsmálinu nr. 16/2016 var því haldið fram af stefnda gegn mótmælum stefnanda að skýringartextinn væri ekki „eiginlegur hluti kjarasamningsins“. Í niðurstöðu Félagsdóms segir að um skýringartextann hafi verið samið í viðræðum aðila og hann hafi þannig sömu stöðu og aðrar greinar kjarasamningsins.

Sams konar ákvæði annarra samninga

Við skýringar á kjarasamningum er stundum vísað í skýringar á sams konar ákvæðum annarra kjarasamninga. Þótt kjarasamningar séu fjölmargir hér á landi, eru þeir eðlislíkir. Efni kjarasamninga hefur þróast og mótast í tengslum við heildarsamtök aðila vinnumarkaðarins, og þótt ASÍ hafi ekki sjálft samningsréttinn, hefur samflot leitt til sömu ákvæða í mörgum samningum. Einnig hafa samningsaðilar tekið upp sambærileg ákvæði annars staðar frá, og sem dæmi má nefna ákvæði sem komust inn í Sóknarsamning á sínum tíma um rétt foreldra til fráveru á launum vegna veikinda barna.

Sé hægt að vísa í ákveðinn skilning á fyllilega sambærilegu ákvæði í öðrum kjarasamningi kann það að verða til leiðbeiningar. Þó verður að vara við of víðtækum heimildum til samanburðar milli samninga, því önnur atvik geta leitt til þess að niðurstaðan verði allt önnur. Þannig gilda til dæmis að meginefni til allt aðrar reglur um aðbúnað og vinnutíma landverkafólks en sjómanna og flugliða, þótt einstök ákvæði í kjarasamningum þessara hópa kunni að vera samhljóða.

Tengsl tveggja samninga og tilvísun á milli þeirra

Samningur telst vera kjarasamningur uppfylli hann almenn skilyrði um efni, form og aðild. Að öðru leyti geta kjarasamningar verið mjög ólíkir að allri gerð og mjög misjafnlega ítarlegir. Ýmist er um að ræða heildstæðan samning, viðbótarsamning við annan samning eða sérsamning fyrir tiltekinn hóp.

Viðbótarsamningur við kjarasamning

Flestir kjarasamningar eru viðbót við samninga sem áður giltu milli aðila og breyting á einstökum ákvæðum þeirra. Í inngangi eða niðurlagi er ákvæði um að allir síðast gildandi kjarasamningar aðila framlengist til ákveðins tíma með þeim breytingum og fyrirvörum sem í samningnum felast. Á milli aðila eru þá í gildi öll ákvæði eldri samningsins, sem þar voru, nema þeim hafi verið breytt, þau felld út eða nýr skilningur staðfestur á þeim í nýjum samningi, svo og þau ákvæði sem eru ný.

Við skýringar á samningum getur komið upp ágreiningur um það hvaða samningar voru síðast gildandi samningar aðila. Þetta kom upp í Félagsdómi 11/1992 (IX:544) þar sem deilt var um það hvort miðlunartillaga, sem Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri samþykkti hefði framlengt samning sem í gildi var milli félagsins og Slippstöðvarinnar hf. VSÍ hafði ekki samþykkt þann samning og taldi því að það væri ekki bundið af samþykki félagsins á miðlunartillögunni. Félagsdómur féllst á þetta sjónarmið með þeim ummælum að skýrt komi fram í texta 1. gr. sáttatillögunnar að hún framlengi einungis síðustu gildandi kjarasamninga aðila. VSÍ og ASÍ væru aðilar þessarar sáttatillögu. Kjarasamningur sem Slippstöðin hf. og tilgreind stéttarfélög gerðu þann 4. apríl 1990 væri gildislaus gagnvart VSÍ og hafi hann ekki verið framlengdur með sáttatillögunni.

Stundum er ekki um það getið í kjarasamningi milli aðila hvort líta beri svo á að hann sé viðbót við áður gildandi kjarasamning með þeim breytingum sem í samningnum felast. Þótt þetta sé ekki tekið fram berum orðum í samningnum hefur verið litið svo á að samkomulagið framlengi fyrri samninga. Þetta er staðfest í Félagsdómi 5/1994 (X:178). Þar voru atvik þau að Flugvirkjafélag Íslands og Flugleiðir hf. höfðu gert kjarasamning, sem félagið hafði fellt. Til að leysa þá deilu sem uppi var með aðilum var brugðið á það ráð að gera samkomulag um tiltekin atriði, svo sem samstarfsfyrirætlanir um afkastahvetjandi launakerfi, lífeyrissjóðsmál og erlend verkefni, en einnig um verkfærapeninga, greiðslu fyrir mætingar og fæðishlunnindi. Ekkert var getið um gildistíma eða uppsagnarfrest í samkomulaginu, en það var borið upp á félagsfundi og samþykkt þar. Nokkrum mánuðum síðar kröfðust flugvirkjar kjarabóta og boðuðu verkfall. Flugleiðir héldu því fram að verkfallið væri ólögmætt, þar sem í gildi væri kjarasamningur með aðilum. Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að í gildi væri kjarasamningur og var boðað verkfall því dæmt ólögmætt. Félagsdómur tók einnig fram að líta yrði svo á að samkomulagið hefði falið í sér framlengingu heildarkjarasamnings.

Sérsamningur við aðalsamning

Stundum eru gerðir sérsamningar fyrir tiltekinn hóp félagsmanna, til dæmis vegna ákveðins fyrirtækis. Oftast ná þeir aðeins til tiltekins hluta samningssviðs aðila og um önnur atriði vísast þá í aðalsamning. Þó geta þeir kveðið á um heildarkjör og staðið sjálfstætt, eins og ISAL samningurinn, samningur Járnblendifélagsins og ríkisverksmiðjusamningarnir. Hafi sérsamningur verið gerður fyrir tiltekinn hóp manna gilda þau ákvæði hans framar ákvæðum aðalsamningsins. Hér gilda sömu skýringarreglurnar og um tengsl almennra laga og sérlaga. Sé ákvæðum almenna samningsins síðar breytt, geta vaknað spurningar um það hvaða áhrif það hefur á gildi sérsamningsins.

Sé sérkjarasamningur sjálfstæður hafa breytingar á almenna samningnum ekkert gildi. Samningsaðilar hafa þá í raun undanskilið samningssvið sérsamningsins frá samningssviði almenna samningsins. Því má velta fyrir sér hvaða gildi ákvæði 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks hafi í tilvikum sem þessum, þegar almenni kjarasamningurinn felur í sér betri kjör en sérsamningurinn. Hefur stéttarfélag vald til að undanskilja ákveðinn hóp félagsmanna frá almennum lágmarkskjörum félagsins? Ekki er vitað til að á þetta hafi reynt.

Tveir sjálfstæðir samningar

Stéttarfélag getur gert sjálfstæða kjarasamninga við marga aðila. Til dæmis getur deildarskipt félag haft sjálfstæðan samning fyrir almennt verkafólk, fyrir verslunarmenn og fyrir sjómenn. Þá eru engin tengsl á milli þessara samninga önnur en að sama stéttarfélagið er aðili að þeim öllum.

Um tengsl og skýringar milli samninga er eðlilegt að sami skilningur sé lagður í ákvæði sem eru nákvæmlega eins í tveimur samningum, enda séu samningshóparnir sambærilegir. Þannig ber að skýra ákvæði um uppsagnarfrest með sama hætti hjá Verslunarmannafélagi Suðurnesja og Verslunarmannafélagi Árnessýslu. Dómsniðurstaða í túlkun á einstökum kjarasamningi getur þannig haft fordæmisgildi langt út fyrir þann samning sem verið er að túlka.

Tilvísun í kjarasamning annars stéttarfélags

Stundum vísar einn kjarasamningur til breytinga sem kunna að verða á öðrum kjarasamningum. Sérstaklega var þetta algengt hér áður fyrr þegar verðbólga var mikil. Þá vísuðu félög utan raða ASÍ gjarnan í samninga ASÍ og sömdu um að félagsmenn þeirra fengju þær kauphækkanir sem þar yrði samið um.

Spyrja má hvernig beri að fara með launahækkanir sem koma til hjá viðmiðunarhópum eftir að kjarasamningur er útrunninn eða honum sagt upp. Aðilar vinnumarkaðarins hafa litið svo á að eftir að kjarasamningur er útrunninn eða honum hefur verið sagt upp komi ekki til neinna launahækkana eða breytinga á kjörum þrátt fyrir hækkanir viðmiðunarhópa, þótt sú regla gildi að mönnum beri að virða ákvæði þess samnings þar til nýr samningur hefur verið gerður eða vinnustöðvun skollin á.

Augljósar villur

Komi í ljós að villur hafi augljóslega verið gerðar við gerð kjarasamnings, atriði fallið niður í ritvinnslu sem til hafi staðið að samið yrði um eða annað slíkt, hafa aðilar oftast lagfært slíka augljósa annmarka þegar þeir hafa uppgötvast. Haldi annar aðili því hins vegar fram að villa hafi orðið við kjarasamningsgerð, en hinn aðili heldur fram hinu gagnstæða ber sá sem vill halda fram þeirri staðhæfingu að um villu sé að ræða að sanna þá fullyrðingu sína. Í Félagsdómi 2/1959 (IV:207) hélt aðili því fram að villa hefði orðið við kjarasamningsgerð, en dómurinn féllst ekki á rök hans. Honum tókst ekki að sanna fullyrðingu sína fyrir dóminum.

Kröfur sem ekki náðu fram að ganga eru ekki hluti kjarasamnings

Kröfur sem hafa verið til umfjöllunar við kjarasamningsgerð en ekki ná fram að ganga verða ekki hluti af kjarasamningnum. Einungis það sem umsemst verður að kjarasamningi. Stundum kann að verða mjótt bilið þar á milli, sérstaklega ef verið er að semja um nýtt ákvæði, og útfærsla á því hlýtur ekki samþykki gagnaðilans. Þá verður sú útfærsla ekki hluti af kjarasamningnum.

Undantekningar ber að skýra þröngt

Undantekningar og undanþágur í kjarasamningum ber að skýra þröngt, svo sem almennar túlkunar- og skýringarreglur gera ráð fyrir.

Framkvæmd kjarasamnings

Framkvæmd kjarasamnings kann að festa ákveðna reglu, jafnvel þótt hún kunni að vera umdeilanleg. Vísast um þetta til kaflans um venju.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn